Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 14:25:00 (928)

     Sólveig Pétursdóttir :
     Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. dómsmrh. mælir nú fyrir þessu frv. Það hlýtur að vera okkur öllum umhugsunarefni að frv. þetta var lagt fram á 111., 112. og 113. löggjafarþingum en varð ekki útrætt. Það er nú lagt fram að nýju óbreytt.
    Ef til vill hafa mál sem þessi ekki haft nægilegt vægi pólitískt séð eða hafa sætt efnislegum og faglegum ágreiningi. Hvort heldur sem er tel ég að hv. þm. beri að reyna að ná saman um úrbætur á þessu sviði, þ.e. þegar um er að ræða kynferðisbrot hvort sem er gagnvart fullorðnum eða börnum. En núgildandi hegningarlög eru frá árinu 1940 svo að tímabært er að taka ýmis ákvæði þar til endurskoðunar.
    Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram hafa komið fram ýmsar athyglisverðar athugasemdir frá hv. þm. Ég vil taka undir nokkur atriði sem hér hafa verið gerð að umræðuefni og sérstaklega um það að þau nýmæli sem felast í því frv. sem hér er til umræðu felast ekki síst í því að þessi ákvæði hegningarlaganna verða ekki lengur kynbundin hvað kynferðisbrot snertir. Með öðrum orðum njóta nú bæði kyn sömu réttarverndar en 194. gr. núgildandi hegningarlaga um nauðgun er kynbundin, þ.e. hún er bundin því skilyrði að kvenmaður sé þolandi til þess að hægt sé að beita þeim refsimörkum sem þar er kveðið á um.
    Annað merkilegt nýmæli er það atriði að önnur kynferðismök verði metin að jöfnu við hefðbundið samræði. Í athugasemdum við frv. þetta segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Hinn 22. maí 1984 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktunartillögu:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa 5 manna nefnd er kanni hvernig háttað er rannsókn og meðferð nauðgunarmála og geri tillögur til úrbóta í þeim efnum.``
    Þáv. dómsmrh., Jón Helgason, skipaði 12. júli 1984 eftirtalda í nefndina:
    Jónatan Þórmundsson, prófessor, sem jafnframt var skipaður formaður nefndarinnar, Ásdísi J. Rafnar lögfræðing, Guðrúnu Agnarsdóttur, lækni og alþingismann, Hildigunni Ólafsdóttur afbrotafræðing og Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa. Þorsteini A. Jónssyni,

deildarstjóra í dómsmrn., var falið að vera ritari nefndarinnar.``
    Ég taldi ástæðu til að geta hér sérstaklega um þessi nöfn þar sem ég tel að þetta fólk hafi unnið starf sitt mjög vel í nefndinni.
    Nefndin lauk störfum og skilaði skýrslu í nóvember 1988. Og með hliðsjón af því, eins og hæstv. dómsmrh. gat um hér áðan, flutti ég frv. sem vorið 1988 var vísað til hæstv. ríkisstjórnar, en það var frv. um breytingu á 202. og 203. gr. almennra hegningarlaga. Þá ákvað dómsmrh. að leggja frv. nauðgunarmálanefndar ekki fram fyrr en endurskoðun á öðrum greinum XXII. kafla hegningarlaganna væri lokið.
    Talsverðar umræður áttu sér einmitt stað á árunum 1987 og 1988 um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og þess má geta að virðulegur forseti, Salome Þorkelsdóttir, flutti á sama þingi frv. er varð að lögum þess efnis að kynferðisbrot gagnvart börnum skyldu sæta forgangi í réttarkerfinu. Þær umræður sem þá áttu sér stað voru að mínu mati mjög gagnlegar og opnuðu augu manna fyrir ýmsu í framferði gagnvart börnum. En í því frv. sem vísað var til ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar vorið 1988 var tekið á ýmsum atriðum sem þessu frv. er nú ætlað að staðfesta. Langar mig til þess að gera nokkra grein fyrir þeim atriðum sem fram koma í grg. með því frv. sem var 68. mál á 110. löggjafarþingi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,202. gr. hegningarlaganna hljóðar svo: ,,Hafi nokkur, þegar svo er ástatt, sem í 194.--201. gr. segir, gerst sekur um önnur kynferðismök en samræði, þá skal beita vægari hegningu að tiltölu.``
    Þetta orðalag ,,vægari hegningu``, er til refsilækkunar, hins vegar er það ekkert skilgreint, hvorki í lögunum sjálfum né í greinargerð og enginn refsirammi tilgreindur. Það er því algerlega á valdi dómstóla að ákveða viðurlög við þessum afbrotum.
    Hins vegar má það teljast ljóst að kynferðismök önnur en samræði geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, sbr. rit prófessors Jónatans Þórmundssonar: Um kynferðisbrot, en þar segir í inngangi á bls. 16: ,,Hugtakið holdlegt samræði er hvorki skilgreint í lögum né greinargerð. Samræði hefur í fræðiritum og framkvæmd verið takmarkað við hefðbundnar samfarir karls og konu. Með þessu eru útilokuð kynmök samkynja persóna og mök karls og konu með öðrum hætti en notkun kynfæranna einna. Það kann þó að vera jafnalvarlegt, ef brotaþola er misboðið kynferðislega með öðrum hætti, að slepptri þungunarhættunni. Má þar nefna kynferðisathafnir, er beinast gegn öðrum hlutum líkamans eða framkvæmdar eru með verkfærum.``
    Réttarþróun hefur víða hnigið í þá átt að endurmeta refsinæmi kynferðisbrota og þá ekki síður ýmsar kynferðisathafnir aðrar en samræði. Sem dæmi má nefna að hugtakið ,,sexual penetration`` í hegningarlögum Illinois-ríkis í Bandaríkjunum tekur til hvors tveggja. Þá var það lögfest 1984 í Svíþjóð að jafna ýmsum kynferðisathöfnum við samræði, ef þær veita eða eru til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu.
    Samkvæmt 1. mgr. 195. gr. norsku hegningarlaganna varðar afbrot fangelsi allt að 10 árum fyrir ,,utugtig omgang`` við barn undir 14 ára aldri, en það varðar fangelsi ekki skemur en eitt ár ef afbrotið felur í sér samræði. Hugtakið ,,utugtig omgang`` virðist hér nokkuð víðtækt og felur einnig í sér samræði. Í 2. mgr. þessarar sömu lagagreinar eru viðurlögin fangelsi allt að 21 ári, ef afbrotið hefur alvarlegar afleiðingar. Hér er tekið fram að kynsjúkdómar falli undir þetta ákvæði.``
    Í þessu frv. sem ég er að ræða hér um þá segir enn fremur í grg., með leyfi virðulegs forseta:
    ,,2. gr. frv. fjallar um kynferðismök við persónu af sama kyni og hefur falið í sér miklu lakari vernd en ákvæði er snerta önnur kynferðisbrot, þegar litið er til refsimarkanna. Refsihámarkið hefur verið bundið við sex ára fangelsi sem er miklu minni refsing en er lögbundið, t.d. í 194. gr. og 1. mgr. 200. gr. hegningarlaganna. Slíkt fær ekki samrýmst nútímaviðhorfum, hvorki efnislega né réttarfarslega. Hér er breytingar þörf og mótast sú þörf ekki síst af fjölda alvarlegra mála nú síðustu árin þar sem brotaþolar eru einatt ungir drengir og afbrotamaðurinn karlkyns.``
    Vegna þeirra atriða sem ég hef hér gert grein fyrir langar mig til að vitna í skýrslu sem Aðalsteinn Sigfússon sálfræðingur vann fyrir Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar. Skýrslan er gefin út á þessu ári, og fjallar um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og unglingum. Skýrslan er um mál sem bárust fjölskyldudeild Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, þar sem barnaverndarmál eru m.a. til meðferðar, en þessi mál bárust á tímabilinu 1. jan. 1983 til 31. mars 1990. Þessi skýrsla er mjög fróðleg og felur í sér margvíslegar upplýsingar, en ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í efni hennar hér, mun aðeins geta sérstaklega tveggja atriða.
    Í fyrsta lagi eru upplýsingar sem sýna þörf þess að drengir njóti sömu réttarverndar og stúlkur. Þannig segir á bls. 14 í skýrslunni, þar sem er kannað kyn og fjöldi meintra þolenda:
    ,,Fjöldi drengja er 21,1% af heildarfjölda þolenda. Það er ekki fyrr en á árinu 1988 sem fer að bera á því að þeir eru einnig þolendur kynferðislegrar áreitni og þess verður sérstaklega vart árið 1989 þegar hlutfallið er einn á móti tveimur. Það virðist því rangt að ætla að drengir séu í minni hættu en stúlkur við umræddar kringumstæður.``
    Síðan vil ég benda á upplýsingar á bls. 22 í skýrslunni sem renna stoðum undir þær athugasemdir að ekki sé rétt að gera greinarmun á réttarstöðu barna eftir því hvort þau búa hjá kynforeldrum eða t.d. fósturforeldrum. --- Þessi munur er einmitt gerður í 8. og 9. gr. frv., en hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir gerðu þessi atriði sérstaklega að umræðuefni áðan. 1. mgr. 8. gr. hljóðar þannig:
    ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að 6 árum, og allt að 10 ára fangelsi, sé barnið yngra en 16 ára.``
    En 1. mgr. 9. gr. hljóðar þannig:
    ,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn eða ungmenni, yngra en 18 ára, sem er kjörbarn hans, stjúpbarn, fósturbarn, sambúðarbarn eða ungmenni sem honum hefur verið trúað fyrir til kennslu eða uppeldis, skal sæta fangelsi allt að 4 árum, og allt að 6 ára fangelsi, sé barn yngra en 16 ára.``
    Þarna kemur fram greinilegur munur á refsimörkum og reyndar hafa verið gerðar athugasemdir við fleiri ákvæði í frumvarpinu þess efnis. En í skýrslunni sem ég vitnaði til hér áðan segir einmitt á bls. 22, þar sem er kannaður aldur þolenda og gerenda og hverjir þeir eru, að kynfeður eru flestir í þeim hópi en stjúpar koma þar á eftir og segir um þessa töflu neðst á bls. 22:
    ,,Eins og kemur fram í töflu 11 er algengast að kynfeður séu gerendur. Stjúpar koma næstir og verður að hafa í huga að þeir eru hlutfallslega mun færri í þjóðfélaginu. Samkvæmt þessu má því ætla að algengara sé að stjúpar misnoti börn innan fjölskyldu en kynfeður.``
    Þetta atriði tel ég að þurfi að athuga nánar.
    Ég tel mikilvægt að börn og unglingar njóti sömu réttarstöðu hvað kynferðisafbrot snertir, óháð því hvort þau búa hjá kynforeldrum sínum eða hafa e.t.v. verið sett í fóstur af félagslegum ástæðum, t.d. af hálfu barnaverndarnefndar, eða ef þau búa hjá stjúpa svo dæmi séu tekin.
    Ég tel rétt að þessi ákvæði séu athuguð nánar en að sjálfsögðu verður frv. allt tekið til athugunar í hv. allshn. þar sem ég á sæti og sérstaklega þarf að taka til athugunar þau atriði sem hér hafa verið gerð að umræðuefni og hv. þm. hafa bent á.