Málefni flugfélaga á landsbyggðinni

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:17:00 (726)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þau svör sem fram hafa komið við þessari fyrirspurn. Ég tek vissulega undir það sem hér hefur verið sagt af öðrum hv. þm., að vissulega þarf að gæta fyllstu öryggissjónarmiða, en eins og hv. þm. Halldór Ásgrímsson benti á hér áðan er það spurning hvort við tökum tillit til öryggis eins eða fleiri. Það má þá e.t.v. í framhaldi af því spyrja: Ef alls staðar ættu að vera tveir flugmenn í flugi samkvæmt ófrávíkjanlegum reglum, er þá ekki komið að því að ræða það hvort líka þyrftu að vera tveir bílstjórar á fólksflutningabílum sem flytja e.t.v. allt að 40 farþega? Samkvæmt rannsóknum eru umferðarslys miklu tíðari en flugslys.
    Ég vil þakka fyrir að hafa fengið þessi svör og að Loftferðaeftirlitið hefur fengið þessa tillögu samþykkta í flugráði. Þar eru þó lítils háttar frávik frá þessum stífu reglum.