Fjáraukalög 1991

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 15:03:00 (1059)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir að auka framlag til Íslensku óperunnar á þessu ári um 10 millj. kr. og er það í samræmi við þá samninga sem gerðir voru við Íslensku óperuna fyrr á þessu ári. Ég samþykki það að sjálfsögðu. Jafnframt þeirri ákvörðun hefur stjórnarmeirihlutinn tilkynnt að fjárvetingar úr ríkissjóði til Leikfélags Reykjavíkur verði á næsta ári felldar niður vegna framlaga til Íslensku óperunnar. Ég tel ástæðu til að mótmæla þessari tengingu sérstaklega. Ég mótmæli þessari atlögu að Leikfélagi Reykjavíkur sem þarna kemur fram. Ég tel að þarna sé verið að etja saman listamannahópum með ósæmilegum hætti og ég bendi á að fari svo að Leikfélag Reykjavíkur fái ekki ríkisstuðning á næsta ári er það eina leikfélagið á Íslandi sem fær ekki krónu úr ríkissjóði. Ég tel að þau áform séu svo alvarleg að þau sé nauðsynlegt að ræða og boða umræðu um það af minni hálfu við 3. umr. fjáraukalaga og 2. umr. fjárlaga.