Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 17:04:00 (878)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Því miður fer þessi umræða fram eftir þeirri grein þingskapa sem takmarkar ræðutíma. Hér er auðvitað fjöldamargt sem þyrfti að segja um aðdraganda þessa máls og atvinnuhorfur á komandi árum. Ég veit að það er slæmt bæði fyrir okkur þingmenn og einnig fyrir hæstv. ráðherra iðnaðarmála, sem ég geri ráð fyrir að þurfi að segja býsna margt um málin. Í rauninni hefði verið mikið heppilegra að umræða um þessi mál hefði farið fram í því formi sem mótað er í þingsköpum og heitir umræður um skýrslu þar sem kostur er á því að ræða um málin og ráðherra hefur meiri möguleika á að svara fyrir sig en í þessu formi sem hér er.
    Ég hef orðið var við nokkra undrun hjá ýmsum yfir því hvernig staða málsins er. Ýmsir láta þannig, eins og hv. síðasti ræðumaður, að þetta hafi komið sér á óvart. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er eitt sem kemur mér mjög á óvart í þessu máli er að hæstv. iðnrh. skuli ekki halda áfram að berja höfðinu við steininn. Ég sé engin efnisleg rök fyrir því að hann hætti að berja höfðinu við steininn, að hann hætti því og geri það ekki áfram, rétt eins og hann hefur gert að undanförnu vegna þess að það hefur legið fyrir mjög lengi að þetta mál er með þeim hætti að það var vonlítið eða vonlaust að niðurstaða fengist alveg á næstunni.
    Í þeim efnum má auðvitað gagnrýna margt. Ég vil í því sambandi t.d. gagnrýna meðferð málsins fyrir hv. iðnn. þar sem iðnrh. hefur matreitt fyrir nefndina sérstök skjöl en aldrei trúað henni fyrir frumgögnum. Ég vil einnig í þessu sambandi gagnrýna það hvernig hann hefur leikið sérfræðinga sína sem í rauninni hafa ekki þorað að segja hug sinn allan vegna þess hvað hann fyrirskipaði að sagt skyldi í þessum málum. Ég þekki hins vegar hæstv. iðnrh. af samstarfi í ríkisstjórn, sat með honum á einum 200--250 fundum um skeið þar sem oft var rætt um álver og iðnaðarmál. Hann byrjaði strax að nudda haustið 1988 með því að það ætti að gera hagkvæmniathugun. Þessu var haldið áfram.

Næsti þáttur var staðarvalsdansinn. Það voru ellefu staðir á landinu valdir til að byrja með, ellefu stöðum var gefin von um það að e.t.v. kæmi þetta álver. Síðan var þeim fækkað í þrjá og settar voru upp sýningar á öllum þessum stöðum, allt í kringum landið svo að segja, til að gefa mönnum von um það að hugsanlega kæmi álver. Ég segi: Þetta er ljótur leikur. Það er ljótur leikur hvernig hæstv. iðnrh. á þeim tíma kom fram gagnvart íbúum staðanna, sérstaklega þar sem um er að ræða litla atvinnu eða atvinnuleysi.
    Málið hélt áfram og vorið 1990 var það sérstaklega tekið fyrir í ríkisstjórn. Haustið 1990 er það svo tekið fyrir með þeim hætti að hæstv. iðnrh. ætlar að undirrita samninga. Hann segir fullum fetum í viðtali við fjölmiðla í september 1990 að það eigi að undirrita samninga. Samninga var það kallað. Hæstv. núv. forsrh. mótmælti þeim samningum og það gerðu í rauninni allir aðrir en flokkur hæstv. iðnrh.
    Af hverju var það sem menn ákváðu að undirrita þessa samninga haustið 1990 sem voru þó í rauninni engir samningar? Ástæðan var fyrst og fremst innanflokkspólitísk, ástandið inni í Alþfl. Það þurfti í fyrsta lagi að halda flokksþing Alþfl. haustið 1990 og í öðru lagi þurfti að bjóða iðnaðarráðherrann fram einhvers staðar. Það var af þessum ómerkilegu, innflokkspólitísku ástæðum sem ákveðið var að knýja fram undirritun pappíra, sem voru ekki neitt, í októbermánuði 1990.
    Enn er haldið áfram að nudda og þegar kemur að stjórnarmyndun vorið 1991, þegar það lá fyrir að þáv. stjórnarflokkar höfðu meiri hluta á Alþingi, er ákveðið að rjúfa stjórnina, rjúfa þá ríkisstjórn sem þá sat og hafði meiri hluta til þess að mynda stjórn með Sjálfstfl. þannig að hægt væri að keyra áfram með þetta mál, gjörsamlega án tillits til allra aðstæðna.
    Iðnrh. hefur með öðrum orðum alveg frá sumrinu 1987 sett sér það markmið að ná fram samningum um álver á Íslandi hvað svo sem það kostaði. Og það er þess vegna sem rafmagnsverðið, sem liggur fyrir í samningsdrögunum er of lágt, það er óheyrilega lágt, þrátt fyrir kraftaverk þeirra hv. þm. Páls Péturssonar og hæstv. núv. forsrh. Það er óheyrilega lágt og umhverfiskröfurnar eru fyrir neðan allar hellur og það snýst ekki um einhverjar samtengingar í samningsdrögunum, heldur um miklu alvarlegri hluti. M.a. eru gerðar minni kröfur um mengunarvarnir í þessu hugsanlega álveri en t.d. er gert í nýjum álverum í Noregi.
    Þessa sögu má rekja og það má gagnrýna ýmsa þætti hennar og líka aðferðina. Eitt er það sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykn., fyrrv. forsrh., og það er leyndin sem hvíldi yfir þessu máli gagnvart öðrum stjórnarflokkum.
    Einnig er ástæða til að gagnrýna hvernig á þessu máli var haldið þegar hæstv. iðnrh. tók samningana í sínar hendur eins og margir hv. ræðumenn hafa rætt hér.
    Og einnig er ástæða til að gagnrýna það að Landsvirkjun fékk í raun og veru ekki að fylgjast með málinu eins og skilmerkilega var rakið t.d. í ræðu sem flutt var hér á Alþingi 15. okt. í fyrra af hv. fyrrv. þm. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Málið var tekið af Landsvirkjun. Landsvirkjun fékk ekki að vita um málið. Formaður stjórnar Landsvirkjunar var bundinn slíkum trúnaði að hann mátti ekki segja frá því í stjórn Landsvirkjunar að sögn fyrrv. hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar.
    Þá er einnig ástæða til að gagnrýna það, virðulegi forseti, hvernig sérfræðingarnir hafa verið múlbundnir í þessu máli. Ég segi alveg eins og er að þetta mál og vinnubrögðin í því í sumar gagnvart iðnn. Alþingis gefa tilefni til að velta því fyrir sér hver sé hlutur sérfræðinga í íslenska stjórnkerfinu. Þegar t.d. var rætt við þessa sérfræðinga um vaxandi framleiðslu og sölu á áli frá Sovétríkjunum, þá var ekki nokkur leið að fá menn til að staldra við þann veruleika þó að það lægi t.d. fyrir í greinum í blöðum eins og The Economist að um stóraukna framleiðslu og sölu á áli væri að ræða frá Sovétríkjunum og fyrirsjáanlegt að verðið mundi lækka. Menn fengust ekki til að ræða þetta mál. Ég spyr mig að því sem þingmaður, hafandi verið ráðherra aftur og aftur: Hver er hlutur sérfræðinga hér í stjórnkerfinu við þessar aðstæður? Ég segi það, virðulegi forseti: Þetta sannfærir mig um nauðsyn þess að Alþingi eigi sína sérfræðinga sem geta rætt við þá sérfræðinga sem starfa undir verndarvæng ráðherranna á hverjum tíma.
    Það er einnig ástæða til að gagnrýna efni málsins og nálgun þess alla, virðulegi forseti, eins og t.d. þá patentatrú sem birtist í þessu máli. Einkenni á öllum atvinnumálaumræðum á Íslandi er patentlausnin. Einu sinni voru það togarar, einu sinni voru það frystihús og síðan álver og aftur álver. En menn hafa ekki fengist til þess að staldra við hina almennu þróun, menn hafa trúað á einstök kraftaverk, stórar verksmiðjur, stór fyrirtæki, stór skip. Það er þessi patentatrú, gamaldags fortíðarpatentatrú sem hefur drifið hæstv. iðnrh. áfram í þessu máli og sú atvinnustefna sem þannig birtist hefur að undanförnu verið að hrynja víða í heiminum eins og menn þekkja.
    Ég ætla, virðulegi forseti, hins vegar að segja að það sem skiptir langmestu máli núna er það hvernig við tökum á málum í framtíðinni. Það alvarlegasta við umræðuna núna, bæði í dag og í gærkvöld af hálfu hæstv. iðnrh., er að það á að halda áfram að nudda. Það á að halda áfram með sama nuddið. Það á að vitja álsins, það á að vitja álfurstanna sem sitja eins og meyjar við opna glugga einhvers staðar og bíða eftir að hæstv. iðnrh. syngi fyrir þá. Þetta er dæmigert fyrir þá þrákelkni sem hæstv. iðnrh. hefur sýnt í þessu máli og vekur ugg vegna þess að nú ríður á að menn skoði önnur atvinnutækifæri, aðra möguleika, nýja möguleika með öðrum áherslum. Í því sambandi hafa mörg dæmi verið nefnd. Ég bendi á eitt sem liggur á borðum þingmanna í dag sem er tillaga frá mér og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um útflutning á raforku um sæstreng. En ég nefni annan þátt sem gæti kannski skipt enn þá meira máli og það er að ríkisstjórnin reki af sér slyðruorðið að því er varðar framlög til rannsókna og þróunarverkefna.
    Í fjárlagafrv. fyrir árið 1992 er gert ráð fyrir að skera niður rannsóknaframlög um 25% að raungildi. Það er auðvitað algerlega fráleitt fyrir þjóð sem stendur frammi fyrir tilteknum atvinnulegum vanda að hafa slíkar áherslur uppi og því skora ég á ríkisstjórnina, einmitt í þessum umræðum nú, að endurskoða þessa áherslu og taka upp þessa þætti fjárlagafrv. og taka ákvörðun um að veita myndarlegu fjárframlagi til rannsókna og þróunarverkefna á komandi árum.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. iðnrh. í þessari umræðu sem hlýtur að verða knöpp: Hvaða skuldbindingar eru það sem falla nú á ríkissjóð vegna þeirra ákvarðana sem þegar hafa verið teknar? Hvaða skuldbindingar hafa þegar fallið á ríkissjóð? Það eru einhver hundruð millj. kr. Menn hafa nefnt 800 millj. Og ég vil spyrja: Hvaða frekari skuldbindingar falla á ríkissjóð m.a. vegna jarðakaupa? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þessar tölur verði dregnar fram í dagsljósið núna til þess að menn geti áttað sig á því hvað þetta leikrit, sem hér var nefnt svo, hefur í rauninni kostað þjóðina. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. sjái sér fært að svara þessari fyrirspurn um leið og ég endurtek: Ég læt í ljós ugg yfir því að hann virðist ætla að halda áfram að nudda. Hann virðist því miður ekki hafa lært neitt enn þá.