Hópferðir erlendra aðila

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:16:00 (1186)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Á Alþingi þann 23. apríl 1990 var samþykkt þáltill. um leiðsögumenn og endurskoðun reglugerðar nr. 175/1983. Ályktunin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að skipa nefnd til að endurskoða reglugerð nr. 175/1983, um eftirlit með skipulögðum hópferðum erlendra aðila til Íslands í atvinnuskyni. Í nefndinni eigi sæti fimm fulltrúar skipaðir af eftirfarandi aðilum: samgönguráðuneyti, umhverfisráðuneyti, Félagi leiðsögumanna, Félagi ísl. ferðaskrifstofa og ferðafélögum áhugamanna. Ný reglugerð öðlist gildi eigi síðar en 1. jan. 1991.``
    Ég hef ekki orðið vör við að ný reglugerð samkvæmt þessari ályktun hafi verið gefin út. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. samgrh., á þskj. 110, hvað líði framkvæmd þessarar ályktunar.
    Í nál. atvmn. sameinaðs þings, sem hafði þetta mál til meðferðar á sínum tíma, kemur fram að endurskoðun reglugerðarinnar eigi að fela í sér, og langar mig til að lesa það, með leyfi forseta:
  ,,a. skilgreiningu á því hvað telst vera skipulögð hópferð,
    b. að skylt verði að hafa leiðsögumann með starfsréttindi Ferðamálaráðs í hópferðum erlendra ferðamanna um landið sem skipulagðar eru í atvinnuskyni af íslenskum eða erlendum aðilum,
    c. í hvaða tilvikum og með hvaða skilyrðum unnt væri að veita undanþágur til að ráða aðra í störf leiðsögumanna.``
    Mér er kunnugt um að þáv. samgrh. skipaði nefnd haustið 1990 og sú nefnd starfaði eitthvað fram að jólum og gerði drög að nýrri reglugerð sem var send út til umsagnar en síðan hefur ákaflega lítið eða ekkert heyrst frá þessari nefnd. Alla vega ekki svo ég

viti. Þess vegna ítreka ég fsp. til hæstv. samgrh.: Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 23. apríl 1990 um leiðsögumenn og endurskoðun á reglugerð?