Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

27. fundur
Fimmtudaginn 14. nóvember 1991, kl. 23:18:00 (997)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Herra forseti. Hér hefur hv. þm. verið það ofarlega í huga að atvinnulífið á landsbyggðinni sé í hættu statt. Það eru ekki ný tíðindi fyrir okkur landsbyggðarfólk að sveiflur einkenni atvinnulífið á einstaka stöðum. En í ljósi tíðinda og yfirlýsinga hæstv. sjútvrh., þar sem hann boðar aflasamdrátt í kjölfarið á niðurstöðu á rannsóknum fiskifræðinga, er sannarlega vá fyrir dyrum. Málum er nefnilega þannig komið á landsbyggðinni að atvinna fólksins þar er bundin við frumatvinnuvegina, landbúnað og sjávarútveg. Minnkandi afli kemur því strax fram í minni tekjum fyrir fólkið sem starfar við fiskvinnslu og sjómennsku og sama gildir um landbúnaðinn þegar nýr búvörusamningur hefur tekið gildi sem kveður á um mikinn niðurskurð.
    En það er ekki víst að niðurskurður í landbúnaði og niðurskurður í sjávarútvegi komi svo fljótt fram í kjörum þeirra sem starfa í þágu ríkisins á höfuðborgarsvæðinu, í kjörum þeirra sem starfa í þágu ríkistryggðrar þjónustu. Ef þetta verður langvarandi ástand þá má búast við því að þetta komi einnig fram þar.
    Ég nefndi það í fyrri ræðu minni í þessum umræðum að einn meginvandinn í byggðarþróun undanfarinna ára og áratuga væri röng fjárfestingar- og stofnanastefna ríkisvaldsins. Ég á við þá fjárfestingarstefnu sem hefur miðað að því að ríkisvaldið hefur fyrst og síðast þanist út í Reykjavík. Með þeirri stefnu hefur ríkisvaldið í raun og veru staðið

að því að skapa aðstöðumun á milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins. Það má spyrja hvort þessi stefna sé yfir höfuð tilviljun. Það má líka fullyrða að allir fjórir stjórnmálaflokkarnir, Alþfl., Sjálfstfl., Framsfl. og Alþb., hafi tekið þátt í að móta þá stefnu með einum eða öðrum hætti. Hingað koma hv. þm. Framsfl., í þennan ræðustól og nánast þvo hendur sínar af því að hafa komið nálægt byggðamálum eða byggðarþróun sl. 20 ár og telja að allt hafi farið á verri veg strax eftir að núv. ríkisstjórn tók við völdum. Ef við ætlum að ræða byggðamálin í ljósi slíkra öfga þá er ekki von að við komumst langt á leið fram á við.
    Eitt er víst að það er ekki hægt að láta atvinnulífið á landsbyggðinni afskiptalaust. Það verður aldrei hægt að láta atvinnustarfsemina afskiptalausa. Það er verkefni stjórnmálanna á hverjum tíma að hafa afskipti af atvinnulífinu. Það verður að minna á það í þessum umræðum vegna þess að mér finnst það gleymast aftur og aftur að við búum einu sinni í þessu landi, fámenn þjóð sem byggir á einhliða atvinnustarfsemi og það í sjálfu sér duttlungafullri auðlind sem eru fiskveiðar og landbúnaður. Þetta eru undirstöðurnar. Við erum máttugt fólk, Íslendingar, en við getum ekki öllu ráðið og alls ekki haft stjórn á rás náttúrunnar, þótt við gjarnan vildum. Auðvitað verður að haga landsstjórninni í samræmi við þær aðstæður sem upp koma hverju sinni og þá sérstaklega aðstæður sem við ráðum ekki við. Þess vegna hlýtur það að vera verkefni landsstjórnarinnar að hafa afskipti af atvinnulífinu.
    Ég skil það vel --- og þó er ég ekki búinn að staldra lengi við í Reykjavík --- að ef maður er búinn að dvelja þar langan tíma, ég segi ekki uppalinn þar á malbikinu og tæpast komist austur fyrir Hellisheiði --- að þá er auðvelt að sjá stjórnmálin í því ljósi að það megi stjórna íslenskri þjóð með patentlausnum úr bókmenntum. En aðstæður fólksins á Íslandi eru allt öðruvísi en að því verði stjórnað með þeim hætti.
     Eftir stutta veru í fjárln., þar sem við höfum undanfarna daga verið að taka á móti fólki með sín erindi, verð ég að segja að það sem slær mig fyrst er það hvað ríkiskerfið er búið að koma sér vel fyrir stofnanalega hér í Reykjavík, sérstaklega hvað varðar allan húsakost. Það er búið að byggja vel yfir flestar rótgrónar ríkisstofnanir, ekki smáhýsi heldur stórhýsi á flestum stöðum, og þær beiðnir sem berast inn á borð til okkar fjalla fyrst og fremst um að bæta reksturinn í þessum húsum. Hér er ég t.d. með í hendinni bók sem lætur lítið yfir sér. Á henni stendur Náttúruhús í Reykjavík. Þessi bók boðar milljarð í húsi í Vatnsmýrinni. Samkvæmt bókinni á það hús að verða tilbúið 1994, og er bókin gefin út í mars 1990. ( Gripið fram í: Hvaða hús er þetta?) Þetta heitir Náttúruhús í Reykjavík. Hér er það NN-nefnd, menntamálaráðuneytinu mars 1990. Kannski fyrrv. menntmrh. komi hér og skýri fyrir okkur hvernig fyrrv. ríkisstjórn ætlaði að fjármagna þessa byggingu? Á þremur árum. Hvar átti að taka peningana til að gera það? Þessi bók boðar ein jarðgöng á Austurlandi. Og þau átti að gera á þremur árum. Og er von að maður spyrji hér úr þessum ræðustól: Hvaða gildismat ræður? Hvaða lífsviðhorf er lagt til grundvallar?
    Við þurfum að hlusta á hæstv. samgrh. lýsa því fyrir okkur að þetta sé svo dýr aðgerð og mikil og stór, liggur við að himinn og jörð séu að farast, að það sé ekki hægt að hugsa um jarðgöng á Austurlandi fyrr en í fyrsta lagi 1997 eða 1998. Og fylgist þið með: Hvað verður búið að byggja mörg jarðgöng í Reykjavík á þeim tíma? Horfið sjö ár aftur í tímann og spyrjið ykkur að því: Hvað er búið að byggja mörg jarðgöng í Reykjavík á sl. 10 árum? Hér er spurt um gildismat og mælikvarða. Vegna þess að við landsbyggðarfólk stöndum ekki lengur í þeim sporum að afsaka sífellt tilveru okkar. Ég verð að segja það við hæstv. forsrh. að ef einhver björgunarstefna hefur verið í gangi á vegum ríkisins þá hefur hún verið fólgin í því að bjarga Reykjavík til þess að Reykjavík gæti borið alla þá atvinnustarfsemi uppi sem nauðsynlegt er. M.a.s. hefur ríkisvaldið orðið að hjálpa Reykjavíkurborg að reka barnaheimilin í borginni. Ef við horfum á þá starfsemi sem fer fram á Landspítalanum þá er ekki hægt að manna spítalann vegna þess að framboðið á barnaheimilisplássum í Reykjavík er svo lítið að skattpeningarnir af Austurlandi og Vestfjörðum fara í það að greiða niður barnaheimiliskostnaðinn fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis.
    Ekki hef ég verið spurður um það hvort þetta sé góð byggðastefna og hvort þetta sé sú byggðastefna sem við viljum fylgja fram. Ég tek heils hugar undir með hv. 1. þm.

Vestf. þegar hann og telur upp hér hverja ríkisstofnunina á fætur annarri sem hægt væri að flytja út á land eða inn á land, hvernig sem við viljum orða það. Það er bara spurt um viljann til verksins enda boðar þessi ríkisstjórn það að hún ætlar að gera það. Ég trúi því að að baki þeirri yfirlýsingu sem fram kemur í hvítu bókinni sé hugur að baki og vilji til verksins. ( ÓÞÞ: Það er mikil trú.) Við trúum þar til trúin svíkur, hv. 2. þm. Vestf. Þannig skulum við ganga til verks að við vonum þar til vonin svíkur. Það má í því sambandi benda á að bölsýnishljóðið er oft á tíðum of mikið. Og kannski breytist það óvenjufljótt frá því að vera í stjórn og skreppa yfir í stjórnarandstöðu, eins og hv. 2. þm. Vestf. veit.
    Ef við horfum til framtíðar þá hef ég trú á því að sá hluti EES-samningsdraganna er snýr að sjávarútvegi gæti orðið mikil lyftistöng, sérstaklega á landsbyggðinni, gæti fyrst og fremst verið tækifæri til nýsköpunar, tækifæri til þess að efla með fólki þrótt til að takast á við ný og breytt verkefni í sjávarútvegi. En til þess að slíkt megi verða að veruleika þarf að koma til öflugt átak í samgöngumálum til þess að þétta byggðina. Ekki færa fólkið í millum heldur gera fólki auðveldara að ferðast á milli staða og með því að gera atvinnulífinu auðveldara um allt samstarf og alla samvinnu. Þetta er hluti af þeirri hagræðingu sem er nauðsynleg í sjávarútvegi vegna þess að hagræðing í sjávarútvegi er víðtækari en svo að hún nái einungis inn í fiskvinnsluhúsin sjálf, heldur er hún langtum stærra mál. Það er ljóst að ef okkur auðnast að standa þannig að málum þá má eiga von á nýsköpun og viðreisn í orðsins fyllstu merkingu í atvinnulífinu á landsbyggðinni.
    Annað mikilvægt mál er þetta sem við alþýðuflokksmenn höfum lagt áherslu á í ríkisstjórninni, að það er að afnema lögin frá árinu 1922 sem banna erlendum skipum að koma til hafnar, landa þar afla og þiggja þjónustu. Við hljótum að sjá að það gæti orðið mikil lyftistöng, t.d. fyrir skipasmíðaiðnaðinn og alla viðgerðarþjónustuna við hafnir landsins að mega eiga viðskipti við þessi skip, sem veiða utan landhelginnar eða af öðrum ástæðum eru hér á ferð. Þegar við stöndum frammi fyrir miklum aflasamdrætti hlýtur það líka að vera fundinn afli ef þessi skip mundu landa afla sínum hér í höfnum. Þetta er stórt mál. Allar aðstæður frá þeim tíma, á árinu 1922 þegar þessi lög voru sett, hafa gjörbreyst. Forsendur allar hafa gjörbreyst þannig að það eru engin rök sjáanleg sem mæla fyrir um að þessi lög séu nauðsynleg. Langtum fremur eru það mjög gild rök sem mæla fyrir því að hér gæti verið um atvinnuuppbyggingu að ræða. Og líka viðbót við verslunarþjónustuna í landinu.
    Ég kem nú að öðru máli sem hefur verið til umræðu hér í þinginu tvisvar. Hæstv. sjútvrh. hefur rætt um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins nokkrum sinnum hér í þinginu, fyrst í sambandi við umræður um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, síðar um Verðlagsráð sjávarútvegsins. Og hér hafa þessar hugmyndir, eða þetta frv. til laga sem hér var dreift í dag, verið ræddar og reifaðar. Auðvitað skil ég áhyggjur manna þegar ætlunin er sú að fara að leigja 12 þús. tonn á frjálsum markaði. Þetta er samt ekki nýtt. Í raun og veru er verið að fara leið sem fyrri ríkisstjórn markaði um skipan Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins og ljóst er að þetta getur orðið til uppbyggingar ef rétt er að staðið. Alþfl. hefur alltaf lagt á það áherslu að þegar ríkisvaldið fer að hefja þá starfsemi að leigja kvótann þá verði hvort tveggja að gerast um leið að rekstarskilyrði sjávarútvegsins eða rekstrarskilyrði útgerðarinnar verði bætt og að þetta verði gert í áföngum. Hér er verið að ræða um 12 þús. tonn sem á að byrja að leigja í lok næsta árs eða frá 1. sept. Hér verður að fara hægt af stað. Og það verður líka að huga vel að því hvernig forkaupsrétturinn verður boðinn út, hvernig að því verður staðið að bjóða útgerðum forkaup eða forleigu að þessum kvóta.
    Ég hef efasemdir um að sú stefna sem er mörkuð hér í 4. gr. þessa frv. sé rétt. Og ég hafði fyrirvara um þá afstöðu mína í þingflokki Alþfl. þegar frv. var þar afgreitt. Ég hef líka fyrirvara um gangverðið á þessum kvóta. Auðvitað vitum við --- og það er ekkert nýtt --- að það er bullandi leiga í gangi á kvóta. Það er bullandi kvótasala í gangi líka. Það er ein versta afleiðingin af gildandi kvótakerfi að kvótaskiptin geta numið þremur til fjórum milljörðum á ári eins og þau hafa gert. Það þarf ekki annað en að lesa auglýsingarnar í dagblöðunum til að sjá það, þar sem bæði er verið að auglýsa eftir kvóta á leigu og líka verið að bjóða kvóta til leigu og sölu. Við vitum það líka að kvótinn er orðinn verðmætari en skipin sjálf. Eins og ég hef áður sagt þarf lítið byggðarlag að borga 100 milljónir króna fyrir 600 tonna kvóta. Það er mikill skattur sem þetta kerfi leggur á fólkið á landsbyggðinni og það þýðir ekkert að koma hér fram og tala um auðlindaskatt þann sem Alþfl. hafi boðið eins og eitthvert nýtt kerfi. Alls ekki. ( HG: Bættu honum við.) Ekki einu sinni að bæta honum við, nei, nei, nei. Það er ekki verið að tala um að bæta honum við, hv. 4. þm. Austurl. Það er verið að tala um að bæta honum til hliðar við þetta kerfi sem þú þekkir vel. ( HG: Bæta honum við til hliðar.) Til hliðar já, ekki við. Og ég sagði að ég hefði efasemdir uppi um að þessi stefna, sem boðuð er í 4. gr. frv., væri sú skynsamlegasta. Er það skynsamlegt t.d. að sá afli, sem landað er í erlendum höfnum, gefi forkaup að þessum 12 þús. tonnum? Er það skynsamlegt að frystitogararnir hafi forkaup að þessum 12 þús. tonnum? Ef við ætlum að efla atvinnulífið í landinu, mundum við hugleiða þetta, t.d. að þau skip, sem landa og hafa landað heima, ættu fyrsta forkaupsrétt, forleigurétt í þennan kvóta. Ef eitthvað verður afgangs gætu aðrir komið og tekið þátt í samkeppni um að bjóða hæsta verð í hann. Ég efast líka um að það eigi að selja eða leigja þennan kvóta á gangverði fyrsta, annað og þriðja sinn.
    Við höfum talað um að það eigi að fara í þetta í áföngum. Það má segja að fyrsti áfangi sé nú þegar hafinn. Þetta frv. boðar það að þessum 12 þús. tonnum verði skipt án þess að nokkur greiðsla komi fyrir í samræmi við þann kvóta sem skipin hafa nú þegar. Ég er ekki viss um að við eigum að fara af fullum krafti í að taka fullt verð, heldur að gefa þessu góðan tíma í áföngum. ( Gripið fram í: Nú er það sjútvrh. sem ræður verði.) Ja, ég veit vel að hæstv. sjútvrh. hefur haft mikil áhrif á verðið á kvótanum á undanförnum árum og það hafði fyrrv. sjútvrh. líka. Hann hafði mikil áhrif á það hvert verðið var á kvótanum. Það voru margir sem höfðu áhrif á það. Það er ekki einungis núv. hæstv. sjútvrh. sem hefur áhrif á verðið á kvótanum. Það hafa margir fleiri aðilar áhrif á verðið á kvótanum, t.d. Byggðastofnun, fjárfestingarlánasjóðir, bankar og fleiri. Líklega hefur aflasamdrátturinn sem hefur orðið á Íslandsmiðum á undanförnum árum haft mestu og stærstu áhrifin. Það er sá vandi sem við blasir og það er sá vandi sem setur okkur skorður. ( Gripið fram í: Þú komst að kjarnanum.) Já, það tekur stundum tíma fyrir hv. þm. að greina kjarnann frá hisminu. En þetta er kjarni málsins, það er hárrétt.
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni. En það er nauðsynlegt að taka byggðamálin föstum tökum núna. Ég fagna þeirri stefnubreytingu sem hæstv. forsrh. hefur lýst yfir í sambandi við afstöðu sína til Byggðastofnunar að nokkru leyti og þá sérstaklega til Atvinnutryggingarsjóðs og vonandi til byggðarinnar í landinu. Fólkið í landinu fagnar hverri slíkri stefnubreytingu. Ég veit að þegar landsstjórnin og ráðherrarnir eru komnir að fullu til verka, og þá sérstaklega hæstv. ráðherrar Sjálfstfl., sem hafa kannski ekki haft sömu reynslu af stjórnarstörfum sl. tvö til þrjú ár, komist þeir að raun um að hv. 1. þm. Vestf. hefur rétt fyrir sér í mörgum efnum, og flestum þegar byggðamálin eru annars vegar. Það er gott fyrir hæstv. ráðherra Sjálfstfl. að taka mark á ræðum hans vegna þess að þar er talað í krafti reynslu og þekkingar, hvort tveggja reynslu og þekkingar á lífskjörum fólks og stjórnunarstörfum, á störfum af því að stjórna þessu landi. Við sem yngri erum eigum að meta að verðleikum þessa reynslu og taka mark á henni í störfum okkar.