Frestur á framkvæmdum við álver á Keilisnesi

24. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 00:19:00 (920)

     Páll Pétursson :
     Herra forseti. Mér þykir hæstv. iðnrh. óhæfilega viðkvæmur fyrir sjálfum sér. Það er ekki nema lofsvert að hann sé vandur að virðingu sinni og líti stórt á sig en ég held að hann sé nokkuð hégómlegur ef hann telur að ég hafi haft í frammi við sig einhvern fúkyrðaflaum í ræðu minni fyrr í þessum umræðum. Ég hallaði bókstaflega ekki orði á ráðherrann. Ég held hins vegar og lét það koma fram í ræðu minni að ég tel að ráðherrann sé ekki alvitur. Það getur skeð að hann telji það fúkyrði. Ég tel að hann hafi því miður haldið slysalega á þessu máli, ekki af ásetningi heldur bara af klaufaskap, og komið í veg fyrir það með ótímabærum handahristingum suður í Hollandi að við næðum betri árangri en raun varð á hvað varðar orkuverðið.
    Ég tel að ef hæstv. ríkisstjórn vill reyna að blása lífsanda í nasir þessa máls, svo ég noti svipað orðalag og hæstv. iðnrh., þá ætti hæstv. forsrh. að taka þetta mál á sitt borð og annast það sjálfur sem forustumaður í ríkisstjórninni, ef hugmyndin er að ná einhverjum árangri í málinu, og sleppa hæstv. iðnrh. við þessar vitjunarferðir sem hann er að gefa í skyn að hann ætli að fara í. Ég tel hins vegar þýðingarlaust að gera samninga héðan af með þeim fyrirvara sem hæstv. iðnrh. var að hugleiða. Ég tel það þýðingarlaust.
    Hæstv. iðnrh. endurtók margar af skringilegum röksemdum sínum sem hann hafði í fyrri ræðu sinni. Jafnvel þó þessar fullyrðingar hæstv. iðnrh. hafi verið marghraktar í umræðunni þá er hann iðinn við sinn kola og staglar og staglar á sömu fullyrðingunum sem hann trúir sennilega sjálfur.
    Varðandi það af hverju álfyrirtækin áttu ekki kost á ódýrara fjármagni en raun ber vitni þá er það deginum ljósara og það er ekkert leyndarmál hvað sem ráðherra segir, hvort sem hann vill reyna að klína því á Jeltsín eða Saddam Hussein eða ég veit ekki hvern, að það sem bankarnir settu fyrir sig voru léleg veð. Þ.e. móðurfyrirtækin voru varin fyrir áhættum. Móðurfyrirtækin ætluðu að leggja þessu fyrirhugaða álveri lúkningarábyrgð, þ.e. þau voru búin að lofa að byggja verksmiðjuna eða greiða að öðrum kosti Landsvirkjun skaðabætur fyrir að hætta við. Síðan átti fyrirtækið að standa að veði fyrir sig sjálft og eigið fjármagn fyrirtækisins átti að vera í kringum 20%. Síðan átti hitt að takast að láni og veðið væntanlega að vera verksmiðjuskrokkurinn. Við skulum segja, ef við málum fjandann á vegginn, að ef verksmiðjan hefði ekki verið rekstrarhæf, þá hefði það ekki verið sérstaklega aðgengilegt veð fyrir bankana ef álfyrirtækin hefðu ekki getað rekið hana. Lokað álver er ekkert sérstaklega freistandi eign fyrir fjármálastofnanir.
    Það er ekki rétt sem hæstv. iðnrh. hélt fram áðan að þetta væri sú uppbygging sem tíðkaðist á álverum. Þetta er allt önnur uppbygging en er á álverum sem hafa nýlega verið reist víða um heim. Þetta er allt önnur uppbygging en t.d. á því álveri sem sem Alumax byggði í Kanada. Enda býr það við allt önnur vaxtakjör.
    Hæstv. iðnrh. var með ótrúlega útúrsnúninga varðandi það sem hann sagði um Blönduvirkjun. Ég tel að hæstv. iðnrh. sé miklu skýrari maður en svo. Þó ég haldi að hann sé ekki alvitur þá er hann miklu skýrari maður en svo að hann hafi getað misskilið það sem ég sagði. Þess vegna hlýtur hann að vera að snúa út úr.
    Útreikningar reiknimeistara Landsvirkjunar, og þá á ég við innanhússmenn þar, byggðu á því að taka kostnað af þeim virkjunum sem eftir er að byggja til þess að framleiða orku fyrir þetta álver og ætluðu andvirði orkunnar að borga nýju virkjanirnar. Blönduvirkjun var ekki með í þessum kostnaðarútreikningi. Þeir 13 milljarðar sem kostaði að byggja Blönduvirkjun voru ekki teknir með í þessa útreikninga. Það taldi ég allan tímann rangt. Úr því að nota átti orkuna frá Blöndu í álverið er eðlilegt að kostnaðurinn af Blöndu reiknist líka þeim megin.
    Það kemur mér mjög á óvart ef hæstv. iðnrh. veit betur en við hæstv. forsrh. hvað fór á milli okkar Davíðs Oddssonar og Alumax-manna á fundi í London í fyrravetur. Við vorum þar en ekki hann. Það vorum við sem töluðum við viðsemjendur okkar en ekki hann á þeim fundi. Við vissum í hvaða banka við fórum. (Gripið fram í. ) Það er bara ekki rétt hjá honum. Honum skjátlast í því efni. Við vitum meira að segja í hvaða banka þeir fóru og þeir leyndu ekkert vonbrigðum sínum út af þeim viðtökum sem þeir fengu þar.
    Síðan komu margar viðvaranir. Iðnrh. hefur látið í þessu máli eins og blindur maður, því miður. Hann hefur látið sem hann tæki ekki eftir þeim aðvörunum sem augljósar hafa verið hvað eftir annað í sögu málsins og haldið því fram allt fram á síðasta dag, allt þangað til í fyrradag að allt væri að komast í höfn. Með þessu framferði hefur hann vakið og haldið vakandi óraunhæfum væntingum hjá blásaklausu fólki sem nú sýpur seyðið af því að hafa trúað orðum ráðherrans. Það er þetta sem er ámælisvert í þessu máli. Menn geta verið slysnir og menn geta verið klaufar og það á ekki að vera að skamma þá sérstaklega fyrir það. En menn eiga að reyna að koma heiðarlega fram og segja það sem þeir vita réttast.
    Hér hefur verið rætt nokkuð, og væri freistandi að fara örlítið út í það, hvaða aðrir kostir en álframleiðsla kynnu að vera fyrir hendi. Því miður er þar ekki um auðugan garð að gresja. Ég vildi svo gjarnan að við hefðum eitthvað í höndum sem væri alveg gráupplagt til að taka við af álmálinu en því miður er það ekki. Menn hafa verið að tala um sæstreng. Þessi sæstrengur kemur einhvern tímann. En hann er ekki á næstu grösum. Þetta er framtíðarmúsík en þetta er ekkert sem er að gerast á allra næstu árum. Það getur vel verið að árið 2010 verði þessi sæstrengur kominn en hann verður ekki kominn fyrir aldamót og hann bætir ekki atvinnuástand eða kringumstæður okkar nú. Reyndar orkar tvímælis hve mikla áherslu við eigum að leggja á það að selja orku beint. Orkan verður að fjármunum þar sem hún er notuð, ekki þar sem hún er framleidd.
    Það hefur verið talsvert unnið að þessu sæstrengsmáli og það er spennandi mál og það er eðlilegt og sjálfsagt að vinna að því. Bresk raforkufyrirtæki voru fyrst mjög jákvæð í málinu og höfðu ákveðinn áhuga en misstu hann síðan. Þjóðverjar hafa látið í ljós áhuga á þessu máli og vilja skoða það í alvöru. En fyrirtæki sem framleiða kapal hafa virkilega mikinn áhuga á þessu máli því þau bjóðast til að selja okkur kapal sem hægt er að leggja til meginlandsins eða til Bretlands. Þetta er sem sagt ekkert sem kemur í staðinn fyrir álver í stöðunni.
    Vetnisframleiðsla, sem er líka athyglisverður orkunotkunarkostur, er líka framtíðarmúsík en ekki raunhæfur kostur á næstu árum. Hún verður það einhvern tímann þegar búið er að leysa vandamál sem henni eru samfara. T.d. er vetni stórhættulegt í meðförum og það á eftir að leysa mörg vandamál áður en aðgengilegt verður að nýta vetnið.
    Það helsta af raunhæfum og skynsamlegum orkunotkunarkostum sem við vitum um núna er að fyrirtæki í Bandaríkjunum hefur vissan áhuga á að byggja verksmiðju sem býr til slípiefni úr báxíti. Þetta er frekar lítið fyrirtæki í samanburði við annað sem við höfum verið að tala um en þetta er mál sem ég tel eðlilegt að við gefum fullan gaum að.
    Ég vil að endingu láta það í ljósi að ég tel að við höfum hitt á form þingskapa um utandagskrárumræður sem sé býsna gott. Mér finnst þessi umræða hafa gengið heldur lipurlega fyrir sig. Það er ágætt að takmarka ræðutíma og það er alveg kappnóg fyrir menn að hafa þennan ræðutíma sem ákveðinn er í þingsköpunum. Ef hæstv. iðnrh. hefði sleppt eins og þriðjungnum af óþörfum endurtekningum sínum og fullyrðingum, ég tala nú ekki um kaflanum eftir Boris Jeltsín sem var reyndar ekkert lakari en það sem ráðherrann mælti frá eigin brjósti, þá hefði hann komist af með 30 mín. í síðari umferð.