Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

23. fundur
Mánudaginn 11. nóvember 1991, kl. 15:03:00 (844)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. sjútvrh. er að reyna að bera af sér grundvallarbreytingar í fiskveiðistjórnun. Ef áform hans ná fram að ganga verður hann fyrsti ráðherrann sem leggur til að aflaheimildir verði seldar einungis í því skyni að fénýta þær sem skattstofn fyrir ríkisstofnun. Af því sem lagt hefur verið fram um þessar fyrirhuguðu breytingar má ráða að út úr núgildandi lögum, svo gölluð sem þau nú eru að mínu mati, enda stóð ég ekki að þeim hæstv. ráðherra, verður tekið það ákvæði að grípa inn í málin í einstökum byggðarlögum þegar þau verða fyrir skakkaföllum af því tagi að missa frá sér verulegar aflaheimildir. Þessi þáttur verður tekinn út úr núgildandi lögum og í staðinn verða heimildirnar seldar með einhverjum hætti. Hér er í fyrsta lagi um að ræða verulega breytingu frá núgildandi lögum og í öðru lagi er ráðherrann að hrinda í framkvæmd grundvallarbreytingu á sjávarútvegsstefnunni þrátt fyrir hans fyrri yfirlýsingar um að hann sé andvígur veiðileyfagjaldi. Með þessu móti væri verið að stíga það skref sem ég óttast að menn mundu ekki ná að stíga til baka heldur muni festast í veiðileyfasölukerfinu, svo gæfulegt sem það nú er fyrir landsbyggðina.
    Ég vil líka minna hæstv. sjútvrh. á, vegna áforma um breytingar á núgildandi lögum um Hagræðingarsjóð, að nú þegar eru vandamál í ýmsum byggðarlögum þar sem menn eru að glíma við hvernig þeir geta haldið fiskveiðiheimildunum sem þeir hafa nú. Það er ekkert lítið vandamál sem verið er að glíma við því að þar er m.a. um að ræða tölur af stærðargráðunni um það bil 1 milljarður kr. Og það er ekki lítill skattur, hæstv. ráðherra, á lítið byggðarlag ef menn neyðast til þess að kaupa lífsafkomu sína á fullu verði og það munu menn auðvitað gera fremur en að missa hana.

    Það má líka minna á að þær aflaheimildir sem eru til reiðu í Hagræðingarsjóði eru heimildir sem voru teknar frá öðrum, heimildir sem hefðu annars runnið til útgerðarmanna samkvæmt þeim reglum sem um það gilda. Þetta er raunverulega af þeim tekið og þeim síðan boðið að kaupa það aftur. Auðvitað er þetta ekkert annað en skattlagning. Það er alveg furðulegt hlutverk Sjálfstfl. í stjórn landsins að leggjast á það af meiri þunga en nokkur annar flokkur að skattleggja landsbyggðina og að standa gegn því að breyta núgildandi lögum um fiskveiðistjórn Íslands þannig að mönnum sé gert kleift að bjarga sér sjálfir. Það ætti öllum að vera ljóst að miðað við núgildandi lög er það í raun ógerlegt að framfylgja þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að sjávarútvegsfyrirtæki eigi að fara á hausinn ef þau geta ekki bjargað sér sjálf því ef slík fyrirtæki fara á hausinn þýðir það uppnám í viðkomandi byggðarlagi vegna aflaheimildanna. Og hvort tveggja geta menn ekki gert í senn, að vera að selja mönnum þessar heimildir en halda óbreyttri skipan í fiskveiðistjórnun.