Menntunar- og starfsréttindi lögreglumanna

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 11:25:01 (729)

     Fyrirspyrjandi (Björn Bjarnason) :
     Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. dómsmrh. er svohljóðandi:
    ,,Hvað líður framkvæmd laga um að eftir 1. júlí 1990 sé óheimilt að ráða eða skipa lögreglumann án þess að hann hafi lokið námi frá Lögregluskóla ríkisins?``
    Tilefni þess að fyrirspurnin er borin fram er að alþingismönnum hefur borist bréf frá Landssambandi lögreglumanna þar sem vakin er athygli á að enn séu óskólagengnir menn ráðnir til lögreglustarfa þrátt fyrir ákvæði laga um lögreglumenn. Þessu bréfi fylgir ályktun stjórnar Norræna lögreglusambandsins sem mótmælir harðlega að ríkisstjórn Íslands skuli sniðganga ákvæði laga um að allir lögreglumenn skuli hljóta nauðsynlega menntun áður en þeir hefji störf. Segir stjórnin réttilega að mínu mati að með þessu hætti ríkistjórn Íslands á að grafið verði undan virðingu fyrir landslögum.
    Á 111. löggjafarþinginu 1988--1989 fluttu þingmenn úr öllum flokkum nema Framsfl. frv. til laga um breytingu á lögum um lögreglumenn. Frv. var samþykkt og lögin staðfest 29. maí 1989. Samkvæmt þeim má engan ráða eða skipa lögreglumann eftir 1. júlí 1990 án þess að hann hafi lokið námi í Lögegluskóla ríkisins. Í lögunum er gert ráð fyrir tímabundnum undanþágum til einstaklinga frá þessu og skulu þær ekki raktar hér.
    Af gögnum sem ég hef undir höndum má ráða að andstaða hafi verið við það hjá framkvæmdarvaldshöfum að fyrrgreind breyting yrði gerð á lögunum um lögreglumenn. Þá hafa gengið erindi á milli Landssambands lögreglumanna og dómsmrn. þar sem skorað er á ráðuneytið að sjá til þess að lögin séu virt. Jafnframt hefur Landssamband lögreglumanna óskað eftir því við umboðsmann Alþingis að hann athugaði málið. Stendur sú athugun nú yfir.
    Allir ættu að sjá hve fráleitt er að lögreglumenn sem eiga að gæta laga og réttar í landinu skuli þurfa að standa í slíkum lagaþrætum við dómsmálayfirvöld. Er ákaflega brýnt að bætt verði úr þessu ófremdarástandi. Fyrirspurn þessi er borin fram í því skyni að auðvelda alþingismönnum að átta sig á þeim vanda sem lýst er í fyrrgreindu bréfi Landssambands lögreglumanna.
    Um þetta mál verður ekki heldur rætt án þess að vekja athygli á þeirri staðreynd að nú í vetur hefur fjölda nemenda í Lögregluskóla ríkisins verið settar of þröngar skorður vegna aðstöðu hans í nýju leiguhúsnæði í Nóatúni 21. Virðist ljóst að ákvörðun um að flytja skólann í þetta húsnæði hefur ekki byggst á mati á því að lögin frá 1989 kalla frekar á fjölgun í skólanum en fækkun. Hér skal ekki lagt mat á hvaða hagsmunir réðu þessu mati á húsnæði. Hitt er víst að það er ekki í samræmi við kröfur um aukna menntun lögreglumanna.