Jarðhitaréttindi

29. fundur
Þriðjudaginn 19. nóvember 1991, kl. 18:21:00 (1087)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Austurl. beinir til mín tveimur spurningum. Hinni fyrri hvað líði undirbúningi frv., annars vegar um eignarhald á orkulindum og almenningum og hins vegar um mörkin á milli eignarlanda og almenninga. Þá er frá því að segja að eins og fram kemur í frumvarpaskrá sem fylgdi stefnuræðu forsrh. og reyndar í hvítbók ríkisstjórnarinnar, þá er að því stefnt að þessi frv. komi fram á þinginu í vetur. Frv. munu ekki endilega bæði koma frá iðnrn. Hið fyrra, um eignarhald á orkulindum og almenningum og verðmætum jarðefnum í iðrum jarðar, fellur eðlilega undir iðnrn. en hitt kynni fremur að eiga heima hjá dómsmrh. Um leið og við höfum lokið þessu verki sameiginlega á vettvangi ríkisstjórnarinnar teldi ég það mjög heppilega vinnuaðferð að kynna það í iðnn. þingsins og hugsanlega allshn., ef svo bæri undir, einmitt til að tryggja sem víðtækasta samstöðu um þetta mál sem er mikið framtíðarmál. Þess vegna set ég ekki fyrir mig smávegis frest í því og tel þetta ekki vera dægurmál. Ég tel þetta mál sem þurfi mjög vandaðan undirbúning. Og eins og dæmin sanna þá malar kvörn sögunnar mjög hægt í þessu máli því frv. sem flutt var 1945 af dr. Bjarna Benediktssyni náði ekki fram að ganga og þær skoðanir sem á er byggt í því hafa enn ekki fengið nægilegan hljómgrunn til að fá þingstyrk. Ég held að þetta sé að breytast m.a. vegna þeirrar nauðsynjar sem á því er að gera þetta skýrt vegna okkar samninga við aðrar þjóðir.
    Í þessu tel ég verkefnið felast sem fram undan er og býst við því að frv. sem verið er að semja á vegum iðnrn. um eignarhald á orkulindum, og byggir að sjálfsögðu á því efni sem iðnn. þingsins var sent í fyrra og hv. þm. vitnaði til, verði lagt fram mjög fljótlega eftir jólahlé þingsins. Um hitt málið treysti ég mér ekki til að fullyrða. Þó veit ég að nefnd, sem setið hefur mjög lengi að störfum á vegum forsrn. og fjalla skyldi um mörkin milli eignarlanda og almenninga, hefur senn lokið starfi eða e.t.v. lokið því. Hvort tveggja eru þetta mjög mikilvæg mál og ég tek undir það með hv. 4. þm. Austurl. að það er ákaflega mikilvægt að um þau náist góð samstaða hér í þinginu.
    Um seinni spurninguna, um orkusáttmála Evrópu, er það að segja að það starf hófst í fyrravor með tillögugerð af hálfu Lubbers, forsætisráðherra Hollands. Evrópubandalagið tók síðan undir tillögur Hollendinga. Bein vinna að gerð sáttmálans hófst þó ekki fyrir alvöru fyrr en í júlí á þessu ári. Íslendingar hafa fylgst með því starfi. Ég hef gert ríkisstjórninni grein fyrir því sem fram hefur undið á þeim vettvangi bæði í ágúst sl., nú síðast í þessum mánuði. Ég hef líka sent iðnn. og utanrmn. Alþingis minnisgrein um stöðu málsins og síðustu textadrög sem til eru bæði að pólitískri yfirlýsingu þeirra ráðherra sem ætlunin er að standi að þessum sáttmála og grundvallarsamningsdrögin sem líka eru nokkuð á veg komin. Þetta hef ég kynnt nefndum þingsins skriflega. Þær hafa enn ekki óskað eftir samtölum um þetta mál. Ég hef líka gert ráð fyrir því að íslenskir embættismenn taki þátt í þeim viðræðum sem nú fara fram, m.a. er orkumálastjóri staddur á einum slíkum fundi í Brussel þessa daga með starfsmönnum utanríkisþjónustunnar.
    Ég vil líka taka það fram vegna þess sérstaka efnisatriðis sem þingmaðurinn nefndi að ég hef beitt mér fyrir því á vettvangi orkuráðherra Norðurlanda og sérstaklega með samstarfi við orkuráðherra Noregs, Finn Kristensen, að Norðurlöndin stæðu saman um að gera mjög ákveðna kröfu um það að í þessari sáttmálayfirlýsingu, sem menn eru að stefna að að ljúka fyrir áramót, komi fram mjög skýr ákvæði um fullveldi aðildarþjóða yfir orkulindum sínum. Þessi fullveldisfyrirvari, sem ég kalla svo, hefur fengið góðan stuðning í röðum Norðurlandamanna. Áform er að standa sameiginlega að því á þessum vettvangi. Hina hliðina á málinu, aðgang okkar að mörkuðum Evrópu fyrir orku og orkufrekar afurðir og þátttöku í orkurannsóknum á Evrópugrundvelli, tel ég ákaflega mikilvæga fyrir framtíðarþróun orkubúskapar á Íslandi. Reyndar getur þetta líka skipt miklu máli fyrir möguleika Íslendinga til að selja ráðgjöf og þekkingu í orkumálum til ríkjanna nýfrjálsu í Austur-Evrópu. En mikilvægasta atriðið í þessum væntanlega orkusáttmála Evrópu er þó e.t.v. hvernig orkubúskapur Austur-Evrópuríkja tengist orkubúskap Vestur-Evrópuríkja. Þess vegna tel ég það mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að taka þátt í þessu starfi. Það verður gert með þeim hætti sem ég hef lýst. Ég gerði, eins og ég nefndi áðan, þingnefndunum tveimur sem ég tel að komi helst við sögu, grein fyrir málinu sl. mánudag.