Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um starfshætti á Alþingi

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 11:36:00 (1430)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er slæmt að við skyldum ekki hafa fengið aðeins rýmri tíma. Ég hefði þurft að eiga orðastað við hæstv. forsrh. því að ég hef svo sannarlega mátt þola þar vægast sagt ærumeiðandi ummæli. En ég kem hér ekki síður upp til þess að tala við hv. 3. þm. Suðurl., Árna Johnsen, sem segir að það skorti á skilvirkni í vinnubrögðum okkar þingmanna. Ég vil segja þessum hv. þm., Árna Johnsen, að mér finnst að þetta komi úr hörðustu átt frá formanni byggingarnefndar Þjóðleikhússins, ég held að hann ætti að taka til í eigin garði og þrífa betur slóðann upp eftir sig þar áður en hann fer að senda okkur tóninn.