Skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 15:51:00 (1246)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé, í tilefni af ýmsu því sem fram kom í ræðu hv. 8. þm. Reykn., að segja hér nokkur orð þó ekki sé nema til að bera af sér sakir vegna þess að ýmislegt sem fram kom í máli hv. þm. var beinlínis rangt.
    Hv. þm. byrjaði á að segja að ég og hæstv. fjmrh. hefðum hafið umræðu um mál sem ekki væri á dagskrá og ekki ætti að vera til umræðu. Ég vil minna hv. þm. á að það var hv. þm. sjálfur sem hóf að ræða mál sem snerti ekki það sem hér var til umræðu, þ.e. skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en beindi til mín ákveðnum spurningum varðandi tekjujöfnunaraðgerðir.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að fyrrv. fjmrh. ætti ekki að koma á óvart þó ég segi hér að það hljóti að setja ríkissjóði ákveðnar skorður þegar fyrirsjáanlegt er að hann verður fyrir tekjutapi svo nemur a.m.k. einum milljarði á næsta ári og það setji honum ákveðnar skorður t.d. varðandi aðgerðir sem ríkisstjórnin vildi grípa til í sambandi við tekjujöfnun til láglaunahópanna. Ég vil líka mótmæla því sem fram kom hjá hv. þm. þegar hann lét beinlínis að því liggja að ég hefði sett fram í ríkisstjórninni tillögur um lækkun á framlögum í Framkvæmdasjóð fatlaðra eða til þess málaflokks. Ég hef aldrei nokkurn tímann, hv. þm., lagt fram tillögur um lækkun í Framkvæmdasjóð fatlaðra. Ekki eina einustu tillögu í ríkisstjórn. Þær tillögur sem settar voru fram af félmrn. allar götur frá því ég settist í stól félmrh. voru í þá veru að Framkvæmdasjóður fatlaðra héldi þeim tekjustofnum sem hann á að hafa samkvæmt lögum. Allar tillögur um niðurskurð komu því frá fjmrn. og fjmrh. Ég skora á hv. þm. að færa sönnur á mál sitt, vegna þess að hann fer með rangt mál, og tilgreina það hvenær ég hef í ríkisstjórn lagt fram tillögur um niðurskurð á framlögum í þennan málaflokk fatlaðra.
    Hv. þm. nefndi það hér að öllum ætti að vera ljóst hverjar áherslur verkalýðshreyfingarinnar væru varðandi kjaramál og tekjujöfnunaraðgerðir. Hann nefndi hækkun á skattfrelsismörkum, húsaleigubætur, fjármagnstekjur o.s.frv. Ég er ekki viss um að algjör eining sé um það innan verkalýðshreyfingarinnar til hvaða aðgerða á að grípa í sambandi við

tekjujöfnunarþáttinn. Ég hygg að alls ekki sé eining um hvað eigi að hafa forgang; húsaleigubætur, sakttfrelsismörk, millifærsla á persónuafslætti svo eitthvað sé nefnt sem hefur verið til umræðu. Og ég hygg að alls ekki sé eining um hvort hækkun á skattleysismörkum eða húsaleigubætur skili sér best til láglaunafólks. Ef tekjujöfnunaraðgerðir koma til þá er nauðsynlegt að samráð sé haft við verkalýðshreyfinguna og að hún hafi skoðun á því og leggi mat á það hvaða aðgerðir skila sér best til láglaunafólks. Varðandi skatt á fjármagnstekjur sem hv. þm. nefndi þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin stefnir að því að taka upp skatt á fjármagnstekjur og ég á von á því að frv. um það efni verði lagt fram á þessu þingi.
    Varðandi aðgerðir sem hv. þm. nefndi, t.d. til að draga úr skattaívilnunum hjá fyrirtækjum, þá er ég honum sammála um að það verður að skoða það mál alveg sérstaklega. Ég hygg að ríkisstjórnin hafi fullan hug á að skoða ýmsar aðgerðir sem snúa að þeim þætti. Ég tel t.d. mjög brýnt að það sé skoðað að fyrirtæki geta nýtt sér í miklum mæli rekstrartap frá fyrri árum til skattafrádráttar. Uppsafnað rekstrartap frá fyrri árum er kannski 60--70 milljarðar. Það geta fyrirtæki nýtt sér t.d. til þess að minnka tekjuskatt hjá sér. Ég tel að það mál eigi að skoða sérstaklega. Ég hygg að ríkisstjórnin hafi hug á því að skoða ýmsa þætti sem snúa að skattaívilnunum fyrirtækja og taka á þeim málum. Ég tel ekki óeðlilegt að samráð sé haft við verkalýðshreyfinguna um þessa þætti sem ég nefndi og snúa að tekjujöfnunaraðgerðum. Ég vona að hv. þm. sé mér sammála um það.