Fyrirspurnir til ráðherra skv. 7. mgr. 49. gr. þingskapa.

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 13:30:00 (1013)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Forseti vill minna á með hvaða hætti við höfum þennan fyrirspurnatíma og lesa smápistil áður en menn fá orðið.
    Gert er ráð fyrir að þessi fyrirspurnatími taki um hálftíma. Fyrirspyrjandi hefur tvisvar sinnum þrjár mínútur og ráðherra tvisvar sinnum fimm mínútur. Forseti væntir þess eindregið að þingmenn fullnýti ekki þann rétt til ræðutíma sem þeim er áskilinn í þingsköpum því að þá komast aðeins tveir þingmenn að á þeim hálftíma sem okkur er skammtaður. --- Nú þegar sýndist forseta að það mundu vera fleiri en tveir sem vildu gjarnan bera fram fyrirspurnir.
    Fyrirkomulag umræðunnar verður þannig að þingmenn kveðja sér hljóðs með venjubundnum hætti, eins hefur nú þegar gerst, með því að banka í borðið. Auk þess vill forseti biðja hv. þm. að rísa úr sæti til þess að auðvelda forseta yfirsýn yfir þá sem biðja um orðið.
    Forseti verður að velja fyrirspyrjendur en þeir ráða því aftur á móti til hvaða viðstaddra ráðherra þeir beina máli sínu. Verði þátttaka mikil er víst að einhverjir þingmenn komast ekki að og við það verður að una.
    Forseti vill ítreka þá ósk sína að fyrirspurnir verði stuttar, um eitt eða tvö efnisatriði, og ekki síður að svör ráðherra verði stutt og hnitmiðuð. Nú hefst fyrirspurnatíminn.