Lyfjatæknaskóli Íslands

28. fundur
Mánudaginn 18. nóvember 1991, kl. 15:44:00 (1011)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þakka ég þeim hv. þm. sem hafa talað fyrir stuðning þeirra við málið. Í annan stað vildi ég láta það koma fram að að sjálfsögðu mun heilbrrn., eins og önnur fagráðuneyti, vænti ég, sem fjallað hafa um menntunarmál löggiltra starfsstétta, fylgjast mjög náið með því áfram hvernig þeim málum miðar og styðja við þá menntun þó svo að hún verði í síauknum mæli færð yfir til menntmrn. Ætlun heilbrrn. er að styðja við framhaldsmenntun heilbrigðisstétta og fylgjast ekkert síður með þeim málum en gert hefur verið til þessa.
    Vegna þess að aðeins kom til umræðu frv. um starfsmenntun í atvinnulífi, sem sennilega liggur hér fyrir, ef það er ekki komið er það væntanlegt, þá vil ég láta það koma fram að við gerum ráð fyrir því að framhaldsmenntun þeirra stétta sem hafa löggildingu, hvort sem er í heilbrigðiskerfi, iðnaði eða annars staðar, verði áfram fyrst og fremst á vegum menntmrn. með stuðningi viðkomandi fagráðuneytis. Það er alveg ljóst að framhaldsmenntun löggiltra starfsstétta verður á þann veg skipuð en það breytir því ekki að annað ráðuneyti, í þessu tilviki félmrn., getur haft umsjón með menntun í atvinnulífinu sem ekki lýtur beinlínis að framhaldsmenntun löggiltra starfsstétta.