Stefna ríkisstjórnarinnar í kjaramálum

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 16:14:00 (780)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég læt ekki brýna mig lengi að koma hér og taka þátt í þessari umræðu. Ég ætla að koma aðeins að ræðu hæstv. heilbrrh. þar sem hann lýsti skilmerkilega hvaða árangri var náð með þjóðarsáttarsamningunum, og sá árangur náðist með dyggum stuðningi þáv. ríkisstjórnar. Það að viðhalda þeim árangri sem þá náðist er að mínu mati einhver mesti prófsteinn sem íslensk stjórnvöld hafa staðið frammi fyrir um árabil. En því miður sé ég ekkert það í gerðum núv. ríkisstjórnar sem bendir til þess að hún hafi getu til að viðhalda þeirri sátt í þjóðfélaginu sem þar náðist. Á meðan ríkisstjórnin og einstakir ráðherrar láta fara þannig fram að það er helst hægt að líkja því við framferði fíls í kristalsverslun --- og á hæstv. heilbrrh. kannski ekki minnst af þeirri samlíkingu, enda maðurinn fyrirferðarmikill --- á meðan svo fer fram, er ég ekki bjartsýnn á að það takist að viðhalda þessari sátt sem er í raun grunnurinn að því að við getum á næstu árum stefnt inn í það þjóðfélag sem ég þykist vita að við viljum öll stefna að, þjóðfélag stöðugleika og jafnvægis, þjóðfélag sem geti lagt grunninn að bættum hag þegnanna.