Breytt viðhorf í samningum um Evrópska efnahagssvæðið

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:33:00 (1305)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Mig langar fyrst til að fagna því að þessar bráðnauðsynlegu umræður fara fram einmitt nú og raunar þakka fyrir þær upplýsingar sem fram hafa komið, m.a. hjá hæstv. utanrrh. sem hefur gert grein fyrir málum og svarað fyrirspurnum.
    Það er alveg ljóst að nú verður, ef ég hef ekki misskilið ráðherrann að neinu leyti, alla vega tveggja vikna hlé sem við getum notað til að undirbúa okkur. Það muni ekkert gerast, engar undirskriftir eða neitt slíkt, fyrr en búið er að sjá hvert náð verður í öðrum samningum, tvíhliða samningum o.s.frv. Sérstaklega er það ánægjulegt að heildarsamtök sjávarútvegsins skuli hafa lýst yfir nákvæmlega því sama og ég og margir aðrir hafa haldið fram lengi vel, að enn þá sé málið þannig eins og því er lýst í ágætu plaggi m.a. með þessum orðum, með leyfi forseta:
    ,,Í ljós hefur komið að eitt mikilvægasta atriði sem lagt var til grundvallar, þ.e. skipti á veiðiheimildum, er nú túlkað með ýtrustu hagsmuni Evrópubandalagsins í huga.`` Mér kom það svo sem ekki á óvart, en nú er það staðfest af sjávarútveginum öllum.
    Áfram segir: ,,Enn fremur er óljóst um nánari útfærslu á tvíhliða samningi Íslands og Evrópubandalagsins um sjávarútvegsmál.`` --- Loks segir: ,,Þess vegna verður samstarfsnefnd atvinnurekenda í sjávarútvegi að falla frá stuðningi við samkomulagið þangað til allar upplýsingar liggja fyrir í rituðu máli um einstök samningsatriði þannig að hægt sé að leggja raunhæft mat á efnisatriði samningsins.``
    Ég hef ekki þorað að taka svona mikið upp í mig, en sýnilega er þeim mönnum sem gerst þekkja alveg ljóst að mjög langt er í land að við fáum nægilegar upplýsingar til að taka eina ákvörðun eða neina. ( SJS: Er þingmaðurinn ekki sammála þessu?) Ég var að taka undir þetta eða þeir að taka undir það sem ég var að reyna að segja með enn þá sterkari og betri orðum.
    Ég skal ekki tefja tímann, hæstv. forseti. Ég held að allt hafi komið fram sem nauðsynlegt er að komi fram og ég þakka hæstv. ráðherra sérstaklega fyrir að hann hyggst skoða málin betur og alla vega að bíða fram yfir 13. des.