Seðlabanki Íslands

37. fundur
Fimmtudaginn 28. nóvember 1991, kl. 14:35:00 (1393)

     Halldór Ásgrímsson :
     Virðulegur forseti. Ég varð nokkuð undrandi á ummælum hæstv. viðskrh. þegar hann lýsti undrun sinni á því hvers vegna ég hefði lýst andstöðu við 2. gr. frv. Ég gerði þá grein eingöngu að umræðuefni í mínu máli. Ég vék ekki sérstaklega að 1. gr. og 3. gr. en mun taka það mál fyrir í nefnd og hef ekki lýst andstöðu minni við þau áform sem þar eru. Það er ekki rétt hjá hæstv. viðskrh. Hins vegar er rétt hjá honum að ég hef lýst andstöðu minni við 2. gr. Hann telur að sú andstaða sé byggð á misskilningi. Það er ekki í fyrsta skipti sem við heyrum það í þessum þingsal að við skiljum illa hlutina og þess vegna hljóti öll afstaða okkar að vera byggð á misskilningi.
    Nú má vel vera að mín afstaða sé byggð á misskilningi og þá ber að leiðrétta hann. En ég skil mál þetta með þeim hætti að hér fær hæstv. viðskrh. heimild til þess, eða réttara sagt Seðlabankinn, og það hefur verið talað um að auka beri sjálfstæði hans. En það stendur nú jafnframt ,,að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar``. En, með leyfi hæstv. forseta, þá hljómar það svo:
    ,,Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar hvernig verðgildi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum skuli ákveðið. Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar miðist við einn erlendan gjaldmiðil, samsettan gjaldmiðil, eins og ECU eða SDR, eða meðaltal gjaldmiðla, ýmist með eða án fráviksmarka.``
    Þetta er mjög ítarleg heimildargrein. Það er hægt að gera mjög margt á grundvelli þessarar greinar. M.a. sýnist mér að það liggi alveg ljóst fyrir, má vera að þar sé um misskilning að ræða, sem ég held að sé ekki, að hægt sé á grundvelli þessarar heimildargreinar að binda gengi íslensku krónunnar við ECU.
    Síðan segir á bls. 2 í grg., með leyfi hæstv. forseta: ,,Tenging íslensku krónunnar við ECU er hins vegar ekki talin tímabær að sinni.`` Hæstv. viðskrh. hefur lýst því sem sinni stefnu, má vera að ég hafi misskilið hann einnig í því, að hann sé þeirrar skoðunar að rétt sé að taka upp bindingu við ECU frá og með ársbyrjun 1993. Þannig hef ég skilið hans mál. Ég er því miður ekki með ræður hans hér en út af fyrir sig væri mér ljúft að vitna í þær því ég heyri á hæstv. viðskrh. að honum þykir það afar skemmtilegt ef vitnað er í ræður hans.
    Ég hef skilið málið með þessum hætti og á grundvelli þessa skilnings er ég andvígur því að veita hæstv. viðskrh. og hæstv. ríkisstjórn umboð til þess, miðað við það

ástand sem nú blasir við, að taka upp tengingu við ECU frá og með 1. jan. 1993. Og ég færði rök fyrir mínu máli fyrst og fremst með því að lesa og vitna til þess sem kemur fram í þessari skýrslu þar sem eru viðvaranir um þessa hluti og lögð áhersla á að upphafsstaðan þurfi að vera góð. Ég hef, hæstv. viðskrh., ekkert traust á því að upphafsstaðan verði góð í ársbyrjun 1993 og er ekki tilbúinn til að gefa núv. ríkisstjórn mitt umboð til þess. Svo einfalt er það. Ég get bætt við það sem því miður kemur nú fram um okkar þjóðarbúskap í nýrri skýrslu Þjóðhagsstofnunar. Þar kemur skýrt fram, og ég er því sammála, að helsta vandamál á næstunni á sviði hagstjórnar sé að ná niður viðskiptahalla og standa gegn erlendri skuldasöfnun. Svo einföld er mín afstaða. Ef hún er byggð á misskilningi þá bið ég hæstv. viðskrh. að leiðrétta hann en vera ekki að bera á mig misskilning ef hann er ekki á rökum reistur. Ég tel að ég hafi talað alveg skýrt mál hér og skýrt mína afstöðu eins vel og mér var unnt, reyndi gera það ekki í mjög löngu máli. Ég ætla mér ekki að fara að endurtaka neitt af því sem ég sagði þá. Þetta er grundvöllur minnar afstöðu og við það stend ég.
    Ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því í nefnd að þessari grein verði breytt og vænti þess að það sé hægt að ná um það samstöðu. En hæstv. viðskrh. þarf ekki að lesa upp fyrir okkur framsóknarmenn skýrslu nefndar sem var starfandi á okkar vegum þó að við verðum afar glaðir við eins og hann hefur heyrt, jafnglaðir og hann verður þegar hann heyrir vitnað í sínar ræður.
    Þetta vildi ég taka hér fram, virðulegi forseti, og vænti þess að þar með sé afstaða mín skýr.