Móttökuskilyrði hljóðvarps og sjónvarps á Vopnafirði

36. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 11:18:00 (1357)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
     Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans. Það vekur von um að ráðin verði bót á þessu ástandi sem verður að teljast algerlega óviðunandi í þessu byggðarlagi í sambandi við móttökuskilyrðin. Hér voru nefndar tölur um kostnað og það er auðvitað sá kostnaður sem kann að vera þrándur í götu og þess vegna reynir á ráðuneyti þessara mála og Alþingi að tryggja að Ríkisútvarpið geti leyst mál af þessum toga eftir þeim leiðum sem eru opnar í raun og veru.
    Hér ræddum við fyrr á þessum fundi fsp. um afnot Ríkisútvarpsins af ljósleiðara og einmitt það mál tengist þessari fsp. samkvæmt svari hæstv. ráðherra. Hér féllu orð í umræðunni fyrr í dag um það að stjórnvöld verði að stilla saman kraftana í þessu efni og það verði að tryggja að eðlilegt samráð og samvinna takist á milli stofnana sem þurfa að vinna

saman til þess að grundvallarþættir í okkar daglega lífi séu í sæmilegu lagi.
    Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir alþingismenn almennt að það ástand ríkir á okkar tækniöld að sjálft Ríkisútvarpið kemur ekki sínum sendingum með viðunandi hætti til fjölmennra byggðarlaga í landinu svo að ekki sé talað um einstaka afskekkta staði sem eru nær algerlega afskiptir í sambandi við móttökuskilyrði.
    Ég treysti því að hæstv. menntmrh. leggi Ríkisútvarpinu lið og taki upp viðræður ef þarf við samgrn. og Póst og tíma um eðlileg samnot og samvinnu þessara aðila til að leysa mál af þessum toga og það þarf að gilda bæði um sjónvarpssendingar sem og útvarpssendingar. Hér er í rauninni mikið framtíðarmál til umræðu eins og bent var á, möguleikar ljósleiðarans eru miklir til miðlunar og menn hljóta að gera kröfur til að fjárfestingar sem lagt er í verði nýttar, og þar sem möguleikarnir eru tæknilega fyrir hendi að aðrar girðingar og hindranir verði ekki til að koma í veg fyrir eðlileg not.