Bætt atvinnuástand á Suðurnesjum

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 10:52:00 (952)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá fyrirspyrjanda, hv. 5. þm. Reykn., hefur atvinnuástand á Suðurnesjum verið erfitt undanfarin ár og farið nokkuð versnandi. Því miður eru ýmis teikn á lofti um að enn sé þar ekki endilega botni náð og atvinnuástand kunni að versna enn áður en það taki að lagast á nýjan leik. Ástæður þess eru auðvitað margvíslegar. Þau mistök, sem gerð hafa verið í hagstjórn á undanförnum árum og hafa komið fram á síðustu mánuðum og missirum í afkomu atvinnulífsins almennt, hafa auðvitað bitnað á Suðurnesjum eins og öðrum landshlutum. Svo og ytri aðstæður eins og minnkandi afli og minnkandi hlutdeild Suðurnesja í útgerð og fiskvinnslu.
    En eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda hefur orðið samdráttur í störfum á vegum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og því miður eru þær upplýsingar sem okkur berast þess eðlis að búast má við frekari samdrætti að þessu leyti á næstu árum. Ég tel áríðandi að forsvarsmenn varnarliðsins geri sér grein fyrir því að atvinnulíf á Suðurnesjum þarf ákveðinn aðlögunartíma og ábyrgð varnarliðsins sem vinnuveitenda er mikil í því sambandi. Svo eru síðustu fréttir um atburði norðar í kjördæminu, utan hinna eiginlegu Suðurnesja, um að þar séu fyrirtæki líka að fara um koll, eins og stálbræðsla. Allar slíkar fréttir eru neikvæðar fyrir svæðið í heild.
    Menn bundu töluverðar vonir við það að framkvæmdir vegna fyrirhugaðs álvers, sem nú hefur verið seinkað, mundu bæta þarna töluvert úr, en í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að álversframkvæmdir hefðu litlu breytt fyrir Suðurnes fyrr en í fyrsta lagi árið 1993 þó framkvæmdir hefðu ekki dregist.
    Það er rétt að gera sér grein fyrir því að mikilvægast er fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum eins og annars staðar að ríkisvaldið skapi almenn skilyrði þess að atvinnulífið fái að njóta sín á ný. Forráðamenn atvinnulífsins leggja megináherslu á að ríkissjóður dragi úr lánsfjáreftirspurn þannig að svigrúm atvinnulífsins aukist og vaxtalækkun megi verða. Raunvaxtastig, sem mikil lánsfjáreftirspurn ríkissjóðs ekki síst innan lands heldur uppi, þrengir enn að atvinnulífinu. Ríkisstjórnin hefur með tillögum sínum í haust gengið til móts við þessi sjónarmið og hyggst draga úr þessari lánsfjáreftirspurn um þriðjung á næsta ári.
    Hvað einstök og sértæk atriði varðar er ljóst að menn hafa beint sjónum sínum að undanförnu að möguleikum í tengslum við Keflavíkurflugvöll, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, og menn hafa litið til fríhafnarsvæða. Það var rætt á Alþingi fyrir tveimur eða þremur dögum af hæstv. iðnrh. hvað verið er að gera í því sambandi og ég tel ekki efni til að endurtaka það hér og nú og reyndar ekki enn þá fyrirséð hvort þær tilraunir sem þar eru nú gerðar muni bera árangur.
    Eins hefur verið vitnað til stórbygginga á vegum Flugleiða sem eiga að skapa nokkra atvinnu í framtíðinni ef allt gengur eftir sem stofnað er til. Ég vek líka athygli á því að menn hafa rætt um það að þegar eðli og hlutverki varnarliðs á Keflavíkurflugvelli breytist sé eðlilegt að Íslendingar taki þar við störfum í vaxandi mæli umfram það sem verið hefur. Það ætti að geta verið jákvætt í þessu sambandi. Ég tel eðlilegt nú við þessar aðstæður, eftir að fyrir liggur að áform um byggingu álvers muni dragast jafnvel verulega, að ríkisvaldið og sveitarfélögin á svæðinu og forráðamenn á vinnumarkaði, jafnt launþega sem vinnuveitenda, komi saman til fundar og beri saman sínar bækur um hvað helst sé vænlegt að gera til að bæta stöðu svæðisins í atvinnumálum.

    Ég hef átt óformlegar viðræður við ýmsa forustumenn á svæðinu og því fer fjarri að algert vonleysi hafi gripið um sig á Suðurnesjum. Mér er tjáð að um þessar mundir sé nýtt fiskréttafyrirtæki að taka til starfa, fyrirtæki í fiskvinnslu sem hafi flutt burtu sé nú að flytja til baka og menn séu að stofna til fyrirtækja. Þetta eru jákvæðar fréttir í þessu svartnætti og gott að finna það og skynja að íbúar á Suðurnesjum ætli ekki að láta deigan síga og séu ekki að fyllast neinum bölmóði. Það er mjög áríðandi að fólkið sjálft hafi sem mest frumkvæði að nýrri starfsemi þó auðvitað sé eðlilegt að ríkisvaldið eða hið opinbera, jafnt Byggðastofnun sem aðrir aðilar, standi við bakið á fólki og fyrirtækjum við þessar aðstæður.
    Ég vil ítreka að það mun verða stofnað til fundahalda með forráðamönnum hagsmunaaðila á svæðinu á allra næstu dögum til að fara yfir þá stöðu sem nú er uppi eftir að ljóst er að álversframkvæmdum mun seinka.