Lækkun húshitunarkostnaðar

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:13:00 (1185)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
     Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vildi ég svara þeirri spurningu, sem til mín var beint af hv. 2. þm. Vesturl., hvað við væri átt með orðunum að niðurgreiðslustig yrði óbreytt á næsta ári. Þá vil ég láta það koma fram að ég hef í hyggju, þegar fjárlög fyrir árið 1992 hafa verið afgreidd, að leita allra leiða til að nýta sem best það fé sem veitt verður til niðurgreiðslu raforku þannig að fólkið á þessum svæðum njóti þess sem allra best. Ég ætla ekki að fullyrða á þessari stundu hvort það þýðir óbreytta krónutölu eða hækkaða krónutölu, ég ætla að bíða og sjá hvernig fjárlagaafgreiðslan verður. Ég hef lagt það fyrir mína starfsmenn að leita leiða innan þeirra fjárhagstakmarkana sem frv. setur til þess að nýta þetta enn þá betur. Ég vona að það takist og veit að það er mikill áhugi á því í þinginu að nota þetta fé til góðra hluta. Að endingu, virðulegi forseti, þá er það alveg rétt hjá hv. 6. þm. Vestf. að það er mjög mikilvægt að jafna lífskjörin hvað þetta varðar. Það er reyndar, og ég endurtek það, á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar.