Viðskiptabankar

25. fundur
Miðvikudaginn 13. nóvember 1991, kl. 16:00:00 (942)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem hér komu fram. Þær gefa tilefni til þess að málið verði skoðað í nefndinni. Ég held að það sé afar mikilvægt að nefndin velti því sérstaklega fyrir sér hvernig bankaeftirlitið kemur til með að breytast við gildistöku EES-samningsins. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að samkvæmt frv. er það alveg skýrt að íslenska bankaeftirlitið, bankaeftirlit Seðlabankans, hefur fullkominn rétt og möguleika til þess að hafa eftirlit með starfsemi hinna erlendu útibúa. En eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra þá var það rétt sem ég taldi mig muna að samkvæmt bankareglum sem eiga að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði er það heimaland höfuðstöðvanna sem hefur eftirlit með útibúi hins erlenda banka á Íslandi en ekki íslenska bankaeftirlitið.
    Hæstv. ráðherra taldi að íslenska bankaeftirlitið hefði líka möguleika til þess að hafa eftilit. Samkvæmt minni mínu er svo ekki en ég ætla ekki að fullyrða það hér heldur tel ég að í bankareglunum sé eingöngu um einfalt eftirlit að ræða, þ.e. eftirlit bankaeftirlitsins í heimalandi höfuðstöðvanna, en ekki um tvöfalt, bæði landsins þar sem útibúið er staðsett og heimalands aðalstöðvanna. Þetta verður hins vegar hægt að skoða í nefndinni og nauðsynlegt að gera það því ég leyni því ekki að það er í mér nokkur uggur ef þróun íslenska bankakerfisins á næstu 5--10 árum, á miklum umbrotatímum og í ljósi þess hvað það hefur lengi verið einangrað og er lítið, yrði á þann veg að enginn aðili hefði möguleika til þess að hafa heildareftirlit með þeirri starfsemi. Ég veit að þetta frv. fjallar ekki um hið Evrópska efnahagssvæði en ég held að það væri mjög gagnlegt ef efh.- og viðskn. gæti skoðað þennan þátt um leið og hún fjallar um frv. svo að við gætum við 2. umr. málsins fjallað nokkuð um það hvaða hugmyndir við höfum um starfsemi bankaeftirlitsins á Íslandi gagnvart erlendum útibúum, t.d. hvort þörf er á því að við reynum að styrkja rétt íslenska bankaeftirlitsins gagnvart erlendum útibúum ef samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði tekur gildi.
    Mér þótti gott að heyra að ráðherrann er þeirrar skoðunar að það sé hægt fyrir íslenska bankaeftirlitið að hafa eftirlit með erlendu útibúunum eftir að Evrópska efnahagssvæðið verður komið á en hann var þó ekki viss um að það væri rétt. Við skulum vona að svo sé, en ef svo er ekki, eins og kom fram á nefndarfundi þar sem ráðuneytisstjóri viðskrn. mætti og gaf upplýsingar um þetta atriði, þá held ég að væri nauðsynlegt að við ræddum þann þátt séstaklega í þinginu.