Könnun á tíðni og orsökum sjálfsvíga

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 12:30:00 (974)

     Jóhann Ársælsson :
     Virðulegi forseti. Ég mæli hér örfá orð. Ég vil þakka fyrir að þessi till. skuli vera hér lögð fram. Það er löngu tímabært að taka á þessu máli. Þessi sjálfsvíg, sem hafa aukist svo óhugnanlega á undanförnum árum, eru afleiðing einhverra meina í þjóðfélaginu og það er eðlilegt og sjálfsagt að menn reyni að átta sig á því hverjar eru aðalástæðurnar fyrir aukningunni og reynt verði í framhaldi af því að gera einhverjar úrbætur. Svo virðist sem fjölmargt ungt fólki finni ekki sjálfsímynd sinni farveg, það sjái ekki hlutverk sitt í lífinu og það getur endað með þessum hörmulegu afleiðingum. Ég held að stór hluti af þessu, náttúrlega ekki nema samt hluti, sé vímuefna- og áfengisnotkun í landinu sem veldur oft heimilisaðstæðum sem eru óbærilegar og uppeldisaðstæðum sem gera einstaklinginn ekki færan um að meta lífið sem skyldi. Ég tel að það þurfi að gera verulega mikið átak til að reyna að koma því út til fólks að það eigi að leita sér hjálpar ef það lendir í þeim sálrænu hörmungum sem leiða til sjálfsvíga og ég held að það ætti að vera hluti af þessu máli að reynt verði að gera slíkt átak.
    En ég endurtek þakkir mínar fyrir þessa till. og ég mun styðja hana.