Lyfjatæknaskóli Íslands

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:41:00 (1010)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu styð ég þetta frv. og tek undir það að eðlilegt er að skólar heyri undir menntmrn. Það er dálítið gaman að því að fá þetta frv. til meðferðar, eins og á síðasta þingi, fyrst og fremst vegna þess að það hefur orðið stefnubreyting í þessum málum á undanförnum árum í menntmrn. Þegar ég gegndi starfi heilbrrh. á árunum 1980--1983 skrifaði ég allmörg bréf til menntmrn. og bað ráðuneytið um að taka við nokkrum skólum sem þá voru undir heilbrrn. Menntmrn. vildi ekki þessa skóla. Það hafði til þess ýmsar ástæður sem ég hirði ekki um að rekja hér en þetta voru mjög fróðleg skoðanaskipti og gott innlegg í skólamálasögu Íslands þegar hún verður skrifuð einhvern tímann. Síðan þetta gerðist hafa ýmsir skólar flust yfir til menntmrn., t.d. Röntgentæknaskólinn og Þroskaþjálfaskólinn og fleiri, eins og hæstv. heilbrrh. gat um áðan. Nú er verið að stíga frekari skref í þeim efnum og tel ég það fagnaðarefni.
    Ég tel einnig að þessi stefna, sem heilbrrn. tók upp fyrir rúmum áratug, og fylgdi fast eftir þrátt fyrir tregðu í menntmrn. um skeið, þyrfti einnig að líta við hjá öðrum ráðuneytum. Þá er ég að tala um fjölmörg önnur ráðuneyti sem eru með skóla á sínum vegum sem þyrftu að tengjast hinu almenna menntakerfi í landinu.
    Ég gæti í þessu sambandi nefnt félmrn. sérstaklega sem á síðasta þingi lagði fram frv. til laga um fullorðinsfræðslu í atvinnulífinu. Var gert ráð fyrir því að hún yrði á vegum félmrn. en væri auðvitað eðlilegra og betra fyrir alla hlutaðeigandi aðila að tengja menntakerfinu líka þannig að fullorðinsfræðsla, hvort sem hún er utan eða innan skóla, verði á vegum menntmrn.
    Ég vona að þessi stefna sem hæstv. heilbrrh. lýsti áðan og flutt er í frv. þessu takmarkist ekki við veggi heilbrrn. heldur smiti áhrif hennar eitthvað út, jafnvel til félmrn. líka.