Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 16:03:00 (1250)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Þessi umræða um ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1990 er nú orðin æði löng og á sjálfsagt eftir að lengjast töluvert enn. Hún hefur á marga lund verið fróðleg og athyglisverð vegna þess að margir hafa komið að umræðunni sem vel mega til þekkja og hafa löngum áður fjallað um efni af þessu tagi. Reyndar er það athyglisvert að í minn hlut kom að fjalla um ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir liðið ár. Auðvitað gefur það auga leið að ég hef hvergi komið að málum þar. Þetta er hins vegar formregla að forsrh. flytur skýrslu um mál þó að hann hafi hvergi nærri komið. Þetta er sem sagt ársskýrsla fyrir ár þar sem hin stjórnskipulega forusta í ríkisstjórn um byggðamál var í höndum fyrirrennara míns og mér er reyndar sagt --- ég hef ekki kannað það sérstaklega --- að þegar skýrslan var flutt árið áður þá hafi af einhverjum ástæðum ekki orðið nein umræða

um byggðamál eða svo gott sem engin. Og enginn áhugi á málinu. Nú hefur umræða um málið staðið í nokkra sólarhringa. Það er út af fyrir sig ágætt að áhugi á byggðamálum hafi vaknað hjá þessu ágæta þingi.
    Margir hv. þm. sem tóku þátt í umræðu um þessi mál vörðu töluverðu af sínum tíma til að fjalla um fáein ummæli mín um byggðamál, bæði hér innan þingsins og eins utan þess. Ég varð var við að margir þessara ágætu ræðumanna voru ekki sammála því sem þar hafði verið sagt af minni hálfu nema síður væri. Jafnvel tóku sumir svo til orða, og af allt of mikilli vinsemd auðvitað, að margt af því sem ég hefði sagt um byggðamálin benti til þess að þekking mín í þeim efnum væri afar takmörkuð og skilningur minn, ef ég réði rétt í það, álíka og þekkingin. Þar sem ég vissi að þetta var allt af góðvild mælt þá var ég með fyrir framan mig töluvert af óskrifuðum pappír, tilbúinn að skrifa hjá mér þegar menn létu af því að fjalla um þessi ummæli mín, skilningsleysi mitt og þekkingarskort. Þá mundu þeir lýsa í þessum löngu umræðum grundvallarhugsun um það með hvaða hætti ætti að móta byggðastefnu á Íslandi og hvernig ætti að fylgja slíkri stefnu eftir. Satt best að segja eru öll blöðin óskrifuð enn þá þó að ég fylgdist glöggt með. Menn voru fjarskalega reiðir yfir hinum og þessum ummælum en höfðu að öðru leyti lítið til málanna að leggja. Þrátt fyrir að um vitra menn og góðgjarna væri að ræða eins og ég hef tekið fram og menn sem örugglega hafa komið mjög lengi að þessum málum öllum.
    Það var látið að því liggja að þeir sem hlýddu á orð mín um byggðamál gætu lesið út úr hugmyndum mínum að stefnan væri sú af minni hálfu og ríkisstjórnar að þrengja mjög kost þeirra sem að slíkum málum ynnu og þá ekki síst stofnana sem að slíkum hlutum vinna. Ef menn í einlægni hafa áhyggjur af slíku, þá kemur mér á óvart að engin umræða eða sáralítil hafi orðið um skýrslu um Byggðastofnun fyrir ári síðan og árið þar á undan og árin þar á undan. Þegar menn horfa nú á þessa skýrslu, sem þeir hafa eða höfðu hér í höndunum, kannski hefur hún gleymst núna það er langur tími liðinn, og sjá þessi rauðu strik, þessi hallandi rauðu strik niður á við, hart og fast niður á við, sjá þeir vel hvernig þeir, sem voru velviljaðri í byggðamálum en ég og höfðu miklu meiri þekkingu á málum en ég og voru ekki með glannalegar yfirlýsingar eins og ég, fóru með Byggðastofnun í sinni tíð. Þetta sýnir nefnilega eigið fé Byggðasjóðs og Byggðastofnunar í upphafi síðasta áratugs og undir lok hans. Við upphaf voru það 4 milljarðar á sama verðlagi og í lokin 1 1 / 2 . Mér finnst furðulegt að þetta skuli ekki hafa verið rætt þegar skýrslan var til umræðu fyrir ári síðan því að öllum má vera ljóst að þrátt fyrir þekkingarleysi mitt og reynsluleysi ber ég ekki ábyrgð á þessu hruni Byggðasjóðs og fjármagns Byggðastofnunar, ekki stjórnskipulega séð a.m.k., það er þá minn ágæti fyrirrennari, sem nú gengur hér í salinn.
    Það var líka fundið að því sérstaklega og mjög margir ræðumenn höfðu orð á því að ég hefði sagt hvorki meira né minna en að byggðastefnan hefði brugðist og menn mótmæltu þessu hástöfum. Ég var þarna að sækja í fróðleikssjóð þess, sem vel mátti þekkja til, hæstv. fyrrv. forsrh., fyrirrennara míns, Steingríms Hermannssonar sem sagði þetta ekki einu sinni heldur oft. Hann sagði þetta m.a. á blaðamannafundi, ég hygg að það hafi verið 20. febr. sl. að þar hefði byggðastefnan brugðist. Og hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: ,,Því miður hefur byggðastefna sú sem stjórnvöld hafa rekið á liðnum áratug ekki skilað þeim árangri sem vonir voru bundnar við og það þrátt fyrir að miklir fjármunir hafi verið settir í hana.`` Þetta var skýring eftir að fram hafði komið að byggðastefnan hefði brugðist. Og það var sú stefna sem stjórnvöld höfðu rekið á þessum áratug, áratugnum 1980--1990. Hver skyldi nú hafa verið stjórnskipulegur yfirmaður og talsmaður stjórnvalda á þessum sama tíma? Það var örugglega ekki ég þrátt fyrir að umræðan mikla í þrjá sólarhringa hefði kannski getað bent til þess. ( Gripið fram í: Í þrjá sólarhringa? Tók ég rétt

eftir því?) Á þriðja sólarhring kannski, það er nú kannski ofmælt þó að hv. þm. sem fram í kallaði talaði held ég í tæpa tvo tíma eða hvað það var þegar hann flutti hina mögnuðu sakamálasögu um hina vestfirsku byggðaáætlun frá árinu 1965. En það er nú það sem gerðist. Það var hæstv. fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, sem var væntanlega 6--7 ár af þessum áratug eða eitthvað því um líkt, einmitt yfirmaður Byggðastofnunar á þeim tíma, sem sú byggðastefna sem stjórnvöld hafa rekið, fór svona illa. Og það var ekki gripið í taumana fyrr en mönnum datt það í hug á blaðamannafundi í febrúar sl. Þannig að þeir hv. þm., sumir eru hér í salnum, sem fundu mest að því við mig að hafa notað orðalagið ,,að byggðastefnan hefði brugðist`` hefðu kannski átt að tala við einhvern annan þegar tími var til og jafnvel nú í þessum umræðum en mig um þau efni.
    Ég held reyndar að þrátt fyrir að menn hafi haft orð á því að ósæmilegt og ósanngjarnt væri að segja að byggðastefnan hefði brugðist og teldu sig vera að skamma mig --- en nú hefur komið á daginn að þeir voru að skamma allt annan aðila, fyrirrennara minn --- þá hafi komið fram í ræðum þeirra flestra að mjög margt hafi mistekist í framkvæmd byggðastefnunnar á undanförnum árum. En því fer fjarri að það þýði að allt hafi mistekist í þeim efnum. Og það þýðir ekki heldur, og fjarri því, að menn hafi ekki viljað gera vel og hafi ekki verið að vinna að þessum málum flestir hverjir af miklum heilindum og þeirri trú að verk þeirra mundu meiri árangri skila heldur en nú er viðurkennt að stefnan hafi skilað. Þetta var eitt af því sem sérstaklega var fundið að mínum ummælum fyrir utan það, sem áður hefur verið rætt og ég ætla ekki að gera að umtalsefni, ummæli sem ég viðhafði á flokksráðsfundi Sjálfstfl. og hafa öll auðvitað verið úr lagi færð. En nú hafa þau reyndar verið leiðrétt þannig að ég býst ekki við að þau verði afbökuð um langa hríð enn.
    Það var eitt atriði sérstaklega sem menn fjölluðu um. Það voru hugmyndir mínar, sem hafa verið í vinnslu og drög að reglugerð fyrir Byggðastofnun. Þessi drög hafa verið í athugun, bæði í ráðuneytinu og hafa verið send til umsagnar í Byggðastofnun. Reyndar er rétt að taka það fram að það hafði verið gert áður en umræðan um Byggðastofnun hófst. Og auðvitað munu menn kynna sér vel og ítarlega þær hugmyndir sem frá Byggðastofnun og forustumönnum hennar koma áður en reglugerð verður sett, það gefur auga leið. En margir þeir, sem fjölluðu um hugmyndir sem þeir höfðu heyrt um að væri að finna í þessari reglugerð, höfðu miklar áhyggjur af því að með henni ætluðu menn sér nánast að drepa Byggðastofnun í dróma og gera henni ófært að sinna þeim málefnum og verkefnum sem henni bæri. Sumir gengu mjög langt í því að segja að mikið væri um það í þessari reglugerð með hvaða hætti ætti að standa að byggðaáætlun. Menn veltu sér upp úr þessu og töldu að nú væri ég og aðrir sem hefðu slíkar hugmyndir að falla í sömu gyfju og fyrrverandi ráðamenn í löndum austan tjalds sem höfðu oftrú á byggðaáætlunum hvers konar.
    En hvað skyldi vera um þetta að segja í sjálfu sér? Í rauninni ekki annað en það, sem flestir menn virðast hafa gleymt, að lögum um Byggðastofnun var breytt á sl. vori og þær breytingar flestar hverjar snerust um að auka vægi byggðaáætlana. Það voru meginbreytingar frv. Það hlýtur a.m.k. hv. 1. þm. Austurl. að muna því að hann mælti fyrir þessum breytingum í þinginu. Það kemur glöggt fram í ágætri framsöguræðu hans að þetta er einn meginþátturinn í þeim breytingum sem þá er verið að gera á lögum um Byggðastofnun. Forsrn. er síðan ekki að gera annað í þeim drögum að reglugerð, sem unnin hafa verið og ekki auðvitað sett enn þá, en að fylla út í þann ramma og gegna þeirri lagaskyldu sinni að setja slíka reglugerð. Reglugerðarsmíðin tók auðvitað ekki síst mið af þeim vilja Alþingis sem kom fram í lagabreytingatillögum sem var mælt fyrir fyrir ekki löngum tíma síðan. En það var eins og margir þeirra þingmanna, sem hér töluðu, hefðu ekki gert sér grein fyrir því að lögunum var breytt í þessa veru og ekki gert sér grein fyrir hvað fólst

í þeim lagabreytingum því að ef reglugerðardrögin þrengdu svo mjög hag Byggðastofnunar gerðu lögin það líka.
    Menn hafa reynt að halda því fram að það væri vilji núv. ríkisstjórnar og þá kannski sérstaklega minn að draga úr þeim fjármunum sem til byggðamála gengju. Það hafa hvergi komið fram nein ummæli af minni hálfu í þá veru. Hins vegar hef ég sagt að áríðandi væri, og ég tel reyndar að lagabreytingarnar frá því í vor um Byggðastofnun miði í þá átt, að samræma betur en gert hefur verið þau framlög sem til byggðamálanna gengju, ekki bara frá Byggðastofnun heldur frá mörgum öðrum þáttum, sem meira og minna snerta byggðamál og hafa áhrif á byggðarþróun og hversu gott er að stuðla að því að byggðirnar standist og fari ekki jafnilla út úr því og þær fóru á þessum áratug sem sérstaklega var vitnað til á blaðamannafundinum forðum daga.
    Það voru fleiri sem vitnuðu til þess hvernig þetta hefði allt saman farið, til að mynda hv. 1. þm. Austurl. þegar hann mælti fyrir máli í þinginu, þá rakti hann það svo, með leyfi forseta: ,,Árið 1990 var mismunur brottfluttra og aðfluttra af landsbyggðinni 1070. Það er ástæða til að vekja athygli á því að á árunum 1984--1986 og árið 1989 fækkaði íbúum landsbyggðarinnar en slíkt hefur ekki gerst síðan á árunum 1945--1946.`` Þarna var þáv. hæstv. sjútvrh. að vekja athygli á því með hvaða hætti þessi mál hefðu þróast. Þetta var í mars, tíu dögum eða svo eftir blaðamannafundinn góða þar sem því var lýst yfir að byggðastefnan hefði brugðist og því þyrfti að gera þar á breytingar.
    Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan vegna þess að margoft var fjallað um drög að reglugerð, þá reglugerð sem verið hefur í smíðum að auðvitað verður haft, og aldrei annað staðið til, náið samráð við forráðamenn Byggðastofnunar um þau atriði sem menn vilja marka ramma þar. Það hefur aldrei annað staðið til. Það hefur ekkert verið rekið á eftir forráðamönnum Byggðastofnunar um að skila athugasemdum og hugmyndum sínum. Þegar reglugerðardrögin eru send þangað, þá er það auðvitað gert af fullri einurð og alvöru um það að hlusta á þá sem þar hafa farið með mál og hafa margþætta og ágæta reynslu í þeim efnum.
    Ég ætla ekki að fjalla um mörg einstök atriði sem mér fannst miður í máli sumra ræðumanna. Mér fannst allmargir þeirra tala með allt að því fullum fjandskap í garð höfuðborgarinnar. Kannski hafa þeir fallið í þá freistingu vegna þess starfs sem ég áður gegndi og talið heppilegt að reyna að koma höggi á mig sérstaklega í því sambandi. Mér finnst það hins vegar ekki viðeigandi að menn tali þannig í garð þess fólks sem hér býr sem er ekki síður góðir og gegnir Íslendingar en þeir sem búa annars staðar á landinu. Ég held að það sé ekki í þágu umræðu um byggðamál að reyna að kasta rýrð á þá sem hér búa eða ala á sundurþykkju eða óánægju milli manna eftir því hvar þeir búa á landinu. Ég hef sannfæringu fyrir því að langflestir hv. þm. eru þess fýsandi með sama hætti og ég að lífvænlega byggð sé hvarvetna að finna á landinu. Í því felst ekki í mínum huga, og ég trúi vart í huga nokkurs þingmanns, að það eigi að þýða að það byggðamunstur sem nú er ríkjandi, eigi með valdboði, miðstýringu eða öðrum aðgerðum að tryggja að breytist ekki. Ég held að sú hugmynd sé afskaplega röng og í raun ekki í þágu byggðanna ef menn hugsa með þeim hætti. Á hinn bóginn getur það þýtt að vilji menn koma í veg fyrir að stundaráföll, tímabundin áföll í hinum ýmsum byggðum, geti það leitt til að þar verði varanleg áföll. Ég er sannfærður um að hugur flestra þingmanna, ekki síður þéttbýlisþingmanna en annarra stendur til að skapa þau skilyrði að hvarvetna megi finna á landinu lífvænlega byggð sem býr við þau kjör sem best bjóðast á landinu hverju sinni eins og frekast er kostur. Menn eigi ekki að reyna með handafli eða öðrum aðferðum að sjá til að tiltekið byggðamunstur breytist ekki um aldur og ævi. Ég held að það sé ekki á færi okkar, hversu miklum fjármunum sem við vildum verja til þess og ég er ekki heldur viss um að það

verði í þágu eins eða neins.