Almenn hegningarlög

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 14:38:00 (929)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í grg. þessa frv. er það í meginatriðum byggt á áliti nefndar sem ég skipaði árið 1984. Sú nefnd var skipuð mjög hæfum aðilum og vann mjög gott verk sem að vísu tók alllangan tíma en ég hygg að eftir á séu allir sammála um að nefndin hafi unnið vel þó að nokkur dráttur yrði á að hún skilaði af sér.
    Hins vegar hefur það farið svo að þetta mál er búið að vera hér til meðferðar á Alþingi á þremur þingum áður. Þegar málið var lagt fram á 111. löggjafarþinginu var því vísað til allshn. og fékk þar allítarlega meðferð. Kvaddir voru til fundar við nefndina margir aðilar sem leitað var ráða hjá og þá fór það svo að nokkuð skiptar skoðanir komu fram um einstök atriði frv. Það átti m.a. þátt í því, vegna þess hversu þá var komið nálægt þinglokum, að ekki reyndist tími til að samræma þau svo að allshn. Ed. treysti sér til að afgreiða málið.
    Ég vildi því við þessa umræðu leggja áherslu á það að við nefndarstarf nú yrði

reynt að leita leiða til að komast að ásættanlegri niðurstöðu og reyna að koma í veg fyrir að ágreiningur um einstök atriði sem skiptar skoðanir eru um leiði til þess að málið strandi, þannig að það meginefni, sem flestir eru sammála um að sé til bóta í þessu frv., nái fram að ganga. En þar sem ég á sæti í þeirri nefnd þá ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta núna, en vil aðeins leggja áherslu á að það mun þurfa að leggja sig nokkuð fram um að ná samstöðu um málið.