Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

39. fundur
Mánudaginn 02. desember 1991, kl. 14:41:00 (1451)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegur forseti. Ég vil segja það að ég fagna svarræðu hæstv. ráðherra að nokkru leyti. Greinilegt er að hann er að draga í land með hugmyndir sínar um breytingar á Hagræðingarsjóðnum, sérstaklega þann meginþátt að taka út úr honum byggðahlutverkið. Ég tel það líka skynsamlegt að gera þá breytingu á frv. að veita sjóðnum lántökuheimildir til þess að stuðla enn frekar að úreldingu fiskiskipa. Ég ítreka það sjónarmið, sem ég setti fram í fyrri ræðu minni, að ég sé ekki að það sé mögulegt að taka lögin sjálfstætt og endurskoða þau án samhengis við lögin um stjórn fiskveiða og bendi á það sem fram hefur komið bæði í mínu máli og annarra að það er lögbundið að endurskoða lögin fyrir árslok 1992 og hafa um það samráð við sjútvn. og helstu hagsmunasamtök. Sams konar ákvæði eru í hvorum tveggja lögunum og greinilegt er á umræðunni sem fram fór og þeim nefndarálitum sem menn skiluðu af sér á þessum tíma, sérstaklega þingmenn Sjálfstfl., að þeir litu á þetta sem eitt og sama málefnið. Ég tel að öll umræða um breytingar á frv., hvort sem það er á þingi eða í nefnd, hljóti að snúast að verulegu leyti um stjórn fiskveiða. Það er óhjákvæmilegt.
    Það er meira en tímabært að menn átti sig á því að við erum að festast inni í kerfi sem menn hafa andmælt í öðru orðinu en sett á í hinu orðinu því að sett er inn í 1. gr. sameign allrar þjóðarinnar en gengið síðan frá lögum þannig að rétturinn til sjósóknar er gerður að verslunarvarningi sem gengur kaupum og sölum. Því oftar sem slíkur réttur og það sem honum fylgir er selt, þeim mun erfiðara verður að snúa til baka. Nú þegar er búið að kaupa og selja þessi réttindi fyrir nokkra milljarða kr. á skömmum tíma --- og ég minni á það að hæstv. fjmrh. hefur ekki enn svarað fsp. minni á þskj. 53 um skattalega meðferð á keyptum kvóta. Það hlýtur að vera grundvallaratriði í mati manna á fiskveiðistefnunni hvert svarið verður við fsp. því að það gefur upp túlkun framkvæmdarvaldsins á lögunum um stjórn fiskveiða og því samhengi sem er á milli þeirra og lögunum um tekjuskatt og eignarskatt.
    Ég bið menn að íhuga það á hvaða braut við erum þegar nánast hvarvetna um landið er verið að reikna upp sjávarútvegsfyrirtækin, búa til eignir með því að reikna upp aflakvótann og segja að hann sé svo og svo mikils virði og þess vegna geti fyrirtækið borið svo og svo miklar skuldir. Ég bendi á það að þær eignir, sem þannig eru reiknaðar og menn eru að styðjast við í útreikningum sínum í einstökum björgunaraðgerðum og hjá mörgum fyrirtækjum, eru raunverulega ekki eignir nema þær verði seldar. Í raun og veru er verið að herða þann hnútinn sem endar alltaf á því að þessi lífsbjörg er seld. Og ég spyr: Hvað borguðu þeir menn fyrir kvótann sem eru að selja hann í dag fyrir milljónir króna? Hvað borgar fyrirtæki, sem starfað hefur alla tíð frá 1983 og lengur, fyrir þær aflaheimildir sem það hefur í dag? Við erum með stór fyrirtæki sem reikna sér aflaheimildir sínar á 1.000 millj. eða meira. Hvað borguðu þeir fyrir heimildirnar? Ekki krónu. Hvað á það að þýða að vera með umræðu af því tagi að menn séu að meðhöndla þessi réttindi sem fjármuni? Ég sé ekki að menn komist út úr þessu öngstræti nema bregðast við nokkuð skjótt og það er að mínu mati of seint að ætla sér að láta endurskoðun á lögunum um stjórn fiskveiða bíða til ársloka næsta árs. Þá verða menn annaðhvort komnir með þetta kerfi í fullt ,,sving`` eða komnir með auðlindaskatt sem í raun og veru er það sama og það frv., sem hér er til umræðu, fjallar um.
    Ég vil leggja þunga áherslu á það að menn ræði í nefnd um frv. einmitt út frá þessum forsendum að það er ekki bara verið að skattleggja einstök fyrirtæki sem hafa veiðiréttindi í dag heldur er verið að leggja gríðarlegar byrðar á byggðarlögin úti á landi. Það nær bara ekki nokkurri átt, virðulegi forseti, að verið sé að leika sér þannig með stærsta mál þjóðarinnar, að velta á milli sín fleiri milljörðum, velta því svo endanlega yfir á bakið á því fólki sem býr í sjávarplássunum. Menn verða að taka upp lögin um stjórn fiskveiða í samhengi við lögin um Hagræðingarsjóðinn. Annað er ekki hægt. Ég tel að menn eigi að halda sig við það sem segir hvorum tveggja lögunum, að endurskoða þau samtímis en gera það hratt. Gera það fyrr en kveðið er á um í lögunum.