Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 13:06:00 (1381)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Virðulegi forseti. Ég ætlaði að inna forseta eftir því hvort hæstv. forsrh. væri væntanlegur til þingfundar. Mér skilst að hæstv. forsrh. haldi uppteknum hætti og varpi hverri sprengjunni á fætur annarri í fjölmiðlum, þar á meðal nú í morgun og lét þar ýmis ummæli falla, m.a. um störf hæstv. Alþingis. Líkti því við --- ég man nú ekki hvaða skólastig það var, ætli það hafi ekki verið gagnfræðaskólastigið. Einnig lét hann að því liggja, samkvæmt ummælum sem voru endurtekin í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, að við, þeir hv. þm. sem hér erum og höfum gegnt ráðherraembættum á undanförnum árum, værum sjúkir menn, tók það orðalag, sem gjarnan er notað um áfengis- eða eiturlyfjasjúklinga þegar þeir hafa misst skammtinn, að þeir búi við fráhvarfseinkenni. Ég kannast ekki við orðanotkunina um fráhvarfseinkenni nema helst í þessu samhengi. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hefði talið fulla ástæðu til að við ættum þess kost, einhvern tímann síðar í dag, ef ekki hér í upphafi fundar, að eiga orðastað við hæstv. forsrh. Ég tel að það sé með öllu óviðunandi og ekki við það búandi fyrir hv. alþm. að fá dag eftir dag skeytasendingar af þessu tagi, ef ekki ærumeiðandi ummæli eins og hér voru til umræðu í gær á hv. Alþingi, og eiga þess síðan ekki kost að ræða þau við hæstv. forsrh. Búa jafnvel við það að hann neiti síðan að ræða ummæli sín hér inni í sölum þingsins.
    Hér mun eiga að fara að taka á dagskrá, ef ég veit rétt, virðulegur forseti, frv. til laga um Seðlabanka Íslands. Um það mál var gert samkomulag fyrir tveimur nóttum að reyna að ljúka afgreiðslu þess á skömmum tíma hér í dag eða á þeim þingfundi sem það yrði fyrst tekið fyrir. Það samkomulag vil ég að sjálfsögðu virða enda átti ég aðild að því að koma því á, en ég segi fyrir mitt leyti að ég er ekki mjög áhugasamur um að taka þátt í frekari samningum af því tagi til að greiða fyrir málum hæstv. ríkisstjórnar ef ég á að búa við það dögum oftar að vera líkt við sjúkan mann af hæstv. forsrh., og taka á mig 1 / 63 af þeim ærumeiðingum fyrir hönd Alþingis sem ég tel í raun og veru að forsrh. lýðveldisins hafi látið falla í útvarpinu í dag.
    Ég óska þess vegna eftir því að hæstv. forseti láti kanna hvenær hæstv. forsrh. er væntanlegur til þings og vona að okkur gefist kostur á að eiga við hann orðastað um þessi mál, annaðhvort utan dagskrár eða undir formi þingskapaumræðna eða, ef svo ber undir, í einhverju af þeim dagskrármálum þar sem slíku yrði við komið.