Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum

35. fundur
Miðvikudaginn 27. nóvember 1991, kl. 15:59:00 (1319)

     Svavar Gestsson :
     Virðulegi forseti. Í síðustu viku svaraði hæstv. forsrh. fsp. minni hér á hv. Alþingi á þann veg að gripið yrði til efnahagsráðstafana og þær yrðu tilkynntar í þessari viku. Skýrði frá því að þær yrðu teknar til umræðu hér á hv. Alþingi í þessari viku. Þær yrðu ræddar við fulltrúa atvinnurekenda og fulltrúa launafólks í þessari viku. Þetta var niðurstaða hans eftir að hann hafði að vísu mjög lengi móast við og sagt að ekkert ætti að gera. Þá hafði orðið niðurstaða í þingflokki Sjálfstfl. á löngum og ströngum fundi að það yrði þó að grípa til einhverra ráðstafana og hann tilkynnti þetta í síðustu viku. Hvað gerist svo? Hæstv. sjútvrh. tilkynnir að hann hafi lagt fram tillögur um aðgerðir í sjávarútvegi í ríkisstjórninni. Hann segir í Morgunblaðinu í dag að ekki megi dragast að ríkisstjórnin grípi til aðgerða í efnahagsmálum og enn fremur segist hann leggja áherslu á frestun afborgana af lánum Atvinnutryggingarsjóðs en niðurstaðan af ríkisstjórnarfundi í gær hefði orðið önnur en að var stefnt, segir hann. Hann ætlaði sér sem sagt að ná fram lendingu í gær. Forsrh. landsins neitaði í raun og veru að afgreiða málið. Og segir svo við fjölmiðla í gærkvöldi: Það stendur ekki til að gera neitt hér á næstunni. Það er ástæðulaust að vera að festa sig í dagsetningum.
    Ég spyr, virðulegi forseti: Hver stjórnar efnahagsmálum í þessu landi? Hæstv. forsrh. sendi frá sér a.m.k. þrjár ef ekki fjórar sprengjur með yfirlýsingum í gærkvöldi af ýmsu tagi. Sumar þeirra hafa verið ræddar hér þegar. Ein þeirra er órædd t.d. sú að stjórn Byggðastofnunar hafi beitt sér fyrir refsiverðum lögbrotum á síðasta tímabili eins og kom fram í ræðu hans í gær. ( Forsrh.: það er ekki satt.) Hann tók að vísu fram að það væri sennilega ekki refsivert, hann hefði ekki kannað refsiþátt málsins. (Gripið fram í.) En staðreyndin er auðvitað sú að þjóðin bíður eftir því að hún eignist alvöruríkisstjórn sem tekur á þeim vanda sem liggur fyrir í atvinnuvegum landsins, m.a. vegna kjarasamninga og af öðrum ástæðum. Í staðinn er staðan þannig að þingmenn mega bersýnilega næst búast við því að hæstv. sjútvrh. óski eftir utandagskrárumræðum á Alþingi til að ræða við forsrh. um yfirlýsingar forsrh. í atvinnumálum. Þannig er ástandið orðið að það stendur ekki steinn yfir steini og ég fordæmi þessi vinnubrögð forsrh. mjög harðlega.