Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Þriðjudaginn 12. nóvember 1991, kl. 23:46:00 (913)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Fyrst hæstv. iðnrh. kaus að misnota sér þá tillitssemi sem þingsalurinn og forsetinn sýndu honum hér áðan með því að fara með samansafn af rangfærslum, útúrsnúningum og hótfyndni er óhjákvæmilegt að óska formlega eftir því að hann flytji þinginu skýrslu um þetta mál í næstu viku þannig að við höfum þann tíma sem við þurfum til þess að hrekja rangfærslur ráðherrans hér og fara með þau gögn sem við höfum á okkar skrifstofum frá honum sjálfum í þessu máli meðan við sátum í ríkisstjórn. Það verður ekki liðið að ráðherrann þori ekki að koma fyrr en eftir jól til að ræða þetta mál. En það var alveg greinilegt að hann þorir ekki að koma hér fyrr en eftir jól til að ræða málið með þeim hætti að við höfum nægilegan umræðutíma, aðrir þingmenn til þess að hrekja rangfærslur hans. Ég skora þess vegna á ráðherrann að segja það hér og nú að hann sé tilbúinn að koma strax í næstu viku með sína skýrslu en skjóti sér ekki á bak við það að geyma það þangað til eftir jól.
    Rangfærslurnar voru margar. Ég ætla bara að nefna örfáar á skömmum tíma. Hann sagði að umhvn. hefði verið gerð fullnægjandi grein fyrir því hvað hefði gerst í umhverfismálum. Það er rangt. Umhvn. hefur skrifað formlegt bréf undirritað af formanni nefndarinnar, alþýðuflokksmanninum hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni, þar sem umhvn. óskaði eftir því fyrir mörgum vikum síðan að fá þessi gögn í hendur og hefur verið neitað um það hingað til. Það er því rangt, hæstv. iðnrh., að umhvn. hafi þau gögn undir höndum sem ráðherrann er í tvígang hér í þessum umræðum búinn að segja að nefndin hafi. Það hefur hún ekki. Henni hefur verið neitað um það fram til þessa. Og það hefur verið rætt á tveimur fundum í umhvn. hvernig hún eigi að bregðast við þeirri ósk allra nefndarmanna að fá þessi gögn í hendur sem neitað hefur verið um.
    Hæstv. ráðherra kaus að skjóta sér á bak við minnisblað sem ég lagði fram í ríkisstjórn varðandi viðræður við Goldman Sachs þar sem tilgangur þess minnisblaðs var fyrst og fremst að gera grein fyrir ákveðinni tillögu en ekki rekja algjörlega allar þær viðræður sem fóru fram við fulltrúa Goldman Sachs. Það veit hæstv. ráðherra. Og hann veit líka að ég greindi honum persónulega, ég greindi frá því í ráðherranefndinni og ég greindi líka munnlega í ríkisstjórninni frá því sem fulltrúar Goldman Sachs sögðu og ef hann vill fá nánari upplýsingar, þá getur hann rætt við Sigurgeir Jónsson, forsvarsmann Lánasýslu ríkisins, og Pál Guðmundsson sem sátu þennan fund.
    Það er líka rangt sem hæstv. ráðherra sagði hér að það hefði verið hann sem hafi slitið viðræðunum í fyrri hluta álmálsins þegar Alusuisse gekk út úr málinu. Það vitum við sem sátum í þeirri ríkisstjórn að bæði hæstv. iðnrh. og Jóhannes Nordal fullvissuðu okkur um það að Alusuisse mundi halda áfram og þeir voru báðir furðu lostnir, Jóhannes Nordal og hæstv. iðnrh., þegar Alusuisse dró sig út úr þessu máli. Lýsing hans á þeim atburðum var satt að segja fáránleg í eyrum okkar sem þekkjum þá sögu.
    Að lokum, virðulegi forseti, sagði hæstv. ráðherra að ég hefði krafist þess að samningum við Atlantsál yrði slitið. Það hef ég aldrei gert, hæstv. ráðherra, hvorki hér í þessum sal né nokkurs staðar annars staðar. Ég hef hins vegar lagt það til að jafnhliða því sem

rætt yrði við Atlantsál yrði rætt við aðra aðila. Ég geri það enn og nú til þess að við týnum ekki fleiri árum. En það má svo sem mín vegna hafa þessar viðræður við Atlantsál sem aukabúgrein en alls ekki sem aðalbúgrein á næstu missirum.