Seðlabanki Íslands

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 16:28:00 (1073)

     Steingrímur Hermannsson :
     Herra forseti. Í örfáum orðum vil ég lýsa andstöðu minni við það frv. sem liggur frammi. Ég læt nægja í flestu að vísa til þess sem hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan.
    Hæstv. viðskrh. hefur lengi verið mikill trúmaður þegar kemur að erlendum kennisetningum í hagfræði og mér finnst þetta bera þess merki. Það er eins og nú eigi að þvinga hið fábrotna, íslenska efnahagslíf til að haga sér eins og þau sem fjölbreyttari eru í kringum okkur, hvað sem hver segir. Ég get í raun tekið undir það sem hinn erlendi fræðimaður segir í skýrslu þeirri sem Þjóðhagsstofnun hefur gert. Ég tel að lokaorð hans séu rétt og sannist þar að stundum er glöggt gests augað.
    Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér. Það er ekki nema 2 1 / 2 síða og er það þó e.t.v. eitthvert stærsta málið sem lengi hefur fyrir Alþingi komið. Mér sýnist þetta frv. boða uppgjöf hæstv. ríkisstjórnar við efnahagsstjórnun, a.m.k. virðist hún ætla að gefast upp á því að ráða við einn mikilvægasta þáttinn í efnahagsmálum þjóðarinnar, þ.e. gengisskráningu. Ég er ekki að boða gengisbreytingu og reyndar er ég fylgjandi festu í gengisskráningu. En mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh. að því hvort hann telji að okkur hefði tekist eins vel, eins og við a.m.k. tveir fullyrðum, að rétta þjóðarskútuna við eftir ástandið sem var haustið 1988 ef við hefðum ekki tekið þá ákvörun að leiðrétta skráningu hinnar íslensku krónu. Það var erfið ákvörðun og okkur var ljóst að þeirri ákvörðun fylgdu ýmsir erfiðleikar og þeir mjög stórir en við sáum ekki aðra leið. Það var gripið til fjölmargra hliðarráðstafana til að þetta mætti gera hægfara og koma þannig í veg fyrir þær kollsteypur sem venjulega fylgja gengisbreytingum, en þetta var niðurstaðan að mjög vel yfirveguðu máli. Ég fyrir mitt leyti hefði ekki viljað hafa íslensku krónuna bundna ECU haustið 1988. Hér hefði þá svo sannarlega gerst eitthvað svipað og í Finnlandi, en að öllum líkindum langtum verra. Staðreyndin er bara sú að þótt hæstv. viðskrh. vilji, eins og ég sagði áðan, þröngva íslensku efnahagslífi til að hlýða erlendum kennisetningum, þá eru bara grundvallaratriði efnahagslífsins hér á landi allt önnur. Þorskurinn hlýðir ekkert hæstv. viðskrh., --- sem betur fer kannski. Náttúrulögmál eru miklu ráðandi í okkar efnahagslífi, sem reyndar sumir hafa kosið að kalla fábreytni í íslensku efnahagslífi o.s.frv. sem er út af fyrir sig alveg rétt, og hafa gífurleg áhrif eins og t.d. núna.
    Það er athyglisvert að þegar hæstv. viðskrh. boðar þessa tengingu segir hann: Sannarlega er það rétt að áður en úr henni geti orðið þurfi að ráðast í miklar kerfisbreytingar

og m.a. að mynda mikla sveiflujöfnunarsjóði. Þetta er hárrétt. Þeir þurfa áreiðanlega ekki bara að vera miklir heldur líklega gífurlegir. Það væri gaman að vita hvernig hæstv. viðskrh. hugsar sér að þessir sjóðir verði myndaðir á næstu tveimur árum því að þetta mun eiga að koma til framkvæmda í upphafi ársins 1993 á sama tíma og verulegir erfiðleikar steðja að íslenskum sjávarútvegi. Mér skilst að ein af þeim ráðstöfunum sem íslensk ríkisstjórn er með í huga til að létta undir með íslenskum sjávarútvegi sé að fella niður greiðslur í þann eina verðjöfnunarsjóð sem er til. Hann er vitanlega smámunir til að standast þær sveiflur sem gætu orðið með föstu gengi. Hvernig eiga skuldug íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, sem nú greiða okurvexti með stórhækkandi fjármagnskostnað, með minnkandi þorskafla, að mynda þessa sveiflujöfnunarsjóði sem ég er sammála hæstv. ráðherra að eru afar nauðsynlegir?
    Ég tek einnig undir það sem kom fram hjá 1. þm. Austurl. að hæstv. ráðherra hefur mjög látið að því liggja að samfara slíkri tengingu þurfi grundvallarbreytingar í íslenskri efnahagsstjórnun. Væri ekki skemmtilegra að fá að sjá þær breytingar allar svo að við vitum nákvæmlega að hverju við göngum? Vill ekki hæstv. viðskrh. tíunda þær fyrir okkur, leggja þær á borðið, telja þær upp svo við vitum nákvæmlega hvað hann hugsar sér að gera?
    Ég tek undir það með hv. 1. þm. Austurl. að vitanlega er óhjákvæmilegt annað en að hæstv. sjútvrh. sé hér viðstaddur. Þetta mál varðar sjávarútveginn meira en aðrar íslenskar atvinnugreinar sem allir þekkja og vita og slíkar kerfisbreytingar hljóta þá ekki síst að vera tengdar sjávarútveginum og við, allir hv. þm. á Alþingi, viljum sem von er fá að heyra skoðanir hæstv. sjútvrh. á slíkum kerfisbreytingum.
    Mér hefur satt að segja heldur ekki þótt í of mikið lagt þó að álitsgerðir Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar fylgdu þessu frv. Meira hefur nú verið gert. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra að hann komi þessum skýrslum til allra þingmanna og það áður en þessari 1. umr. um frv. er lokið.
    Um þetta mál má vitanlega fjölmargt fleira segja en ég stóð hér fyrst og fremst upp til að undirstrika þá ósk 1. þm. Austurl. að þessari umræðu um frv. verði ekki lokið fyrr en hæstv. sjútvrh. mætir til þings og sömuleiðis að við fáum þær skýrslur sem hér um ræðir áður en umræðunni er lokið. Ég tel um svo stórt mál að ræða að ekki veiti af að hafa mjög ítarlega umræðu um það, umræðu sem hlýtur að tengjast efnahagsástandinu og þeim kerfisbreytingum sem hæstv. ráðherra talar um í véfréttarstíl en við getum að vísu getið okkur til um hverjar eru en vitum ekki hvort stuðningur er við í hæstv. ríkisstjórn. Að sjálfsögðu þurfum við um leið að ræða um ástand atvinnulífsins. Við þurfum að ræða um það t.d. sem ég nefndi áðan hvort sjávarútveginum yrði kleift að mynda þá verðjöfnunarsjóði sem ætlast er til að hann geri áður en til þessa kemur.
    Einnig er nauðsynlegt að ræða hvort hér er, eins og í annarri hvorri skýrslunni er nefnt, verið að taka afgerandi skref um nálgun við Evrópu, jafnvel umfram það sem kann að felast í Evrópsku efnahagssvæði. Með því að tengjast hinum evrópska gjaldmiðli er vitanlega gengið lengra en nauðsyn krefur þótt við gerumst aðilar að hinu Evrópska efnahagssvæði. Og hver er tilgangur hæstv. ráðherra? Er tilgangur hæstv. ráðherra að stíga mikilvægt skref til að tengjast Evrópu enn betur? Að því hefur stundum verið látið liggja að svo ætti að gera, m.a. í stefnu Alþfl. fyrir kosningar. Er hér um lið í slíku að ræða?
    Þetta frv., sem lætur svo lítið yfir sér eins og ég sagði, er ekki nema fjórar greinar þegar allt er talið, tvær og hálf síða, er gífurlega stórt og hlýtur að krefjast mjög mikillar umræðu. Og ég lýk þessum fáu orðum með því að ítreka að 1. umr. verði ekki lokið fyrr en sjútvrh. verður við og við fáum öll þau gögn í hendur sem að baki liggja.