Listskreyting Hallgrímskirkju

26. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 11:22:00 (961)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
     Hæstv. forseti. Á 107. löggjafarþingi flutti ég till. til þál. um listskreytingu Hallgrímskirkju í Reykjavík. Meðflutningsmenn mínir voru hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, Stefán Benediktsson, Haraldur Ólafsson, Svavar Gestsson og Skúli Alexandersson.
    Tillagan varð ekki útrædd en á næsta þingi var hún endurflutt og var samþykkt 22. apríl 1986, og hljóðaði þá svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á kirkjumrh. að skipa nú þegar sjö manna nefnd til þess að skipuleggja og undirbúa skreytingu og frágang á anddyri, kór og kirkjuskipi Hallgrímskirkju í Reykjavík.
    Nefndin skal skipuð sem hér segir: Kirkjumrh. skipi einn mann og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar. Menntmrh., biskup Íslands, húsameistari ríkisins, byggingarnefnd Hallgrímskirkju, Félag ísl. myndlistarmanna og kirkjulistarnefnd tilnefni einn mann hver í nefndina.
    Verkefni nefndarinnar skal vera að gera verkáætlun og áætlun um þann tíma sem talið er að verkið taki, svo og kostnaðaráætlun. Jafnframt gerir nefndin tillögur um hvernig fjármögnun verksins verði best tryggð.
    Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
    Niðurstöður nefndarinnar verði lagðar fyrir sameinað Alþingi fyrir árslok 1987.``
    Því miður var nefndin ekki skipuð fyrr en 10. apríl 1987, en henni tókst þó á þeim stutta tíma sem hún hafði að skila áfangaskýrslu. Síðan hefur ekkert framhald verið á verkinu.
    Hinn 28. apríl 1988 bar ég fram fsp. til þáv. hæstv. kirkjumrh. Jóns Sigurðssonar, um hvert yrði framhald verksins. Svör hæstv. ráðherra voru afar jákvæð, enda sagði hann í svari sínu, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég ætla svo að lokum að geta þess að ég hef á þessum grundvelli og í samráði við forsvarsmenn kirkjunnar ákveðið að skipa nýja nefnd til að móta endanlega kostnaðar- og verkáætlun þeirra fjögurra þátta sem fyrri nefnd gafst ekki alveg tóm til að ljúka. Ég tel það hentugra af fyrirkomulagsástæðum. Ég bind vonir við að nýstofnaður Jöfnunarsjóður sókna, en Alþingi setti lög um þá stofnun í desember sl., geti lagt fé til Hallgrímskirkju, m.a. til listskreytingar, enda hefur þessi sjóður lögunum samkvæmt sérstakar skyldur við landskirkjur eins og Hallgrímskirkja svo sannarlega má teljast.``
    Nú er mér ekki kunnugt um, hæstv. forseti, að ný nefnd hafi verið skipuð og því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. kirkjumrh. á þskj. 104:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 22. apríl 1986 um listskreytingu Hallgrímskirkju í Reykjavík?
    Er nefnd sú, er skipuð var, enn að störfum?``