Málefni Ríkisútvarpsins

22. fundur
Fimmtudaginn 07. nóvember 1991, kl. 17:01:00 (799)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Hv. þm. spyr um stefnu í málum Ríkisútvarpsins og hvaða hugmyndir liggi að baki yfirlýsingum mínum um endurskoðun laganna og jafnframt hvort selja eigi Rás 2.
    Endurskoðunin er fyllilega tímabær. Það er komin ákveðin reynsla á þeim árum sem liðin eru frá því að útvarpslögin voru sett, bæði að því er varðar ákvæðin um Ríkisútvarpið og einkastöðvarnar, og þessa reynslu þarf að meta. Það eitt nægir út af fyrir sig til að réttlæta endurskoðun. Einnig kemur til alþjóðleg tækniþróun. Það er ekkert sérstaklega á dagskrá nú fremur en áður að selja Rás 2.
    Við endurskoðun útvarpslaga er sjálfsagt að athuga möguleika á að breyta rekstrarformi ákveðinna deilda Ríkisútvarpsins. Menn þurfa ekki að fyllast neinni skelfingu þó að slík athugun fari fram og yfirleitt athugun á hlutdeild ríkisins í útvarpsrekstri. Endurskoðun útvarpslaga hlýtur einnig að fela í sér skilgreiningu á veigamiklum hugtökum í útvarpi, til að mynda útvarp um þráð, móttaka og endurvarp útvarpsefnis, dagskrárefni, ábyrgð á útvarpsefni, efnisleg skilyrði fyrir leyfisveitingu til útvarps, auglýsingar í ljósvakamiðlum, dreifing dagskrárefnis um þráð, efling innlendrar dagskrárgerðar, svo einhver atriði séu nefnd.
    Hvort rekja megi úrsögn fulltrúa Sjálfstfl. úr útvarpsráði til stefnubreytingar held ég að ég verði að svara neitandi og byggi það svar á viðtölum sem hafa birst við tvo þeirra

sem sögðu sig úr útvarpsráði.
    Hv. þm. spyr hvort trúnaður hafi verið tryggður milli mín og nýkjörinna fulltrúa Sjálfstfl. í útvarpsráði. Spurningin er að vísu út í hött en ég svara henni þannig að ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en trúnaður ríki milli okkar. Ég merki það af því að þeir gáfu kost á sér og sitja nú í ráðinu ásamt þeim sem áður höfðu þar verið kjörnir og sögðu ekki af sér. Ég tek hins vegar fram að þeir hafa ekki svarið mér neina trúnaðareiða enda er ekki farið fram á slíkt. Ég get því ekki fyrir þeirra hönd gefið yfirlýsingu um að þeir sitji út kjörtímabilið. Það er auðvitað hugsanlegt að þeir verði svo ósáttir við embættisfærslu mína að þeir telji sér ekki vært, en ég vona að til þess komi ekki. Meira hef ég ekki um þetta að segja. Ég er búinn með tímann og á eftir að svara um langbylgjumastrið en ég fæ kannski tækifæri til þess á eftir.