Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 14:41:00 (1243)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég ætlaði alls ekki að skorast undan því að svara fyrirspurn hv. þm. sem hann beindi til mín en mér var ekki ljóst að umræðunni væri að ljúka. Sú spurning sem hv. þm. hefur beint til mín snýst ekki um það frv. sem hér er á dagskrá heldur spurði hv. þm. um tekjujöfnunaraðgerðir, hvort ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir ákveðnum tekjujöfnunaraðgerðum. Vitnaði hv. þm. þá til athugasemda sem fram komu hjá mér áður en frv. til fjárlaga var lagt fram á Alþingi.
    Það er rétt hjá hv. þm. að ég gerði athugasemd bæði við útgjalda- og tekjuhlið fjárlaga áður en frv. var lagt fram. Það fyrra snerist um það hvernig mætt yrði fjárvöntun á

tekjuhlið. Ég tel að umræða um það sé nú á lokastigi og horfur á því að þau sjónarmið sem ég setti þar fram nái fram að ganga.
    Hitt atriðið sneri að tekjujöfnunaraðgerðum þar sem ég taldi brýnt að ákveðin stefna yrði mörkuð í tengslum við fjárlagagerðina. Í því sambandi er auðvitað ljóst og fram hefur komið að þær breytingar sem orðið hafa í efnahagsmálum frá því að fjárlagafrv. var lagt fram setja ríkisstjórninni ákveðnar skorður. Má í því sambandi nefna að eitt og sér er ætlað að frestun álversframkvæmda hafi þau áhrif að lækka tekjur ríkissjóðs um rúman 1 milljarð kr. Það er auðvitað ljóst að slíkt setur ríkisstjórninni ákveðnar skorður varðandi tekjujöfnunarðaðgerðir. Engu að síður er ljóst að í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er mörkuð ákveðin stefna sem ég taldi nauðsynlegt.
    Að hluta til kemur sú stefnumörkun fram með tvennum hætti í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar frá því í október. Þar kemur fram að ríkisstjórnin vill tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og stuðla þannig að því að sættir takist um sanngjörn kjör og hún muni í því skyni beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum sem koma hinum tekjulægstu til góða. Í annan stað er í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar kveðið á um að þegar á næsta ári verði gripið til sérstakra aðgerða til að draga úr húsnæðiskostnaði leigjenda. Þannig er í tvennum skilningi sett fram ákveðin stefnumörkun í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að því er varðar tekjujöfnunaraðgerðir.
    Það er hins vegar skoðun ýmissa að eðlilegt sé að aðilar vinnumarkaðarins, ekki síst verkalýðshreyfingin, hafi áhrif á til hvaða aðgerða verði gripið í skatta- og félagsmálum, enda á það lögð áhersla í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að í því skyni að sættir takist um sanngjörn kjör muni ríkisstjórnin beita sér fyrir aðgerðum í skatta- og félagsmálum. Niðurstaðan um til hvaða aðgerða verði gripið og hvenær sú ákvörðun verður tekin tengist því líklega kjarasamningum.
    Annars vil ég segja það, virðulegi forseti, að mér finnst nokkur tvískinnungur í því þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson gengur hér fram og kallar eftir tekjujöfnunaraðgerðum fyrir hina verst stöddu í þjóðfélaginu. Mig minnir að það hafi komið fram í blöðum um helgina að það hafi verið hv. þm. Matthías Bjarnason sem hafði þau orð um hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson að hann væri góður leikari og ég get svo sannarlega tekið undir að það er margt satt í þeim ummælum.
    Ég hef verið félmrh. um fjögurra ára skeið þar sem þrír hv. þm. hafa setið í stóli fjmrh. og ég held --- og segi það af fyllstu hreinskilni --- að ég hafi aldrei átt eins erfitt með að glíma við nokkurn ráðherra að því er varðar ýmsa málaflokka sem snerta láglaunafólk eins og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson þegar hann var fjmrh. Þeir málaflokkar sem snerta mikið kjör láglaunafólks eru málefni fatlaðra svo að dæmi sé nefnt og uppbygging á félagslegum íbúðum. Ef maður lítur yfir þessi fjögur ár sem ég hef verið í stóli félmrh., þá hef ég mikið barist fyrir því að t.d. Framkvæmdasjóður fatlaðra fengi sitt framlag en þegar maður lítur yfir fjárlögin frá 1988 og til dagsins í dag, þá er það alveg ljóst að í tíð Ólafs Ragnars sem fjmrh. í þrjú ár hefur minnst komið í þennan sjóð. Ef við miðum við verðlag í dag voru á fjárlögum í Framkvæmdasjóði fatlaðra tæpar 300 millj. þegar Jón Baldvin Hannibalsson var fjmrh., en síðan lækka þau í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar niður í 270 millj. 1989, niður í 227 millj. árið 1990, og síðan 1991 var svipuð tala á fjárlögum en hækkaði svo rétt fyrir kosningar, þá fer hún upp í 270 millj. Og svo þegar sjálfstæðismaður sest í stól fjmrh. þá eru framlögin í Framkvæmdasjóð fatlaðra 320 millj. kr. Ég held að þessar tölur sýni ljóslega að ég hef átt í mestum erfiðleikum við að halda framlögum í Framkvæmdasjóði fatlaðra þegar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh.
    Sama má segja um félagslegar íbúðir. Við stóðum frammi fyrir því á þessum tíma

í fyrra að ekki var ætlað fjármagn til einnar einustu nýrrar félagslegrar íbúðar á þessu ári og þá var Ólafur Ragnar Grímsson fjmrh. Og það tók verulegan slag hér í þinginu að fá hæstv. fjmrh. inn á það að breyta nú um varðandi þá tölu sem var á fjárlögum þannig að hægt væri að halda áfram uppbyggingu á félagslegum íbúðum eins og verið hafði. Ef það hefði ekki tekist, þá værum við ekki núna að byggja 500--600 félagslegar íbúðir. En núna þegar sestur er í stól fjmrh. sjálfstæðismaður virðist vera auðveldara viðfangs að ná fjármunum inn í þennan mikilvæga málaflokk fyrir láglaunafólk, þ.e. uppbyggingu á félagslegum íbúðum. Í fjárlagafrv. á síðasta ári var gert ráð fyrir 700 millj. en tæplega 1.100 millj. er gert ráð fyrir á næsta ári þannig að hægt verður að halda áfram uppbyggingu félagslegra íbúða.
    Ég dreg þetta fram, virðulegi forseti, af því að mér heyrist í þessari umræðu að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson beri verulega fyrir brjósti hag láglaunafólks og kalli hér eftir tekjujöfnunaraðgerðum, en ég hef sýnt fram á það, virðulegur þingmaður, að í tveim mikilvægum málaflokkum sem snerta kjör láglaunafólks var aldrei eins erfitt að eiga við nokkurn fjmrh. eins og við hv. þm. til þess að ná eðlilegu fjármagni í þennan málaflokk. Þetta sýnir, virðulegi forseti, að fáir skipta eins um ham og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, þ.e. eftir því hvort hann er í stjórn eða stjórnarandstöðu.