Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:25:00 (1226)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja svo mjög þá umræðu sem hér hefur farið fram. Menn hafa bent á það hversu þessi skattur er á margan hátt gallaður og óréttlátur en það hefur jafnframt verið undirstrikað að við núverandi aðstæður hafa menn ekki treyst sér til að falla frá þessari skattheimtu að sinni.
    Ég held að þessar umræður, og umræður sem fram hafa farið almennt um eignarskattlagninguna í landinu, hafi undirstrikað í hvílíkt öngstræti við höfum ratað í þeim efnum. Þess vegna er það þýðingarmikið atriði sem fram hefur komið bæði í athugasemdum við þetta lagafrv., í grg. fjárlagafrv., í hvítbók ríkisstjórnarinnar og stjórnarsáttmála að það er ætlunin að taka upp samræmingu á skattlagningu eigna og eignatekna og hverfa þannig í veigamiklum atriðum frá þeirri skattlagningu sem núna ríkir.
    Um þetta mál hygg ég að sé sumpart veruleg samstaða vegna þess að flestir hafa skynjað ranglæti þeirrar eignarskattlagningar sem núna viðgengst í landinu. Hins vegar er hér um að ræða afar flókið mál, tæknilega flókið og ýmis álitamál sem upp hafa komið. Þess vegna þarf að íhuga það mjög vel.
    Forsendan fyrir því að ég og mjög margir aðrir hafa lýst yfir stuðningi sínum við

þessa skattlagningu núna er einfaldlega það fyrirheit ríkisstjórnarinnar að þetta mál verði tekið upp í heild sinni og endurskoðað með þeim hætti sem boðað hefur verið í þeim plöggum sem ég vitnaði til áðan.
    Ég held að það sé ekkert ofmælt sem hefur verið sagt um þá offjárfestingu sem hefur átt sér stað í verslunar- og skrifstofuhúsnæði, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, en það sem auðvitað vekur athygli og er innlegg í þetta mál er sú staðreynd að þrátt fyrir að sérstök skattlagning hafi verið á verslunar- og skrifstofuhúsnæði síðustu 12 ár, þá hefur það ekkert haft að segja til þess að virka sem hemill á þessa fjárfestingu.
    Í ljósi þess sem að framan er sagt þá er ég stuðningsmaður þess að í eitt ár í viðbót verði lagður á sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Með öðrum orðum í ljósi þess sem fram hefur komið um fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að breyta í grundvallaratriðum skattlagningu eigna lýsi ég stuðningi mínum við frv.