Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

38. fundur
Föstudaginn 29. nóvember 1991, kl. 14:58:00 (1441)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Það er margt sem skiptir máli að taka fyrir í umræðu um þetta frv. en þó einkum þrennt sem ég mun beina athyglinni að vegna þess að hér er einkum verið að fjalla um breytta skipan Hagræðingarsjóðs. Eins og fram hefur komið í máli manna er verið að tala um sjávarútveginn í heild vegna þess að þær aðgerðir sem lagt er til að gerðar verði varða hann allan og mun ég víkja nánar að því á eftir.
    Í fyrsta lagi erum við að ræða hvert hlutverk Hagræðingarsjóðs sé og hvert það eigi að vera. Eins og fram hefur komið náðist nokkurt samkomulag um skipan þessara mála fyrir aðeins tæpum tveimur árum og nú er verið að krukka mjög alvarlega í það samkomulag. Samkvæmt því frv. sem samþykkt var vorið 1990 og varð að lögum þann 15. maí það ár var sjóðnum einkum ætlað tvíþætt hlutverk. Í fyrsta lagi að ýta undir og fjármagna aukna hagræðingu í sjávarútvegi og vinna þar með að aukinni hagkvæmni í útgerð. Það er auðvitað verðugt markmið og kemur okkur öllum til góða. Það er nauðsynlegt að vinna ávallt að því marki.
    En í öðru lagi var skilgreint og skýrt tekið á öðru markmiði Hagræðingarsjóðs, þ.e. að hlaupa undir bagga með byggðarlögum sem verða illa úti vegna breyttra útgerðarhátta eins og segir í núgildandi lögum. Það er þetta hlutverk sjóðsins sem stendur nú til að hverfa frá og það er jafnframt þetta hlutverk sjóðsins sem við kvennalistakonur höfðum á þeim tíma sem Hagræðingarsjóður var sem mest í umræðu talið einna mikilvægast. Eitt örstutt spor í átt til þess byggðakvóta sem við hefðum gjarnan viljað sjá að hér hefði verið samþykktur í stað fiskveiðistefnunnar sem nú er ríkjandi. Við erum ekki einar um það að líta á byggðasjónarmiðin sem hin mikilvægustu við stjórn fiskveiða þótt menn greini á um leiðir og útfærslur. Það var merkilegt að heyra fyrr í umræðunni vitnað í þessu sambandi til orða hv. fyrrv. þm. Jóns Sæmundar Sigurjónssonar. Ég vil leyfa mér að vísa örlítið til umræðnanna sem urðu á Alþingi við setningu þessara laga sem nú stendur til að breyta. En þar kom fram að kvennalistakonur geti í sjálfu sér vel tekið undir hið þríþætta hlutverk sem Hagræðingarsjóði var ætlað þá. Raunar er hlutverkið tvíþætt en það var skilgreint hér sem slíkt: Að draga úr afkastagetu fiskiskipastólsins. Að koma í veg fyrir að gömul og úrelt fiskiskip séu endurnýjuð með mun afkastameiri fiskiskipum. Þar er í rauninni um sama markmið að ræða. Og svo í þriðja lagi sem er hitt markmiðið, að sjóðurinn eignist kvóta fiskiskipa eftir ákveðnum reglum.
    Í frv., sem þá var til umræðu, örlaði á viðurkenningu á þeim sjónarmiðum sem kvennalistakonur hafa haldið fram og flutt tillögur um að óhjákvæmilegt sé að taka tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu. Og að ekki sé sjálfgefið að úthluta veiðiheimildum ókeypis til einstaklinga og útgerðarfyrirtækja sem geti hagnast um tugi eða hundruð milljóna á óveiddum fiski sem lögum samkvæmt eru sameign íslensku þjóðarinnar. Þótt frv. fæli ekki í sér framtíðarlausn á vanda byggðarlaga og í raun væri verið að ýta heildarvandanum til hliðar, ýmis atriði væru óljós og framtíðarlausn byggðavanda væri að sjálfsögðu ekki í þessari lagasetningu, þá var þó a.m.k. búið að koma til móts við þær eðlilegu röksemdir að ekki mætti rjúfa þau tengsl sem eru milli byggðarlaga, afkomu þeirra og fiskveiðistjórnunar.
    Jafnframt finnst mér rétt að víkja örlítið að þeim athugasemdum kvennalistakvenna sem komu fram við umræðu um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum í febrúar sl. en þá sagði fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. Ed., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með stofnun Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins samhliða afgreiðslu laga um stjórn fiskveiða á sl. ári þótti okkur kvennalistakonum aðeins örla á viðurkenningu á þeirri hugmynd og þeim tillögum okkar að nauðsynlegt væri að taka tillit til byggðasjónarmiða við stjórn fiskveiða. Hagræðingarsjóður, eins og hann er nú, er reyndar fjarri hugmyndum okkar um að leggja 20% heildaraflans í sérstakan veiðileyfasjóð sem yrði til leigu, sölu eða sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga. Það er auðvitað eitt sem við hljótum öll að hafa áhyggjur af ef upp kemur sú staða síðar á árinu að straumhvörf verða í atvinnulífi einhvers staðar á landinu vegna skipasölu að ekki verði til neinar aflaheimildir í Hagræðingarsjóði.``
    Hér er verið að vísa til þess að með þeim ráðstöfunum sem voru gerðar vegna mjög alvarlegs vanda þá var verið að ganga í sjóð sem okkur þótti í rauninni ekki ástæða til. Ég vil bæta örlítið við tilvitnun mína, með leyfi hæstv. forseta, en þar sagði fulltrúi Kvennalistans í sjútvn. Ed.:

    ,,Ég hef áhyggjur af því að við séum stöðugt að ganga of nærri fiskstofnunum og eins að atvinnuleysi og upplausn geti blasað við í ýmsum byggðarlögum.`` Þetta var sagt beinlínis vegna þeirrar stöðu sem var. Ég held við séum öll sammála um það að staðan hafi ekki batnað. Hafi þessi orð átt við fyrr á þessu ári eiga þau svo sannarlega við núna og jafnvel enn frekar þar sem verið er að ganga enn nær byggðarlögum sem eiga alla sína afkomu undir sjávarútveginum.
    Ég fagna því að heyra að hv. ræðumaður fyrr í dag, hv. 5. þm. Vestf. Kristinn H. Gunnarsson tók undir sjónarmið okkar kvennalistakvenna um að í raun þyrftum við á byggðakvóta að halda. Ég gat ekki skilið ummæli hans öðruvísi. Ég er mjög ánægð að heyra það.
    Undir þessi sjónarmið og þessa afstöðu okkar tókum við tveir fulltrúar Kvennalistans í umræðum um sjávarútvegsmál fyrr á yfirstandandi þingi. Það var fulltrúi okkar í fjárveitinganefnd og sú sem hér stendur sem situr fundi sjútvn. en á þar raunar ekki fulla aðild.
    Þetta er hið fyrsta og mikilvægasta sem mér finnst ástæða til að benda á. Tvennt annað er einnig mjög mikilvægt sem við þurfum auðvitað að líta á vegna þeirra umræðna sem eru nú. Vil ég þá næst nefna að við verðum að gera það upp við okkur hve miklu fé á að verja til hafrannsókna og hvernig á að fjármagna þær. Það er mjög mikilvægt að efla hafrannsóknir og ég held að okkur sé það sjaldan eins vel ljóst og einmitt núna. Það er ekki síst mikilvægt að sinna fjölstofnarannsóknum sem eru að fara í gang, en við hljótum að hafa fullan fyrirvara á því hvernig rannsóknirnar eru fjármagnaðar og það verður m.a. að fara mjög eftir árferði í atvinnugreinum til lands og sjávar og það þýðir ekki að taka ákvörðun án þess að taka tillit til þess.
    Mér finnst í raun að hagsmunir allrar þjóðarinnar séu í veði þegar við lítum á hafrannsóknir. Þetta eru okkar mikilvægustu rannsóknir vegna þess að við sem þjóð í heild eigum alla okkar afkomu undir sjávarútveginum þótt auðvitað séu margar aðrar atvinnugreinar sem við eigum og verðum að leggja rækt við. Það er hins vegar staðreynd að atvinnulíf okkar er mjög einhæft og sjávarútvegurinn vegur þar þyngst. Þess vegna verðum við að stilla dæminu upp á þann veg að við þurfum ekki að standa frammi fyrir því að velja og hafna milli þess að stunda rannsóknir sem eru okkur sæmandi annars vegar og hins vegar að láta þá borga brúsann sem sinna útgerð við mismunandi kringumstæður. Auðvitað eigum við að sinna þessum rannsóknum. Það er engin spurning og við verðum að gera það af miklum myndarskap. Við eigum líka að huga að því á hverjum tíma hvernig þessum rannsóknum er best fyrir komið, hvernig best er að fjármagna þær. En við verðum að skilja það að við getum ekki gengið í sjóði sem ekki eru til. Auðvitað er afkoman í sjávarútvegi mjög misjöfn eftir fyrirtækjum en þá er ég komin að þriðja málinu sem skiptir mestu varðandi þetta frv. sem hér liggur fyrir og það er hvaða afleiðingar setning þessara laga mundi hafa. Þá er ég bæði að tala um byggðarlög landsins og sjávarútveginn sem heild. Ekki síst auðvitað það fólk sem á alla afkomu sína undir því að öflug útgerð sé til staðar og veiti fólki atvinnu við sjómennsku og í fiskvinnslu.
    Við vitum vissulega hver staðan er í byggðamálum og það hlýtur að vera áhyggjuefni ef einhver réttur til aðgerða í byggðamálum er af tekinn án þess að nokkuð öruggt komi í staðinn. Ég fæ ekki séð að það hafi verið gert. Við höfum ekki séð úrræðin í byggðamálum sem aðgerðirnar sem lagt er til að verði hafðar í frv., að fella niður byggðaþáttinn, hlutverk Hagræðingarsjóðs í byggðamálum. Við fáum ekki séð að það komi neitt annað í staðinn og það er alvarlegt mál. Þá gildir einu hvort rök segja að staðið hafi verið rétt að málum við útfærslu laganna fram til þessa eða ekki. Við verðum að horfast í augu við það að við lokum ekki einum dyrum nema opna aðrar og það er ekki gert með

þessu frv. og það er ekki gert með neinu því sem fram hefur komið í umræðunum. Það er vísað óljóst til Byggðastofnunar sem á að leysa málin eða einhvers annars. Ég get ekki skilið umræðuna hér öðruvísi og það er hreinlega ekki fullnægjandi.
    Ég vil auk þess taka undir þá gagnrýni sem hefur fram komið um við hverja hefur verið haft samráð við samningu þessa frv. Ég hef þungar áhyggjur af því að það hafi ekki verið haft samráð við neinn af þeim sem þetta frv. varðar mestu. Ég tala nú ekki um ef það yrði að lögum. Nóg er að búa við þá óvissu sem þetta frv. færir þeim sem það varðar.
    Ég mun vissulega fá tækifæri til þess í sjútvn. að fjalla ítarlega um þetta efni ásamt þeim sem þar sitja og ég trúi því og treysti að þar muni verða málefnaleg umræða sem tekur tillit til allra þessara þátta sem fram hafa komið, bæði í mínum athugasemdum og annars staðar í umræðunni.
    Í dag hefur verið fjallað mjög ítarlega um hver staða sjávarútvegsfyrirtækja er nú. Þótt sem betur fer standi ekki allir jafnilla og stutt sé síðan við gátum talað um býsna góða afkomu þar er það staðreynd að jafnvel best reknu fyrirtækin og þau sem hafa náð í mestu aflaheimildirnar, eins og t.d. af því hér hefur fyrr í umræðunni verið nefnt Útgerðarfélag Akureyringa, sjá fram á svo mikinn samdrátt að virkilegum áhyggjum veldur. Varðandi orð hæstv. seinasta ræðumanns verð ég að lýsa mjög alvarlegum áhyggjum mínum yfir þeim upplýsingum sem fram komu í hans ræðu. Vissulega gerði ég mér grein fyrir að ástandið var erfitt, en ég verð satt að segja að viðurkenna það að ég vonaðist til þess að það væri ekki alveg svona svart. Mér þykja þær upplýsingar sem hann færði fram og nauðsynlegt var að kæmu fram í þessari umræðu vera á þann veg að við verðum að líta mjög alvarlega á þetta dæmi í heild. Ekki grípa til neinna aðgerða án þess að vita hvaða afleiðingar þær hafa.
    Ég hlýt því í ljósi þess sem hefur komið fram að lýsa ýmsum efasemdum mínum við þetta mál þótt ég sé sammála því að nauðsynlegt sé að huga vel að hagræðingu í sjávarútvegi og að efla hafrannsóknir. Við erum hins vegar ekki í þeirri aðstöðu nú að geta aðeins tekið frá byggðarlögum og sjávarútvegi en ekki bent á úrlausnir á móti.
    Virðulegur forseti. Ég mun ekki hafa þetta lengra og vonast til þess að hv. sjútvn. beri gæfu til þess að vinna þetta mál með það að leiðarljósi að hugsað verði um allt það fólk sem á afkomu sína undir sjávarútveginum í landinu, okkur öll, og taki engar ákvarðanir í fljótræði.