Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

33. fundur
Mánudaginn 25. nóvember 1991, kl. 15:44:00 (1229)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi óska eftir því að hæstv. félmrh. verði hér í salnum við þessa umræðu.
    Hér fyrr í umræðunni var sett fram sú ósk að hæstv. forsrh. greindi þinginu frá því hvaða stuðning ríkisstjórnin hefði við þetta frv. Það er athyglisvert að hæstv. forsrh. hefur ekki treyst sér til þess í umræðunni að gera það. Mælendaskrá hafði verið tæmd þegar hv. 1. þm. Austurl. bað um orðið án þess að hæstv. forsrh. ætlaði sér hingað upp í stólinn til þess að svara því hvaða stuðning ríkisstjórnin hefði við þetta fyrsta fylgifrv. fjárlaganna.
    Ég held að það séu engin fordæmi fyrir því í þingsögunni að ný ríkisstjórn leggi af stað við afgreiðslu á fyrsta fylgifrv. fjárlaganna og allir flokksmenn forsrh. og fjmrh. í efnahagsnefnd þingsins neita að styðja frv. með venjulegum hætti. Það er það sem hér hefur gerst. Flokksbræður fjmrh. neita að styðja hans eigið frv. Svo sögðu menn að hér hefði verið mynduð ríkisstjórn vegna þess að það þyrfti traustan meiri hluta. Þessi vinnubrögð gefa nú ekki til kynna að ríkisstjórnin hafi traustan meiri hluta.
    Hv. þm. Egill Jónsson kallaði hér fram í þegar ég bað um orðið: ,,Á að fara að stunda hér málþóf?`` Það kemur úr hörðustu átt, hv. þm. Sjálfstfl. talaði heilt hefti í þingtíðindunum á móti þessum skatti á síðasta kjörtímabili. Heilt hefti í þingtíðindunum á móti skattinum. Svo koma þessir menn og kalla málþóf þó það séu umræður í rúman klukkutíma við 2. umr. um þetta frv. Sjálfstfl. býr auðvitað í slíku glerhúsi, ekki bara nú heldur áður varðandi þennan skatt að þingmenn hans ættu ekki að vera að kalla fram í þótt aðrir vilji fá að ræða málið í fáeinar mínútur til að knýja á um það að forsrh. svari þinginu hvernig er komið fyrir hans ríkisstjórn. Eða er hann kannski líka orðinn aukaleikari í ríkisstjórninni? Svo að notuð séu þau orð sem hann hafði um sjálfan sig í áheyrn þjóðarinnar fyrir helgina þegar hann var spurður um stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum fyrir næsta ár, gerð nýrra kjarasamninga, þá lýsti hæstv. forsrh. því yfir að hann væri bara aukaleikari í því máli. Kannski er ríkisstjórn aukaleikaranna komin á það stig að það nál. sem hér liggur fyrir, nál. hinna eilífu fyrirvara, lýsi best hvernig er fyrir henni komið.
    Ég vil líka óska eftir því að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson komi upp í ræðustólinn, mér er ekki kunnugt um að hann hafi gert það, og lýsi því yfir hvort hann styðji þetta frv. ( Gripið fram í: Af fúsum og frjálsum vilja.) Ja, mér er satt að segja alveg sama um það hvernig hann orðar það. Ég vil bara fá að vita það hvort hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Verslunarráðsins, styður þetta frv. því að þingmaðurinn er enn framkvæmdastjóri Verslunarráðsins. Þegar ég var fjmrh. háði þessi núverandi hv. þm. Vilhjálmur Egilsson harða baráttu innan þings og utan gegn þessum skatti og talaði þar í nafni Verslunarráðsins og kom fram fyrir hönd þess. Nú hefur hann verið kosinn af Norðurl. v. inn á þing. Hefur hann þá skipt um skoðun? Hefur hann skipt um skoðun, hv. þm.? Það þætti mér gott að fá að vita vegna þess að ég varð að hlýða á fordæmingar þessa sama manns gegn þessum skatti þegar ég flutti þau frv. hér á Alþingi. Og þau samtök sem hann er framkvæmdastjóri fyrir lögðu mikið á sig í samskiptum við nefndir þingsins og í umræðum í þjóðfélaginu, með blaðaskrifum og öðru til þess að berjast gegn þessum skatti. Eða er þannig komið fyrir þingmanninum og framkvæmdastjóra Verslunarráðsins að hann sé með einhverja aðra skoðun nú en þá? Skoðunin birtist í atkvæðagreiðslunni, hv. þm. Hún birtist ekki í einhverjum langlokum hér í ræðustólnum eða þögn í salnum. Hún birtist í atkvæðagreiðslunni.
    Og hvað segir Verslunarráðið um þá afstöðu framkvæmdastjórans að styðja skattinn hér í þingsalnum? Hefur Verslunarráðið gert sérstaka samþykkt í þessu máli nú eða var það bara þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu sem Verslunarráðið þjónustaði Sjálfstfl.? Er Verslunarráðið einhvers konar aukadeild í Sjálfstfl.? Það væri gagn fyrir okkur að fá að vita það sem héldum í einlægni þegar við vorum í ríkisstjórn að það væri hægt að hafa faglega samvinnu við Verslunarráðið og töldum okkur ná nokkrum árangri í ýmsum málum sem ráðherrar Sjálfstfl. höfðu staðið gegn á sínum tíma og hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni er fullkunnugt um. ( Fjmrh.: Nú geturðu hætt. Það tókst.) --- Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hefur beðið um orðið þannig að ég ætla ekki að segja meira fyrr en hann hefur talað. En hæstv. fjmrh. líður greinilega eitthvað illa og kallar hér fram í: Það tókst. Hvað tókst, hæstv. ráðherra? Að fá að heyra í þeim mönnum sem börðust á móti skattinum, en eiga nú að styðja hann? Er það eitthvert gamanmál, hæstv. ráðherra? Var þessi málflutningur Sjálfstfl. á síðasta kjörtímabili bara grín? Átti þjóðin bara að hlæja að hv. þáv. þm. Friðriki Sophussyni sem hér talaði linnulaust á móti þessum skatti? ( Fjmrh.: Ef hún skemmtir sér, þá má hún hlæja.) Ef þjóðin skemmtir sér má hún hlæja, segir hæstv. fjmrh., varaformaður Sjálfstfl. Þar með er hann að viðurkenna það að þjóðin eigi bara að hlæja að Sjálfstfl. ef hún skemmtir sér, það er eina skilyrðið. En hún á ekki að taka mark á honum vegna þess að gagnrýni hans hér í þingsölum á síðasta kjörtímabili og atkvæðagreiðslurnar voru marklausar. Það voru menn sem töluðu gegn betri vitund og voru ekki að fylgja sannfæringu sinni. Og þeir gera það að sínu fyrsta verki hér í þingsalnum að biðja um samþykki við þennan skatt. Það er þeirra fyrsta verk hér í þingsalnum. Þeir töluðu heilt

hefti af þingtíðindum á móti skattinum á síðasta kjörtímabili. Og hæstv. fjmrh. segir að þjóðin megi svo sem hlæja ef hún skemmtir sér.
    En þjóðinni er ekki hlátur í hug, hæstv. fjmrh., vegna þess að hún er búin að fá nóg af því að menn komi í kosningum og segist ætla að gera eitt og geri eftir kosningar allt annað. Það er hægt að stunda kosningasvindl með öðrum hætti en menn gerðu t.d. í Pakistan, með því að skipta um atkvæðaseðla í kjörkassanum. ( Fjmrh.: Er ræðumaður að tala um matarskattinn eða eitthvað annað?) Ég er alveg reiðubúinn að tala við hæstv. ráðherra um það, alveg reiðubúinn að fara í langa umræðu um matarskattinn ef hæstv. ráðherra vill það. Kannski ættum við að gera það. Því það er nefnilega alveg rétt sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði: Það er ekki hægt að ræða þetta frv. til loka 2. umr. í ljósi þess nál. sem fyrir liggur þar sem allir flokksmenn forsrh. og fjmrh. eru með fyrirvara. Það er ekki hægt að ræða það til loka fyrr en ríkisstjórnin er búin að gera grein fyrir skattastefnu sinni í heild. Og þar kem ég að hæstv. félmrh.
    Þjóðin horfði á það í haust að dag eftir dag var greint frá því að í þingflokki Alþfl. væri ekki stuðningur við fjárlagafrv. og það kom fram í fjölmiðlum að hæstv. félmrh. treysti sér ekki til þess að styðja fjárlagafrv. Þá gerðist það að boðað var til fundar í Stjórnarráðshúsinu. Þjóðin sá í sjónvarpinu myndir af hæstv. félmrh. og hæstv. utanrrh. þegar þeir komu af fundi með forsrh. þar sem, samkvæmt yfirlýsingu hæstv. félmrh., forsrh. veitti hæstv. félmrh. tryggingu fyrir því að fyrir jól, fyrir afgreiðslu fjárlagafrv. yrðu samþykkt hér á Alþingi frumvörp um jöfnunaraðgerðir í skattamálum í þágu þess fólks sem er með lægst launin og bágust kjörin. Nú er komið að lokum nóvembermánaðar og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Hvenær koma þessar jöfnunaraðgerðir í skattamálum í þágu lágtekjufólks og launafólks sem hæstv. félmrh. sagði þjóðinni að hún hefði fengið tryggingu fyrir að yrðu afgreidd á þingi áður en fjárlagafrv. yrði samþykkt? Nú eru samkvæmt starfsáætlun þingsins ekki nema rúmar tvær vikur þar til lokaafgreiðsla fjárlagafrv. á að fara fram. Ekkert hefur heyrst um þessar jöfnunaraðgerðir, hæstv. félmrh., frá því að félmrh. gaf út yfirlýsinguna í áheyrn alþjóðar í haust. Því vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Hvenær koma þessar jöfnunaraðgerðir? Eða ætlar hæstv. forsrh. líklegast að svíkja hæstv. félmrh.? Og ég vil spyrja hæstv. félmrh.: Ef þessar jöfnunaraðgerðir í skattamálum koma ekki, stendur þá sú yfirlýsing hæstv. félmrh. að hún styðji ekki fjárlagafrv.? Eða er hæstv. félmrh. búinn að skipta um skoðun frá því í haust? ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi langt eftir af sinni ræðu því að þessum þingfundartíma er nú senn að ljúka. Klukkan er reyndar orðin fjögur.) Virðulegi forseti. Ég á í sjálfu sér ekki mjög langt eftir af minni ræðu, það eru ekki nema einhverjar mínútur. En fyrst hæstv. forsrh. hefur beðið um orðið --- ( Forsrh.: Það er misskilningur að ég hafi beðið um orðið.) Mér heyrðist hæstv. forsrh. biðja um orðið. Ef það er misskilningur og hæstv. forsrh. þorir ekki enn að tala í þessari umræðu, þá ætla ég að tala hér nokkurt mál enn, hæstv. forseti.
    Hæstv. forsrh. hefur nú upplýst að hann hafi ekki enn þá lagt í það að biðja um orðið í þessari umræðu og ég mun þá fresta máli mínu. ( Forseti: Forseti verður að biðja hv. þm. að fresta þá ræðu sinni.) Já, ég mun gera það, virðulegi forseti.