Ákvæði þingskapa um óundirbúnar fyrirspurnir

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 14:11:00 (1041)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir þær athugasemdir sem fram hafa komið varðandi framkvæmdina á þessu ákvæði þingskapa. Forseti svaraði því ekki hvort um þetta mál hefði verið haft samráð við formenn þingflokkanna og ég hygg að það hafi ekki átt sér stað, a.m.k. kannast ég ekki við að að þetta hafi verið afgreitt sérstaklega. Kannski hefur forsætisnefndin verið kölluð saman og kannski hefur hún náð víðtæku samkomulagi allra þeirra sem þar sitja um þetta mál. Það fer mjög fáum sögum af fundum forsætisnefndarinnar og væri út af fyrir sig ástæða til þess að inna eftir því áður en langur tími líður hversu oft hún hittist og hvort mikið er um ágreining í þeirri nefnd um framkvæmd þingskapa, en látum það vera. Alla vega held ég að ekki hafi verið haft samráð um þetta mál við formenn þingflokkanna.
    Það hefur ekki komið fram að forsætisnefndin sem slík hafi tekið um þetta ákvörðun og ég held að það sé óhjákvæmilegt að ræða málið vegna þess að ákvæði 5. mgr. 49. gr. þingskapalaganna eru algerlega ótvíræð í þessu efni. Þau eru mjög skýr og afdráttarlaus og úrskurður forseta getur ekki komið í staðinn fyrir þetta ákvæði. Auðvitað er hugsanlegt að þingheimur nái samkomulagi um aðra framkvæmd málsins en það er allt annar hlutur sem verður auðvitað að ræða og lenda þá með víðtækum hætti.
    Síðan er það sérstaklega alvarlegt hvernig þessi umræða er framkvæmd, virðulegi forseti, af hæstv. ráðherrum og þá alveg sérstaklega af hæstv. núv. forsrh. Hann leggur í vana sinn, og það gerðist bæði núna og á síðasta fundi, að hann er síðasti ræðumaður og lýkur jafnan ræðum sínum með því að skjóta á menn sem eru búnir að tala sig dauða. Það eru algerlega ósæmileg vinnubrögð af ráðherra að haga hlutum með þessum hætti eins og hann gerði aftur og aftur og eins fyrr þegar þessar umræður fóru fram. Ég vil mótmæla því sérstaklega og segja að ef halda á áfram að tala við þennan forsrh. svo lengi sem hann gegnir því starfi, sem verður vonandi sem styst, er greinilega nauðsynlegt að breyta þingsköpunum vegna þess að það er ósæmilegt og útilokað að sitja undir því að hann hafi jafnan síðasta orðið með þeim hætti sem hann iðkar það, þ.e. að varpa á þingmenn strákslegum skætingi sem er alveg ástæðulaust fyrir okkur að sitja undir.