Þjóðhagsstofnun

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:45:00 (948)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Frú forseti. Ég vil fagna orðum hæstv. forsrh. um að þessi mál séu nú í sérstakri athugun. Mikilvægast af öllu er að þeirri athugun megi ljúka sem fyrst vegna þess að hér er um mjög brýnt mál að ræða. Það er rétt, sem hv. 2. þm. Vestf. sagði, að um mikinn tvíverknað er að ræða í þessu sambandi. Mér hefur verið sagt að það kunni að vera um 250 einstaklingar í því að reikna út hagvöxtinn í Reykjavík. Þetta er náttúrlega mikill fjöldi starfsmanna og ég vil einnig koma þeirri ábendingu á framfæri við hæstv. forsrh. hvort ekki mætti koma einhverjum af þessum stofnunum, sem hið opinbera rekur á sviði efnahagsmála, út á land. Ég held einmitt að tæknin og allar þær framfarir, sem orðið hafa á þeim sviðum á undanförnum árum, geri einmitt slíkum stofnunum kleift að vera annars staðar en í Reykjavík. Hér er um enn eitt dæmið að ræða þar sem ríkiskerfið, hið opinbera stofnanakerfi, hefur þanist út í Reykjavík án þess að neinn ákveðinn aukinn árangur sjáist í störfum þessara stofnana.