Lífeyrisréttindi hjóna

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 15:30:00 (1107)

     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
     Herra forseti. Ég þakka hv. 10. og 11. þm. Reykv. fyrir þessar undirtektir. Það er svo með lífeyrissjóðina að þeir eru allmargir og eins og ég gat um áðan er eignamyndun þeirra geysileg og engar smáupphæðir sem verið er að tala um. Hins vegar standa lífeyrissjóðirnir frammi fyrir nokkru vandamáli sem er að aukast og það er hin svokallaða örorka sem sífellt sækir nú meira á sjóðina en áður hefur gert og það kom upp í huga mér þegar hv. 10. þm. Reykv. var að tala um breytingu á lífeyrissjóðakerfinu og hv. 11. þm. Reykv. gat einnig um það.
    Tryggingaþáttur lífeyrissjóðanna er orðinn svo stór að mér er næst að halda að það hafi ekki verið hugsað svo langt fram þegar lífeyrissjóðir voru stofnaðir að þessi þáttur hefði jafnmikið vægi varðandi útgreiðslur og nú er. Ég tók sérstaklega fram að hér ætti eingöngu við um lífeyrisrétt vegna þess að allt annað í lífeyrissjóðakerfinu væri varðandi inneign eða bóta á örorku eða hvernig skuli fara starfsaldur. Ef við tökum t.d. opinbera starfsmenn þá er til í dæminu að aldur plús starfsaldur veiti viðkomandi aðila rétt til töku lífeyris fyrr en öðrum. Ég veit að það er slíkur frumskógur að fara ofan í þessi mál að ég tel mjög nauðsynlegt að einangra þetta nú fyrst um sinn eingöngu við lífeyrisréttinn sjálfan og þá þannig að lífeyrisrétturinn myndist þá eins og eðlilegt er hjá hverjum sjóði.
    Nú hafa margir lífeyrissjóðir lög eða reglugerðir sem þeir starfa eftir og ég veit ekki betur en flestallir ef ekki allir lífeyrissjóðir hafi þau ákvæði að jafnt gildi um óvígða sambúð sem um vígða sambúð væri að ræða. Þó er sambúð nokkuð takmarkaðri hvað áhrærir útborgun t.d. ekknabóta og verður sambúð þá að hafa varað í ákveðinn tiltekinn árafjölda.
    Hv. 10. þm. Reykv. minntist á varðandi séreign einstaklinga, þ.e. að hver og einn ætti nánast eyrnamerkta greiðslu inni á lífeyrissjóðakerfinu. Það er gert með þeim hætti að eftir hvert ár er ýmist reiknað yfir í stig eða prósentuhlutfall eignamyndunar inni í sjóðnum miðað við þau grundvallarlaun sem eru notuð til viðmiðunar og greiddur er út úr sjóðnum lífeyrir eða örorka. Ég sé ekki að það væri neinum vandkvæðum bundið hjá lífeyrissjóðunum að vinna það verk að skrá hjá sér þann aðila sem er heimavinnandi eða hinn aðilann eignamyndunar í lífeyrissjóðnum.
    Ég vil svo þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið og vona að við getum skoðað það nánar í heilbr.- og trn. Það er rétt sem kom fram í máli hv. 11. þm. Reykv. að það eru sjálfsagt fjölmörg lög þröskuldur á vegi þess að þetta megi ná fram að ganga svo fljótt sem við vildum, en auðvitað þarf að skoða það. En eins og ég gat um áðan, þá held ég að það sé ekkert í vegi þess hvað áhrærir lög eða reglugerðir lífeyrissjóðanna að þetta geti orðið að lögum án þess að einhverju þurfi þar til að breyta.