Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 16:06:00 (871)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
     Virðulegi forseti. Tjaldið er fallið og þáttaskil orðin í því absúrd-leikriti sem hér hefur verið leikið mánuðum saman undir heitinu ,,Beðið eftir álveri.`` Það er einkenni slíkra verka að áhorfendum er ljóst að ekki er allt með felldu og að ýmsu fáránlegu er haldið fram en leikararnir halda sínu striki af sannfæringu. Flestir leikendanna eru nú farnir af sviðinu og áhorfendur staðnir upp en eins og jafnan gerist í absúrd-verkum er óljóst hver staðan er.

    Við kvennalistakonur trúum því að leikritinu sé lokið og komið að því að brjóta til mergjar innihald þess og semja framhald í öðrum anda. Aðalleikarinn, hæstv. iðnrh., er hins vegar trúr innihaldi verksins og endurtekur mottóið: Það kemur, það kemur, það er alveg að koma. Hann stendur enn á sviðinu, enda heldur hann að það sé a.m.k. einn þáttur eftir enn. Reyndar glittir í hinn aðalleikarann, seðlabankastjórann og formann stjórnar Landsvirkjunar í daufri skímu sviðsljósanna. Hann er á leið út af sviðinu eins og hinir, sennilega á einhvern stjórnarfundinn.
    Við kvennalistakonur drögum ekki dul á þá skoðun okkar að bygging álvers á Íslandi hefði verið reginmistök og röng atvinnustefna. Og það verður ekki sagt að við séum harmi slegnar yfir því að hætt hefur verið við þau áform að sinni. Við höfum lengi verið þeirrar skoðunar að álversdraumurinn væri ekkert annað en draumsýn þar sem mörg teikn hafa verið á lofti sem bentu í þá átt að ekkert yrði úr.
    Hins vegar er ekkert fagnaðarefni þegar þjóðarbúið verður fyrir áföllum, hvaða ástæður sem þar liggja að baki. Það er ekkert fagnaðarefni þegar fólk missir vinnu sína og enn síður er það fagnaðarefni að eytt hefur verið milljörðum kr. til samninga, undirbúnings og virkjanaframkvæmda, til að fullkomna stóriðjudrauminn sem að engu er orðinn því ólíklegt er að sá gluggi tækifæranna, eins og iðnrh. kallar það, opnist að nýju.
    Ábyrgð þeirra manna er mikil sem haldið hafa um stjórnartaumana undanfarin ár og einblínt á álver og aftur álver sem nánast einu lausnina á atvinnuvanda Íslendinga. Stærsta ábyrgð ber þó hæstv. iðnrh. sem hefði af hálfu ríkisvaldsins átt að segja: Hingað og ekki lengra, fyrir mörgum mánuðum þegar álverð fór stöðugt lækkandi og ljóst varð að bygging álvers á Íslandi var ekki vænlegur kostur, hvorki fyrir álfurstana né lánardrottna þeirra sem að sjálfsögðu meta þá áhættu sem skuldunautar þeirra eru að leggja út í. Þess í stað kaus hæstv. iðnrh. að halda áfram vegna þess að hann trúir sennilega því sem hann sagði í fjölmiðlum í gærkvöldi að framtíð áliðnaðar væri björt. Mikil er sú trú. En hún er bara ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.
    Á undanförnum mánuðum hefur verð á áli verið afar lágt á heimsmarkaði, fyrst og fremst vegna mikils framboðs. Sovétmenn hafa boðið mikið magn af áli á lágu verði, m.a. vegna gífurlegs gjaldeyrisskorts. Samkvæmt upplýsingum að austan, sem m.a. koma frá íslenskum verkfræðingi sem þar vinnur við ráðgjöf, eiga Sovétmenn miklar birgðir og geta framleitt enn meira þannig að þess er ekki að vænta að offramleiðsla minnki og að álverð hækki á næstunni. Þar við bætist að efnahagshorfur í hinum vestræna heimi, sem mest nýtir af áli, eru ekki eins glæstar og spáð hafði verið, mælt á mælikvarða hagvaxtarins sem ég set vissulega spurningarmerki við.
    Miklar umræður hafa átt sér stað um hættu sem fólki stafar af álumbúðum og eiga þær eflaust sinn þátt í minni sölu en gert hafði verið ráð fyrir. Þá hafa afvopnunarsamningar stórveldanna þegar gert það að verkum að dregið hefur úr vopnaframleiðslu en þau áhrif eiga eftir að verða meiri þar sem enn er verið að framleiða upp í gerða samninga og samdráttar tekur ekki að gæta fyrr en síðar.
    Hæstv. forsrh. er nýkominn af fundi NATO í Róm þar sem ákveðinn var töluverður niðurskurður á herafla í Evrópu. Sú ákvörðun, sem vissulega ber að fagna, á eftir að segja til sín á álmarkaði eins og annað sem snertir vopnaiðnaðinn.
    Að öllu þessu samanlögðu er harla ólíklegt að framtíð áliðnaðar sé björt eins og hæstv. iðnrh. heldur fram.
    Hæstv. iðnrh. verður tíðrætt um ,,síðari byltinguna`` í Sovétríkjunum og á þar líklega við þá atburði sem gerðust þar eystra undir lok ágústmánaðar, en þeir hafa að sögn ráðherrans sett álheiminn á annan endann og eiga hvað mestan þátt í þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin, ef ég skil hann rétt. Þessi söguskýring kemur okkur sagnfræðingunum í Kvennalistanum spánskt fyrir sjónir. Það er erfitt að átta sig á hugtakinu ,,síðari byltingin`` og hvernig hún tengist málinu. Hver var hin fyrri bylting að dómi ráðherrans? Á hann við byltinguna 1917 eða valdatöku Gorbatsjovs? Og hvernig skýrir þetta byltingarhjal stöðu mála hér? Ég fæ ekki séð að það skýri nokkurn skapaðan hlut því að álverð hefur verið í lágmarki mun lengur en frá því í ágúst og framboð mikið allt þetta ár, líka frá Sovét.

    Það er því kattarþvottur einn að skýla sér á bak við þróun alþjóðamála síðustu vikna. Hér er um að ræða mun lengri aðdraganda og við hæstv. iðnrh. og ráðgjafa hans að sakast því að þeir hefðu átt að sjá að sér fyrir löngu. Það er þjóðinni síst til hagsbóta að þrjóskast svona við. Menn verða að horfast í augu við raunveruleikann og draga í land í tíma.
    En nú er tækifærið til að söðla um og hefja mótun raunhæfrar atvinnustefnu sem tekur mið af náttúru landsins, gögnum þess og gæðum, atvinnustefnu sem gengur út á að nýta betur það sem við eigum, atvinnustefnu sem miðast við að tryggja byggð í landinu og síðast en ekki síst atvinnustefnu sem tekur mið af konum og þörfum þeirra, en atvinnuhorfur kvenna víða um land eru ekki glæstar.
    Við eigum marga möguleika sem þarf að þróa, þar með talda þá ónýttu orku sem hægt er að nýta til framleiðslu sem ekki er mengandi, framleiðslu sem horfir til framtíðar. Á ég þar ekki síst við vetnisframleiðslu þótt hún krefjist nokkurs undirbúnings.
    Virðulegi forseti. Það er bjargföst sannfæring mín að sú stóriðjustefna sem hér hefur verið rekin á kostnað annarrar atvinnuþróunar um árabil er tímaskekkja. Þrátt fyrir áratuga umræður verða þau vandamál sem mannkynið glímir við æ alvarlegri. Lungu jarðarinnar, skógarnir, eru tættir niður, eiturefni streyma út í andrúmsloftið og menga höf, land og loft, enda komin göt á ósonlagið. Neysluhyggja Vesturlanda hleður upp haugum af sorpi og hættulegum úrgangi sem enginn veit hvernig á að losna við. Gengið er æ lengra á auðlindir jarðarinnar jafnframt því sem bilið milli ríkra þjóða og fátækra fer vaxandi. Iðnaðarstefna Vesturlanda með sína hagvaxtardýrkun er þrátt fyrir allar framfarir aðalsökudólgurinn og ég er sannfærð um að sú stund nálgast er Vesturlandabúar verða að horfast í augu við þá staðreynd að þessir lifnaðarhættir okkar ganga ekki lengur ef við ætlum að lifa á þessari einu jörð sem við eigum. Þess vegna er mengandi stóriðnaður fortíðarhyggja, stefna sem innan tíðar verður að mestu aflögð. Við munum verða að leysa þarfir okkar á annan hátt með bættri nýtingu, endurvinnslu og hreinlega með því að gefa upp á bátinn lúxus eins og bensínknúna bíla. Nú þegar er stefnt að banni á bensínbílum í borgum eins og Los Angeles og þeir eru bannaðir tímabundið í nokkrum borgum Evrópu. Æ fleirum er ljóst að breytinga er þörf og því felast möguleikar okkar í því að slást í hóp þeirra sem verja vilja jörðina og náttúruna og laða til okkar þá sem njóta vilja óspilltrar náttúru í landi þar sem vegirnir eru ekki varðaðir spúandi verksmiðjum.
    En hvað blasir nú við? Hvað hyggst ríkisstjórnin gera? Á næstu dögum verða menn að setjast niður, endurskoða þjóðhagsáætlun og fjárlögin þar sem ríkisstjórnin var svo glámskyggn, þrátt fyrir hin mörgu teikn, að reikna álversframkvæmdirnar inn í dæmið. Tekjur ríkissjóðs munu minnka nokkuð og samdráttur verður í virkjunarframkvæmdum. Þar á móti kemur að erlendar lántökur verða minni, skuldsetning þjóðarinnar minnkar og það sem mestu skiptir, hætt verður við áform sem hefðu hæglega getað komið þjóðinni á kaldan klaka.
    Í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1992 segir fyrir neðan línuritið á bls. 36 þar sem gerð er grein fyrir skuldastöðu þjóðarinnar, með leyfi forseta:
    ,,Á myndinni hér að ofan sést að ef þessir reikningar`` og þarna er átt við reikninga með haglíkani Þjóðhagsstofnunar, ,,ganga eftir, þá ná erlendar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu sögulegu hámarki árið 1995, verða þá rúmlega 58%. Á undangengnum árum hefur þetta hlutfall komist hæst í 53% árið 1985. Til samanburðar má geta þess að árið 1960--1965, fyrir upphaf virkjanaframkvæmda vegna álvers Alusuisse í Straumsvík, var hrein skuld við útlönd í kringum 20% af landsframleiðslu. Þjóðarbúið er því að þessu leyti til í mun verri stöðu nú til að taka áhættu en þá. Það verður raunar að taka það skýrt fram að í þessum reikningum er í raun innifalin forsenda um strangt aðhald í hagstjórn þannig að ekki komi til óhóflegrar þenslu með tilheyrandi verðbólgu, raungengishækkun og útstreymi gjaldeyris. Svo að dæmi sé tekið þá lætur nærri að samanlagður fjárfestingarkostnaður í álveri og virkjunum að frádregnum eiginfjárframlögum sé um 80 milljarðar kr. á verðlagi 1991. Ef allir þessir peningar streyma út úr landinu aftur --- hluti þeirra gerir það óumflýjanlega vegna innflutnings á fjárfestingarvörum vegna framkvæmdanna --- mundi hlutfall erlendra skulda sem spáð er að verði um 175 milljarðar í árslok 1991 fara í um 70% af landsframleiðslu í árslok 1995 sem hefði óhjákvæmileg áhrif á lánstraust okkar erlendis.``
    Þetta er ljót spá og við skulum þakka fyrir að nú gefst tækifæri til að sveigja inn á aðrar brautir. Það er verk að vinna í atvinnumálum á Íslandi. Það er hlutverk stjórnvalda að skapa hagstæð skilyrði, stuðla að rannsóknum og tilraunum og beita sér fyrir aðgerðum sem styrkt geta skynsamlega byggðastefnu í landinu. Við þurfum öll að leggjast á eitt og ekki stendur á okkur Kvennalistakonum til góðra verka.
    Virðulegi forseti. Tjaldið er fallið. Látum þessum sorglega absúrd-leik vera lokið, hæstv. iðnrh., og snúum okkur að alvöru lífsins.