Afnot Ríkisútvarpsins af ljósleiðara

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 10:56:00 (1346)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að það er nauðsynlegt að góð samvinna sé milli ríkisstofnana. Á hinn bóginn er enginn sparnaður fólginn í því fyrir ríkið að fela kostnaðartölur í annarri hvorri stofnuninni. Hér er um það að ræða að verið er að byggja upp ljósleiðarakerfið. Stöð 2, eins og kom fram, er þegar farin að nota það á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég tek auðvitað undir það að mjög æskilegt er að hægt sé að greiða fyrir því að hægt sé að nota sjónvarp sem víðast, m.a. til kennslu og upplýsinga og ég vænti þess að ljósleiðarakerfið geti þar skipt verulegu máli og flýtt fyrir slíkri þróun. En það er að sjálfsögðu ekki hægt að taka út úr einhvern lítinn skika af ljósleiðarakerfinu og segja að kostnaðurinn við að reka þann þátt kerfisins sé óháður uppbyggingunni í heild, rekstrarkostnaði kerfisins í heild og þeim kostnaði sem því fylgir að setja það upp.