Losun salernistanka húsbíla

31. fundur
Fimmtudaginn 21. nóvember 1991, kl. 13:41:00 (1197)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
     Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að á það skortir að ferðamenn, sem koma með bíla sína til landsins með ferjum, fái nægilegar upplýsingar. Vonandi verður hægt að bæta úr því næsta sumar þannig að enginn sem staðinn er að umhverfisbrotum á hálendinu geti borið því við að hann hafi ekki haft vitneskju um reglurnar. Það er auðvitað nauðsynlegt að kynna mönnum reglurnar vel þannig að ekki sé hægt að bera við þekkingarleysi eða skorti á vitneskju.
    Eitt atriði aðeins vildi ég nefna í framhaldi af því sem sagt var hér um húsbíla áðan. Íslenskir húsbílaeigendur hafa með sér samtök og mér er kunnugt um að þeir berjast fyrir því að vel sé gengið um landið. Flestir bíla þeirra eru með slíkum tönkum sem hér um ræðir. Þeir nota kemisk leysiefni í þessa geyma sem eru merkt umhverfisvæn þannig að ég held að hafi verið við einhverja að sakast í þessum efnum vegna óþrifa, þá hafi þar sennilega ekki verið um félagsmenn þeirra ágætu samtaka að ræða.