Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 14:49:00 (763)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Þessi skattur var fyrst lagður á á árinu 1979 og síðan hefur skatturinn verið lagður á, reyndar lækkaður samkvæmt sérstökum lögum sem gilt hafa í eitt ár í senn. Í ár fer um álagningu og innheimtu þessa skatts eftir lögum nr. 110/1990.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1991 er áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði um 460 millj. kr. Gert er ráð fyrir að verði þetta frv. samþykkt gefi skatturinn 500 millj. á næsta ári.
    Frv. er efnislega samhljóða lögum sem nú gilda. Eins og fram kemur í grg. með frv. og reyndar í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir að þessi sérstaki eignarskattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði felldur niður þegar upp hefur verið tekin almenn skattlagning eignatekna. En að því er stefnt að flytja frv. um eignatekjuskatt, fjármagnstekjuskatt síðar á þessu þingi.

    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um frv. þetta sem hér er til umræðu. Vonandi þarf ég ekki að koma fleiri ferðir í þennan ræðustól til þess að mæla fyrir slíku frv. Ég er einn þeirra sem um margra ára skeið hef staðið hér í pontu og mælt gegn skattlagningu á borð við þessa. Ég er enn þá sömu skoðunar. Ég tel að þessi skattlagning sé þess eðlis að frá henni beri að víkja. Ekki gafst ráðrúm til að gera það við fjárlagagerðina fyrir næsta ár en að því er stefnt eins og ég hef rækilega tíundað og tekið fram, að þessi skattur falli niður frá árinu 1993 enda verði þá búið að gera þær breytingar á lögum sem nauðsynlegt er að gera til þess að samræma eignarskatta og eignatekjuskatta.
    Þeim, sem vilja kynnast skoðunum mínum, bendi ég á að fletta upp í þingtíðindum fyrri ára. Þar er ýmislegt að finna til rökstuðnings gegn þessu frv. og vonast ég til þess að menn láti það nægja að ég lýsi því hér en komi ekki í ræðustólinn og lesi það upp því mér er vel kunnugt um það hver afstaða er til málsins. Það er hins vegar einfalt og reyndar ódýrt fyrir stjórnmálamenn að koma í ræðustólinn og segjast fara gegn þessum skatti nú. En við þær aðstæður, sem nú ríkja, verðum við að gera þær kröfur til sjálfra okkar að þá verði bent á leiðir til að spara á móti. Ég skal viðurkenna að ég velti því mjög mikið fyrir mér þegar var verið að taka ákvörðun um það hvort flytja skyldi þetta frv. eða ekki. Ég taldi mér skylt að flytja frv. á meðan ég gæti ekki með beinum hætti bent á frekari niðurskurð eða nýja skattheimtu sem kæmi í staðinn og lét það þess vegna viðgangast að þetta frv. væri flutt enn á ný í trausti þess að okkur takist að útrýma þessum skatti að einu ári liðnu.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu mæltu að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.