Seðlabanki Íslands

34. fundur
Þriðjudaginn 26. nóvember 1991, kl. 23:47:00 (1275)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni allstórt mál sem teygir anga sína víða í íslenskum efnahags- og atvinnumálum eins og fram hefur komið. Það kemur vel fram í greinargerðum Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar þar sem er allt undir í senn, launamál, atvinnustig, verðbólga, viðskipti við útlönd, ríkissjóður, skattastefna, félagsleg þjónusta og svo að sjálfsögðu stefna í utanríkisviðskiptum yfirleitt, eins og hv. 18. þm. Reykv. benti á áðan.
    Auðvitað má segja að hér sé sérstaklega til meðferðar lagaákvæði um Seðlabankann sjálfan í heild. Hér er verið að opna seðlabankalögin. Í fyrsta sinn er flutt róttæk breyting við seðlabankalögin síðan lögin voru sett í því formi sem þau eru núna. Þegar lögin voru sett á sínum tíma fluttu ég og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, einar 25 eða 26 brtt. við þau sem allar voru felldar af þáv. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Hérna skapast tækifæri til býsna mikillar alhliða umræðu um Seðlabankann, seðlabankalögin og áhrif þeirra. Ég vil víkja að því, virðulegi forseti, að ég tel að þetta frv. eins og það lítur út sé í rauninni ákaflega sérkennilegt frá þinglegu sjónarmiði séð. Ég vil leyfa mér að gagnrýna frv. eins og það er hér flutt. Það stendur hér, með leyfi forseta: ,,Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR, eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka.`` Hér er afar sérkennilega að orði komist og ég efa það að texti af þessu tagi sé þinglegur vegna þess að það er með öllu óljóst hvað í honum felst. Það mætti út af fyrir sig segja hér: Seðlabankanum er heimilt að ákveða gengi krónunnar miðað við hvað sem er, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti á. Því í rauninni er engin viðmiðun í þessum texta og engar forsendur. Þær eru að vísu til annars staðar í seðlabankalögunum, ef ég kann þau rétt, að því er varðar viðskiptajöfnuð og fleiri slíka þætti. En ég tel að orðalagið á greininni sé óeðlilegt vegna þess hvað það er opið og ég tel að það sé fyrst og fremst gagnrýnivert fyrir það líka að þetta er pólitískt orðalag, það er ófaglegt.
    Ríkisstjórnin og hæstv. viðskrh. ákváðu í vor að skoða þetta mál sérstaklega með stórum hátimbruðum yfirlýsingum um að það ætti að tengja íslensku krónuna við ECU. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun börðu í raun og veru á puttana á hæstv. viðskrh. og töldu að þetta væri vitleysa, væri óframkvæmanlegt eins og staðan er og sendu frá sér þessar myndarlegu greinargerðir sem hv. þm. hafa hér á borðum sínum. Þess vegna er staðreyndin auðvitað sú að hún er algerlega út í hött þessi innskotssetning --- eins og ECU eða SDR --- hún er fullkomlega ófagleg. Burt séð frá efni málsins í sjálfu sér að öðru leyti er þetta hortittur og með öllu óeðlilegt að setja þetta upp með þeim hætti sem hér er gert. Um efni málsins að öðru leyti má svo sem margt segja, virðulegi forseti. En ég vil sérstaklega leggja á það áherslu á þessu stigi málsins að ég tel að hér sé algerlega og óeðlilega að hlutunum staðið eins og þetta er hér sett fram. Þetta er eins og stjórnmálaályktun frá landsfundi Alþfl. og það hafi verið ákveðið rétt sí svona að gera þetta frekar en ekki neitt. Því það hefur eins og kunnugt er gengið heldur brösuglega hjá hæstv. viðskrh. að koma málum hér fram hvort sem hann hefur verið í því hlutverki eða því hlutverki að vera iðnrh.
    Umræðan um tenginguna við ECU fer fram við mjög sérkennilegar aðstæður. Vandi sjávarútvegsins er gífurlega mikill eins og ég mun koma að síðar í ræðu minni. Og hæstv. sjútvrh. mun hafa flutt í ríkisstjórninni í morgun tillögu um aðgerðir í sjávarútveginum sem væri nauðsynlegt að grípa til tafarlaust að því er fréttamenn töldu. Aftur á móti sagði hæstv. forsrh. að það væri tóm vitleysa hjá hæstv. sjútvrh. og það væri alveg ástæðulaust að gera neitt í málefnum sjávarútvegsins strax. Eins og við er að búast hafði sjútvrh. ekki aðstöðu til þess að kveðja sér hljóðs utan dagskrár til að biðja um utandagskrárumræðu á morgun eins og hv. þm. Ingi Björn Albertsson til að svara forsrh. sínum. En auðvitað gæti það gerst eins og fleira sérkennilegt í ríkisstjórninni að næsta nýjung í samskiptum stuðningsmanna stjórnarinnar væri sú að hæstv. sjútvrh. bæði um umræður utan dagskrár til að ræða við hæstv. forsrh. um stöðuna í sjávarútveginum og setja hann inn í þau mál.
    En staðreyndin er sú að sú yfirlýsing sem hæstv. forsrh. flutti í kvöld í fjölmiðlum um það að ekkert þyrfti að gera í sjávarútveginum er með ólíkindum, þó að maður sé nú að verða ýmsu vanur frá þessum manni sem hefur hagað yfirlýsingum sínum þannig allt frá því að hann varð forsrh. að þingdagarnir hafa ekki dugað til til að ræða það sem hann lætur út úr sér. Og ég verð að segja að það er mjög skrýtið, virðulegi forseti, að hafa umræður um veigamikil efnahagsmál heilu kvöldin án þess að hæstv. forsrh. sé á staðnum og það er rétt hjá hv. 1. þm. Austurl. að það gengur náttúrlega ekki.
    Ég bendi t.d. á að þegar hv. 1. þm. Austurl. var sjútvrh. var undirritaður oft býsna drjúgur við að kalla hann hingað við ólíklegustu tækifæri. Ég man eftir því að hv. 1. þm. Austurl. var ekki alltaf ýkja hamingjusamur með það. Hann kom nú samt. Ég vildi inna forseta eftir því hvaða opinberu erindi það eru sem hæstv. forsrh. er að sinna í kvöld sem hamla því að hann geti sinnt þingskyldum sínum. Hvað er það sem er svo mikilvægt að hæstv. forsrh. getur ekki tekið þátt í veigamiklum umræðum um efnahagsmál eins og þessi á sama degi og hann gefur út yfirlýsingar um það að ekkert þurfi að gera í sjávarútveginum, ekki neitt, og alls ekki að vera að tímasetja það neitt. Ég held að það væri æskilegt að hv. alþm. fengju að ræða eitthvað við ráðherrann um þá hluti sem hann hefur sett fram í fjölmiðlum í dag fyrir náttúrlega utan þessi ósköp með árásirnar á hv. þm. Inga

Björn Albertsson. Það var auðvitað alveg með ólíkindum hér í fjölmiðlum í kvöld. En því miður heldur hann sig í burtu og heldur sig auðvitað alltaf í burtu þegar hann getur mögulega losað sig við umræður hér í þessari virðulegu stofnun. Það er auðvitað nauðsynlegt að ræða um heildarefnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar vegna þess hver húsbóndi ríkisstjórnarinnar er í efnahagsmálum. Það er hæstv. forsrh. Og hvað er það sem hann hefur lagt til í efnahagsmálum í seinni tíð? Hann hefur í fyrsta lagi lagt til að ekkert verði gert í sjávarútvegsmálum. Hann hefur í öðru lagi lagt til að fólk verði flutt utan af landi hingað til Reykjavíkur, væntanlega í tómu Ármannsfellsblokkirnar sem íhaldið hefur látið hafa lóðir hér ómældar á undanförnum árum. Það gæti orðið huggulegt fyrir þá á Suðureyri að búa saman í tveimur Ármannsfellsblokkum. Þetta var reynt á Grænlandi þar sem heilu byggðarlögin voru flutt í blokkir niður í Nuuk og menn gátu talað mállýskuna sína á einum stigagangi af því að það var passað að þeir sem höfðu búið saman í einu plássi fengju að vera þar o.s.frv. Þetta er það eina sem hæstv. forsrh. Íslands hefur lagt til. Það er að flytja fólk nauðungarflutninga í Ármannsfellsblokkirnar í Reykjavík. Svo hefur hann lýst því yfir í kvöld að það eigi ekkert að gera í sjávarútvegsmálum. Ég vil gjarnan inna hæstv. forseta eftir því hvaða opinberum erindum hæstv. forsrh. er að sinna í kvöld sem koma í veg fyrir að hann geti gegnt embættisskyldum sínum á Alþingi. Ég tel að það sé auðvitað yfirgengileg óvirðing við þessa virðulegu stofnun að hæstv. forsrh. skuli ekki koma hingað í kvöld þegar verið er að ræða þetta mál eftir yfirlýsingu hans í kvöldfréttunum um það að ekkert eigi að gera í sjávarútvegsmálum. Ég vænti þess að hæstv. forseti geti gefið mér hér á forsetastóli skýringu á málinu. Ég er reiðubúinn að gera hlé á ræðu minni meðan sú yfirlýsing er gefin. Ég vona að hún sé ekki það flókin að það taki langan tíma. ( Forseti: Forseti getur ekki upplýst hv. þm. um það hvaða skyldum hæstv. forsrh. er að gegna í kvöld. Forseti hefur upplýst það fyrr í kvöld að forsrh. gat því miður ekki verið hér vegna starfa á öðrum vettvangi og hann lét forseta vita af því og forseti skýrði frá því strax í upphafi þegar hún var innt eftir því hvort forsrh. yrði viðstaddur. Hins vegar hafa verið mál á dagskrá sem heyra undir aðra ráðherra og þeir hafa verið til staðar til þess að hlýða á umræður og taka þátt í þeim þannig að það hefur væntanlega ekki komið að sök. Forseti vill minna á það að forsrh. hafði setið í 4 1 / 2 klukkutíma stanslaust meðan byggðaumræðan fór fram. Hann fór héðan úr húsinu þegar klukkan var nærri hálfníu í kvöld. Þetta eru þær upplýsingar sem forseti getur gefið á þessari stundu.)
    Ég vil flytja hæstv. forseta kærar þakkir fyrir þá ítarlegu ræðu sem hún flutti af forsetastóli um það vandamál sem forsrh. Íslands er um þessar mundir. ( Forseti: Forseti var ekki að flytja ræðu heldur aðeins að svara og reyna að svara sem best þeirri spurningu sem var lögð fyrir forseta.) Ég þakka forseta fyrir það glögga og ítarlega svar sem hún hefur gefið við spurningunni sem ég bar fram um fjarvistir forsrh. og er satt að segja engu nær. Hæstv. forsrh. sat nú ekki bara hér í 4 1 / 2 tíma í dag. Hann talaði reyndar rétt áður en hann fór, flutti hér ræðu sem er upp á 20--30 línur í þingtíðindum þar sem hann leyfði sér að ljúka umræðunni með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Varðandi hitt atriðið, þá gæti ég út af fyrir sig get ég rætt um fjölmarga þætti sem ég hef efasemdir um að Byggðastofnun hafi farið eftir þeim lögum sem um hana gilda. Ég er ekki þar með að segja að þar sé um refsiverða hluti að ræða`` --- ekki refsiverða endilega --- ,,en það hefur verið farið út fyrir þann lagaramma sem Byggðastofnun var settur.`` Sem sagt, lögin hafa verið brotin þó að það sé ekki refsivert. ,,Ég get til að mynda nefnt að ég tel afskaplega vafasamt, svo ekki sé nú meira sagt, að sá fjáraustur sem verið hefur til fyrirtækisins Miklalax fái staðist að lögum.`` Það er í meira lagi vafasamt svo að ekki sé meira sagt. Í meira lagi vafasamt að það fái staðist lög.
    Með öðrum orðum, þetta voru síðustu orð hæstv. forsrh. þegar hann gekk úr salnum í kvöld eftir að hafa setið hér í hvorki meira né minna en 4 1 / 2 klukkutíma. Þetta er nú glæsilegt, verð ég að segja, mikið afrek og ber að þakka það alveg sérstaklega, að hneigja sig í duftið.
    Síðustu orðin eru þau að hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hafi farið út fyrir lagaramma Byggðastofnunar þó það sé kannski ekki beint refsivert. Hæstv. forsrh. segir að hann sé kannski ekki beint tugthúsmatur fyrir það sem hann hefur gert og ég tala nú ekki um ósköpin þar sem eru hæstv. landbrh. og samgrh., sem er nú orðinn svo hljóður í seinni tíð að maður gleymir honum jafnvel. Þetta eru síðustu orðin sem forsrh. Íslands segir úr þessum stóli í kvöld. Og svo þegar þingmenn opna fyrir viðtækin sín heyra þeir í forsrh. sem segir: ,,Það þarf ekki að gera neitt í sjávarútvegsmálum.`` Og svo þarf að taka hann í gegn, þennan Inga Björn Albertsson. Og rétt áður er hann búinn að segja: ,,Hv. 1. þm. Vestf. og hæstv. samgrh. og landbrh. eru lögbrjótar.`` Og svo koma menn ekki til að svara fyrir sig. ( Gripið fram í: Hæstv menntmrh. er hérna.) Var hann að gera eitthvað af sér líka? Hann var í stjórninni líka. Þetta er nú bara ofboðslegt, svo að ég vitni nú í hv. 2. þm. Vestf., þetta er bara ofboðslegt. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að maður fái að spjalla aðeins við þennan hæstv. forsrh. sem kastar svona einni jarðsprengju á klukkutíma inn í opinbera þjóðmálaumræðu í landinu.
    Og hvað er þetta litla vandamál sem hæstv. forsrh. telur að þurfi ekkert að gera í? Hvernig ætli þau horfi nú, þessi smáatriði í sjávarútveginum? Hvernig lítur það út? Hvernig er það? Hallinn á frystingunni er -4,3 í september. Hallinn á söltuninni er -14,6. Hallinn á botnfiskvinnslunni í heild er -7,5. Hann hefur kannski ekki lesið þessar töflur. Þær eru samt frá Þjóðhagsstofnun sem heyrir undir hann. Síðan er þetta borið saman við afkomu vinnslunnar hér á sl. ári. Svo er farið yfir afkomu veiðanna þar sem það kemur fram að þar hafi einnig átt sér stað mjög verulegar sviptingar. Ég verð að segja það alveg eins og er að þó að menn kunni kannski að láta útfæra byggingar sem eru fagrar og flóknar og setja þær á dýrustu lóðir í heimi, aðra upp á hitaveitutanka og hina út í Tjörnina, og þó að menn fái mikið af atkvæðum fyrir það í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík, þá er alveg bersýnilegt að þessir menn botna ekkert í því af hverju þessi þjóð lifir. Hún lifir á fiski. Þannig liggur það. Og það er greinilegt að við erum með forsrh. í landinu sem botnar ekkert í því undirstöðuatriði og segir að þetta megi bara allt saman rúlla og fara á hausinn og grisjast. ( ÓÞÞ: Það eru bara hornsíli í Tjörninni.) Ja, það fer nú sennilega að verða lítið um hornsíli þar eftir að ráðhúsinu var troðið þar ofan í. Ætli þessi eini fiskstofn Tjarnarinnar fari ekki að verða heldur tæpur líka? Þetta eru trakteringarnar sem þingmenn fá frá hæstv. forsrh. Og gamanlaust, virðulegi forseti, er ekki ástæða til þess að forseti kalli forsrh. fyrir sig og ræði aðeins við hann um samskiptin við þingið vegna þess að þingmenn hafa auðvitað kvatt sér hljóðs hér utan og innan dagskrár af minna tilefni en þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. hefur dúndrað yfir þjóðina í dag. Hér er auðvitað um slík tíðindi að ræða að það er útilokað annað en um það sé fjallað og þau mál rækilega rædd hér og engin ástæða til að draga það neitt við sig.
    Það frv. sem hér liggur fyrir byggist fyrst og fremst á þeirri forsendu að sú stefna sem fylgt hefur verið í efnahags- og atvinnumálum á Íslandi undanfarin 20 ár hamli gegn hagvexti. Og hv. þm. Björn Bjarnason, sem er nú illa fjarri góðu gamni, hélt því fram fyrir nokkru að hér hefði verið fylgt efnahagsstefnu sem hefði haft í för með sér stöðuga afturför um 20 ára skeið. Hvernig horfir það við, virðulegi forseti?
    Ef við skoðum hagvöxt í aðildarríkjum OECD 1970--1988 kemur í ljós að hagvöxtur er óvíða meiri en á Íslandi. Hann er t.d. á árinu 1971 13,1%, 1972 sá næsthæsti í OECD-ríkjunum og þegar þetta 20 ára tímabil er skoðað, kemur það í ljós að hagvöxtur á Íslandi er meiri en í OECD-ríkjunum og meiri en í Evrópubandalagsríkjunum á þessum

tíma þannig að það er alveg ljóst að í rauninni hafa orðið til hér mjög veruleg verðmæti í hagkerfinu. Menn skulu ekki neita sér um að horfast í augu við þá staðreynd að þrátt fyrir allt hefur verið hérna feykilega mikil verðmætasköpun á síðustu 20 árum og á hún auðvitað fyrst og fremst rætur sínar að rekja í tvennu: Annars vegar stóraukinni vinnu kvenna og hins vegar verulega aukinni sókn í þá fiskstofna sem við höfum innan okkar landhelgi.
    Þetta er ég nú að minna á, virðulegi forseti, fyrst og fremst vegna barlóms um síðustu 20 ár og að hér hafi verið allt í steik. Þetta er vitleysa. Það stenst ekki. Staðreyndin er hin og ef við berum saman árin 1970--1990, viðreisnarárin margrómuðu, þá kemur í ljós að útkoman er prýðileg á síðari hluta tímabilsins þ.e. á árunum 1970--1990. En þrátt fyrir þetta tyggja menn það upp í greinargerð Þjóðhagsstofnunar og gagnrýnin á efnahagskerfið byggist m.a. á því að hún hamli hagvexti og örvi því ekki í reynd atvinnu þegar til lengri tíma er litið. Ég held að það séu í raun og veru engin rök fyrir þessum fullyrðingum. Það eru aðrir þættir sem hamla hagvexti hér heldur en hinir almennu þættir sem hafa ráðið úrslitum um þróun efnahagslífs á Íslandi á undanförnum 20 árum. Það sem ég tel að hafi fyrst og fremst hamlað hagvexti síðustu árin er vaxtaokrið. Vextirnir og vaxtakostnaðurinn hafa tekið til sín svo ofboðslega fjármuni frá fyrirtækjum og einstaklingum að það hefur dregið úr hagvaxtargetu og þenslumöguleikum og almennum vaxtarmöguleikum þjóðabúsins. En þetta má auðvitað aldrei segja vegna þess að það væri brot á ,,etikettinu``, brot á því að allt sé af hinu góða sem heitir frelsi og aftur frelsi jafnvel þó að það sé frelsi fjármunanna til að brjóta niður fjárhag heimila og einstaklinga og fyrirtækja í landinu með hrikalegum afleiðingum, hryllilegum félagslegum afleiðingum sem þúsundir manna hafa orðið að horfast í augu við.
    Hverjar eru forsendur þess að hér væri tekið upp eitthvað sem heitir stöðug efnahagsstjórn? Auðvitað er það skynsamlegt að reyna að stuðla að slíku eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Forsendurnar eru samstarf í þjóðfélaginu, launafólks og atvinnurekenda og ríkisstjórnar, en ekki stríð. Samvinna þéttbýlis og dreifbýlis, en ekki stríð. Núv. ríkisstjórn hefur stuðlað að alhliða átökum í þjóðfélaginu sem hljóta að enda með því að það hafi neikvæð efnahagsleg áhrif og hættuleg efnahagsleg áhrif. Það er alveg útilokað að ná árangri í efnahagsmálum öðruvísi en um sé að ræða samvinnu allra þessara aðila, bæði launamanna, framleiðenda, atvinnurekenda og ríkisstjórnar í landinu. Hins vegar erum við núna með slíka stöðu að það er fylgt stefnu sem heitir ,,kemur-mér-ekki-við`` af hálfu ríkisstjórnarinnar og forsrh., sem hefur kosið sér stór hlutverk um dagana, er allt í einu orðinn aukaleikari, stærsti atvinnurekandi landsins. Ríkisstjórn sem ræður ekki við að skilja þetta grundvallaratriði í efnahagsstjórn, sem er samvinna allra þessara aðila, mun ekki leysa þann vanda sem felst í kröfunni um stöðugt efnahagskerfi í landinu. Það er útilokað. Auk þess verður auðvitað að breyta stjórntækjum efnahagsmála í sumum meginatriðum og þá auðvitað alveg sérstaklega Seðlabankanum. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað er að frétta af frv. eða tillögum um breytingar á lögum um Seðlabanka? Hvernig hugsar viðskrh. sér að taka á því máli? Á að halda áfram pólitískum ráðningum bankastjóra í Seðlabanka eins og núv. hæstv. viðskrh. beitti sér fyrir í síðustu ríkisstjórn undir mótmælum okkar alþýðubandalagsmanna? Hvernig hugsar hæstv. viðskrh. sér að taka á málefnum Seðlabankans? Seðlabankinn er í raun og veru óbrúklegur sem stjórntæki eins og er. Hann er að mörgu leyti eins og slytti. Hann er faglega vanhæfur á mörgum sviðum þó að þar séu tugir úrvals starfsmanna sem gera margt annað þarflegt en að naga blýanta.
    Hvernig hugsar hæstv. viðskrh. sér að taka á þessu máli sem lýtur að Seðlabankanum, miðbankanum sem á auðvitað að vera úrslitaþáttur í yfirstjórn peningamála í landinu? Ef menn ætla að bíða eftir því að sett verði ný seðlabankalög með þessari ECU-tengingu, sem er nú kannski skynsamlegt að gera, þá eru menn ekki að tala um að það gerist neitt á næstunni þannig að það er alveg ástæðulaust, virðulegi forseti, að vera að halda kvöldfund út af þessu frv. Það er náttúrlega bara hver önnur fjarstæða. Þetta gerist ekkert í bráð, kannski fyrir aldamót, ég veit það þó ekki. Það liggur ekkert á þessu. En það er auðvitað þessi sami strekkingur og venjulega hjá hæstv. viðskrh. Hann er búinn að bíta sig fastan í þetta og hangir á þessu eins og steinbítur á borðstokk og það má ekki horfast í augu við staðreyndirnar sem eru þær að þetta er tóm vitleysa. Það liggur ekkert á þessu vegna þess að það eru engar forsendur til þess að gera þetta.
    Eitt af því sem talin er nauðsynleg forsenda í skýrslu Þjóðhagsstofnunar er það að breyta þarf ákvörðunum um laun í landinu. Það er athyglisvert. Að baki ákvörðuninni um almenn laun og kjör verður að liggja raunsætt mat á efnahagslegum forsendum, að sjálfsögðu. En hvað er verið að segja með þessu, virðulegi forseti? Það er verið að segja að það á að koma einu haftinu enn, einni snörunni enn á launafólkið í landinu. Svigrúm verkalýðshreyfingarinnar til þess að rétta sinn hlut á hverjum tíma verður þrengra en verið hefur. Það er verið að búa til enn eitt stjórntækið til að hafa hemil á launafólki. Það er nokkuð athyglisvert að á meðan var verið að ræða þetta fyrr í kvöld sat í forsetastólnum einn af leiðtogum verkalýðshreyfingarinnar, hv. þm. Karl Steinar Guðnason. Fróðlegt væri að vita hvernig þeir menn sem þar eru í forustu sjá það fyrir sér. Ég er ekki viss um að menn kannski átti sig á því í einstökum atriðum hvaða afleiðingar þetta getur haft. En það getur haft þær afleiðingar að það sé verið að þrengja enn frekar að fólki, eða a.m.k. segir Þjóðhagsstofnun það. Síðan er gert ráð fyrir því sem meginrökum að trúverðug fastgengisstefna gerbreyti starfsskilyrðum sjávarútvegs. En til þess að það sé hægt að koma því á að fastgengisstefna teljist raunhæf er hins vegar óhjákvæmilegt að skapa þau skilyrði að sjávarútvegsfyrirtækin verði almennt rekin með verulegum hagnaði í góðæri og geti þolað tap í hallæri. Hvernig ætli þessir hlutir standi með okkar sjávarútveg? Er hann tilbúinn til að taka á sig fastgengi á þeim rökum? Auðvitað ekki. Það liggur fyrir enda þótt hæstv. forsrh. virðist ekki botna í því. Það sem er að gerast í þessu efni, virðulegi forseti, er það að með frv. er verið að stíga skref í þá átt að flytja þau stjórntæki sem áður voru í höndum Alþingis og ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins út og út á markaðinn einan.
    Við skulum gera okkur grein fyrir því að áður en seðlabankalögin voru sett fyrst 1961, ef ég man rétt, var það Alþingi sem réði gengisskráningunni. Alþingi réði gengisskráningunni. Talið var að með því að flytja gengisskráninguna yfir til Seðlabankans væri Alþingi að afsala sér mjög miklu valdi. Nú er ekki verið að flytja gengisskráninguna og festa hana hjá ríkisstjórninni heldur er verið að segja: Gengisskráning frá ríkisstjórninni og ekki yfir til Seðlabankans heldur til markaðarins eins. Út af fyrir sig er ég ekki að tala fyrir því, virðulegi forseti, að gengisskráning og efnahagsstjórn á Íslandi verði eyland í öllum atriðum, það er útilokað mál. Það er algerlega útilokað mál og algjör fjarstæða að leggja þá meiningu í mín orð. En hins vegar er ljóst að þetta er skref í þá átt að þrengja að helstu stjórntækjum þeim sem við höfum haft í efnahagsmálum á Íslandi og spurningin er þá hvort menn eru tilbúnir til að sætta sig við það og taka afleiðingunum af því sem m.a. þýða atvinnuleysi. Atvinnuleysi, því að það hefur auðvitað verið þannig að menn hafa fært til gengið hér frekar en að láta skella yfir stórfellt atvinnuleysi á framleiðslusvæðum landsins. Menn hafa talið að versti kosturinn sem yfir þjóðina gæti komið væri stórfellt atvinnuleysi. En með því að binda sig fasta í einhverja alþjóðlega reglustiku í þessum efnum er meiri hætta á atvinnuleysi en ella og það er sá þáttur sem eru veigamestu rökin fyrir ECU-tengingunni í öllum þessum pappírum. Að þá geti menn orðið neyddir til að sætta sig við lakara atvinnustig en við höfum haft til þessa. Ég er ekki alveg viss um að menn hafi gert sér grein fyrir því hvernig þessir hlutir t.d. snúa við landsbyggð. En ég er nokkuð sannfærður um það að þetta, eins og aðrir þættir almennra markaðstenginga, er landsbyggðinni skeinuhættara og erfiðara en t.d. þéttbýlinu. Ég held þess vegna, virðulegi forseti, að það sé nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því í fyrsta lagi að það frv. sem hér liggur fyrir er að mörgu leyti óþinglegt. Í öðru lagi liggur ekkert á að taka þetta mál fyrir af því að það eru engar efnahagslegar forsendur á Íslandi í dag til að ákveða að hér verði tekin upp svokölluð ECU-tenging á okkar gjaldmiðli. Þess vegna er langeðlilegast, virðulegur forseti, að vísa þessu frv. eins og það er núna frá því að það er ekki nokkur ástæða til að eyða tíma í þetta.
    Ég er ekki að segja að það þurfi að ráða neinum úrslitum til eða frá þótt þetta mál fari til nefndar og fái þar eðlilega meðferð. En það er auðvitað algjörlega út í hött að fara að afgreiða þetta og enn þá vitlausara er það nú, virðulegi forseti, þegar mörg mikilvæg mál liggja fyrir þinginu, að láta ræða þetta núna þegar komið er fram á nótt. Ef hérna væri um að ræða einhverjar ráðstafanir t.d. til að bjarga sjávarútveginum, taka á hans vandamálum. Ef hér væri um að ræða einhverjar ráðstafanir sem snertu fólkið í byggðarlögunum allt í kringum landið, Bolungavík og víðar, þar sem menn standa frammi fyrir gífurlegum vanda. Ef hér væri verið að setja lög sem mundu ráða úrslitum um það hvernig afkoma fólksins yrði í þessum plássum eftir nokkra daga. Það er nú eitthvað annað, það er ekkert svoleiðis hér uppi, virðulegi forseti. Hér er um að ræða almennt metnaðarmál hæstv. viðskrh., sem á þessu stigi málsins hefur ekki neitt með veruleikann að gera. Og þess vegna langeðlilegast að gleyma þessu bara í bili. Auðvitað má segja að það sé kannski skiljanlegt að hæstv. viðskrh. langi til að fá málið af því að allt gengur heldur brösuglega hjá honum að öðru leyti. Þannig sé kannski betra að fá þetta ECU en ekki neitt, á bak við þetta liggja kannski einhverjar sálrænar ástæður. En það á ekki að duga fyrir Alþingi Íslendinga. Þess vegna er það þannig, virðulegi forseti, að auðvitað eiga menn að taka um það ákvörðun að fresta þessu máli nú eða þá að taka sér drjúgan tíma í að ræða það. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. í sambandi við efnahagsmálin almennt í tengslum við þetta frv. ef það er svona mikilvægt allt í einu. Hvernig snertir þetta frv. afkomu framleiðslunnar í landinu? Hvaða vonir eru það sem t.d Bolvíkingar geta bundið alveg sérstaklega við þetta frv.? Eða aðrir framleiðslustaðir á Íslandi? Hvaða lausn felst í þessum pappír?
    Ég minni á það hér, virðulegi forseti, að í síðustu viku spurði ég hæstv. forsrh.: Hvenær er að vænta efnahagsráðstafana frá ríkisstjórninni vegna aflasamdráttar og af öðrum ástæðum? Hverju svaraði hæstv. forsrh. þá? Hann svaraði að það kæmi núna í þessari viku. Það er nokkuð skrýtið þegar maður er búinn að heyra það í fjölmiðlunum að það gerist ekki neitt fyrr en eftir margar vikur. Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar hjá hæstv. viðskrh. í hvaða samhengi menn sjá þetta. Og af hverjum í ósköpunum er verið að hafa kvöldfund um þetta? Ég tel að það sé sjálfsagt mál að hafa kvöldfund um mál sem eru brýn og þarf endilega að afgreiða. ( ÖS: Næturfund.) Já, þegar mikilvæg mál eru á ferðinni, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. T.d. ef formaður Alþfl. flytti hérna efnahagstillögu sína í frumvarpsformi. ( Gripið fram í: Hvað segðu jafnaðarmenn þá?) Þá segðu jafnaðarmenn allra landa ýmislegt. Ég held að það væri fróðlegt ef hv. þm., formaður þingflokks Alþfl., þyrði nú hérna einu sinni upp í stólinn og léti sér ekki nægja að gjamma út um allan sal og kæmi með efnahagstillögurnar sínar. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. formann þingflokks Alþfl.: Hvenær verða efnahagstillögurnar fluttar í þinginu? Og mundi hann ekki viljað gera grein fyrir þeim í almennri umræðu um efnahagsmál? Það er ekki nóg að flytja efnahagstillögur í DV. DV hefur ekki opinbera stöðu. ( Viðskrh.: DV á 10 ára afmæli í dag.) DV á 10 ára afmæli í dag eins og hæstv. viðskrh. bendir á. En DV hefur ekki þannig opinbera stöðu að það jafngildi frumvarpsflutningi. Það er misskilningur hjá hinum unga þingmanni og nýja að halda að það jafngildi frumvarpsflutningi að leggja fram tillögur í

DV. Það er ekki þannig. Það þarf að koma með þær hér. Það heitir frv. til laga um ráðstafanir í efnahagsmálum eða eitthvað þvíumlíkt sem ég er fús til að leiðbeina hv. þm. með við tækifæri.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hins vegar sá snillingur að hann finnur það að allt er í steik að verða hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum og þess vegna hefur hann ákveðið að leggja mikla vinnu í það að koma saman tillögum í efnahagsmálum þar sem á að fara mjög vítt og breitt yfir málin, t.d. að taka á vanda skipasmíðaiðnaðarins, sem heyrir undir hæstv. iðnrh., og alls konar fleiri mál sem ráðherrar Alþfl. hafa ekki mikið verið að sinna.
    Ég verð að segja alveg eins og er að það má svo sem öfunda þá ráðherra Alþfl. að hafa annan eins snilling í formennsku í þingflokknum sem hefur ráð undir rifi hverju, að ekki sé nú fastar að orði kveðið, og það þjóðráð. Auðvitað er nauðsynlegt að fara yfir þessi mál í heild, virðulegi forseti, á þessari stundu. Úr því að menn kjósa að taka næturfund í að fjalla um málið. Og það er rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson bendir á að auðvitað er það eðlilegt að við jafnaðarmenn tökum alveg sérstaklega á þeim málum vegna þess að við viljum auðvitað jafna því sem er til. En hérna er ekki verið að flytja tillögur um að jafna neinu út í þjóðfélaginu, það er svo langt frá því. ( ÖS: Sumir vilja jafna fortíðina við jörðu.) Ja, mér hefur heyrst það á hæstv. ríksstjórn að hún vilji jafna fortíðina við jörðu. Það er sennilega aðalverkefnið að jafna allt við jörðu sem fyrrv. ríkisstjórn lét eftir sig. Það er út af fyrir sig rétt ábending hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem ég heyri að er nú óðum farinn að gagnrýna núv. ríkisstjórn um leið og hann flytur tillögur fyrir ráðherrana sína. Ætlar hann kannski að taka við af einhverjum þeirra? ( ÖS: Er boðið upp á það?) Ég ræð þessu ekki, hv. þm., og forseti er svo auk þess alltaf að gagnrýna okkur fyrir það að vera að tala saman þannig að ég þori ekki að ræða þetta mikið lengur. En spurningin er auðvitað sú hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson vill taka þátt í þeim stjórnarmyndunarviðræðum sem nauðsynlegt er að fari fram hér á Íslandi þannig að við getum komið frá þessari ríkisstjórn sem er einhver sú óvinsælasta og versta sem þjóðin hefur nokkurn tímann haft.
    Nei, virðulegi forseti, ég óska eftir upplýsingum um það áður en lengra er haldið í minni ræðu hvort það er ætlunin að vera hérna miklu lengur. Hvaða rök eru fyrir því að keyra þetta mál áfram? Það er auðvitað nauðsynlegt að vita það. ( Forseti: Forseti hafði nú hugsað sér að leyfa hv. þm. að ljúka ræðu sinni og síðan telur forseti að það sé heppilegur tími til að fara að ljúka fundinum.)
    Virðulegi forseti. Jafnan hefur það verið svo að mér hefur fallið vel stjórn hæstv. forseta á þessari virðulegu samkomu og ég get ekki neitað því að svo er einnig nú. Ég tel að þetta sé skynsamleg niðurstaða hjá hæstv. forseta, þannig að menn fari að taka sér tíma í aðra og brýnni hluti því að það liggur ekkert á frv. sem nú er til umræðu. Það liggur ekkert á því og á ekki að nota kvöldfundi í að ræða um slík mál. Ég lýk máli mínu að sinni, hæstv. forseti, og skora á hæstv. viðskrh. að draga þetta frv. til baka. Það er alger óþarfi að flytja þetta mál hérna. Það á ekkert erindi við þjóðina eins og er hún bíður eftir öllu öðru en þessu.