Heimild handa erlendum skipum til að landa í íslenskum höfnum

21. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 12:12:00 (746)

     Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. skýr svör og fagna því sem fram kom í máli hans að hann hyggist leggja frv. um þetta mál fyrir Alþingi á næstunni. Ég er sannfærður um að þetta er mikið hagsmunamál fyrir þær atvinnugreinar sem stunda viðskipti við sjávarútveginn, t.d. skipasmíðastöðvar, veiðarfæraverkstæði og framleiðendur tækja og búnaðar, olíufélög, verslun og fleiri. Ýmsir aðilar í þessum greinum hafa misst af verulegum viðskiptum, bæði vegna samdráttar hjá útgerðinni vegna minnkandi aflaheimilda og eins vegna þess að mörg stór verkefni hafa farið til þeirra þjóða sem stunda hvað villtastar niðurgreiðslur.
    Það má geta þess að þegar viðskipti við grænlensk skip fóru fram á Ísafirði var talið að þau hefðu á árinu 1988 numið hátt í 200 millj. kr. á verðlagi þess árs og því má ætla að hér sé um að ræða upphæðir sem hlaupi á hundruðum milljóna á ári. Það má einnig

vænta þess að þetta leiði til þess að erlend skip landi hér einhverjum afla og getur það bætt stöðu þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem ekki hafa nægilegt hráefni vegna þess mikla útflutnings sem á sér stað á ferskum fiski.
    Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til hæstv. sjútvrh. fyrir skýr svör og afdráttarlausa skoðun hans á þessu máli.