Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 15:36:00 (982)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
     Herra forseti. Í ræðu hv. 3. þm. Reykv. kom fram sú staðhæfing að frá skattgreiðendum, eins og hann orðaði það, til landsbyggðarinnar hefðu verið greiddir ef ég man rétt 12,1 milljarður frá árinu 1971. Þessi samanburður er náttúrlega algerlega óboðlegur hér á hv. Alþingi vegna þess að það er ekki gerð nein tilraun til að meta það hverju þessi upphæð hefur skilað skattgreiðendum til baka.
    Ég er ekki góður í bókhaldi. En hins vegar lærði ég nógu mikið á sínum tíma til þess vita að það verður að færa upp bæði debet og kredit og ef það er álit hv. 3. þm. Reykv. að þessir fjármunir hafi ekki skilað skattgreiðendum krónu er það bókhald náttúrlega rétt. En ég mótmæli þessari staðhæfingu. Það er látið að því liggja að skattgreiðendur hafi eingöngu á þessu tímabili tapað á landsbyggðinni á töpuðum útlánum Byggðastofnunar. Mér er spurn: Hverju hafa skattgreiðendur tapað á töpuðum útlánum bankanna á þessu tímabili? Hvað hafa skattgreiðendur orðið að greiða mikinn fórnarkostnað í vöxtum, í töpuðum útlánum bankanna til fyrirtækja bæði úti á landsbyggðinni og ekki síst hér í Reykjavík?