Umboðsmaður barna

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 14:40:00 (1487)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Frú forseti. Þar sem ég er einn af meðflm. þessa frv. ætti ég kannski ekki að þurfa að fara hér upp og lýsa yfir stuðningi mínum við það, en ég vil nú samt gera það vegna

þess að ég tel að hér sé um svo mikilvægt mál að ræða að það ætti ekki að fara alveg umræðulaust í gegnum hv. Alþingi.
    Það embætti sem er verið að leggja til að stofna leysir auðvitað ekki allan vanda barna, eins og hér hefur verið bent á, en það er eitt skref í rétta átt og sem slíkt mjög mikilvægt. Hér er um að ræða embætti sem hefur það beinlínis að markmiði að skoða samfélagið út frá sjónarhóli barna en nota aðferðir hinna fullorðnu til að gæta réttar þeirra og hagsmuna. Ég held að við séum öll sammála um það og þurfum kannski ekki að velta mikið vöngum yfir því að börnum er á margan hátt misboðið í samfélagi okkar og á margan hátt gengið á rétt þeirra. Þau njóta ekki þess öryggis í umhverfinu sem þeim ber og allt of mörg slys á börnum í umferðinni --- og því miður alvarleg slys --- bera því glöggt vitni. Eins og 1. flm. þessa frv., hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, kom inn á er enn verið að skipuleggja borgarhverfi á höfuðborgarsvæðinu án tillits til þess hverjir ferðast um þessi hverfi öðrum fremur. Við erum hér með svefnhverfi, getum við sagt, út um alla borg. Þar eru að stærstum hluta til börn á daginn og þess vegna ættu þessi hverfi auðvitað öðru fremur að vera skipulögð út frá þörfum þeirra.
    Börn njóta mörg hver ekki þeirrar verndar og umönnunar á degi hverjum sem hverju barni er nauðsynleg til þess að komast til manns. Þau búa við aðstæður sem við, sem fullorðnar manneskjur, mundum helst vilja komast hjá að búa við. Þau búa við stuttan skóladag og sundurslitinn og við sjáum það sjálf, okkur þingmönnunum finnst stundum nóg um hversu sundurslitinn okkar vinnudagur er, og viljum held ég ekki búa börnum okkar þær aðstæður ef hægt er hjá því að komast. Þau búa við skort á dagvistarrými og af því leiðir að börnum er þeytt úr einni vist í aðra á hverjum einasta degi sem guð gefur. Við mundum heldur ekki vilja búa við það sjálf að þurfa á hverjum einasta degi að fara úr einni vinnunni í aðra. Skortur á skóladagheimilum er tilfinnanlegur sem gerir það að verkum að mörg börn ganga sjálfala drjúgan hluta úr degi árið um kring.
    Þá er kannski ótalið það sem verst er og það er að börn njóta ekki nægilegra samvista við foreldra sína vegna óhóflegs vinnuálags og langs vinnudags hjá fullorðnu fólki. Þar erum við kannski komin að stærsta meininu í þessu öllu saman sem er láglaunastefnan sem ríkir í samfélaginu og er ekki síst til þess að skerða rétt barna.
    Að öllu samanlögðu, og það þarf ekki að fara í langa upptalningu, njóta börn ekki þeirra aðstæðna sem líklegar eru til að stuðla að alhliða þroska þeirra og leggja grunn að lífshamingju þeirra.
    Eins og ég sagði áðan er okkur öllum ljóst, öllum fullorðnum manneskjum sem komnar eru til vits og ára, að við búum ekki nægilega vel að börnum, en einhvern veginn megnum við ekki að breyta þeirri forgangsröð sem ríkir í samfélaginu. Við erum oft og tíðum svo skammsýn og gleymum oft að börnin sem við ölum upp í dag eru karlar og konur framtíðarinnar. Þau eru hugvit framtíðarinnar, hugvitið sem við metum svo mikils, þau eru vinnuafl framtíðarinnar, stjórnendur og foreldrar framtíðarinnar. Það vantar ekkert upp á það að víða í lögum er kveðið á um rétt barna en þessi sömu lög eru svo oft og tíðum gerð marklaus með öðrum aðgerðum, bæði löggjafar- og framkvæmdarvaldins. Mér finnst stundum grunnskólalögin órækasti vitnisburðurinn um þetta því að þau lög eru mjög ítarleg og þar er mikið af góðum fyrirheitum, góðum ásetningi og fögrum orðum en því miður eru þau árlega gerð marklaus á Alþingi Íslendinga þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga. Mig langar bara til að benda á eitt atriði. Í 2. gr. grunnskólalaga segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.``
    Því miður er það svo að upp á þetta vantar verulega. Því miður er það svo á ári

hverju þegar kemur að því að ákvarða sérkennslu til skólanna, þá er hún skorin verulega niður frá því sem beðið er um hjá einstökum skólum og sem er í samræmi við þarfir skólanna. Þetta kemur ekki síst niður á þeim börnum sem eru, við getum sagt, jaðartilvik. Þau hafa venjulega greind en það vantar upp á þroska þeirra. Það eru þessi svokölluðu misþroska börn, sem ég gerði að umtalsefni í morgun, sem gætu orðið mjög nýtir þjóðfélagsþegnar og gætu flest það sem við gerum í dag sem fullorðin erum og teljumst ekki vera misþroska á nokkurn máta. En þau þurfa til þess aðstoð. Ef þau fá ekki þessa aðstoð er þetta m.a. sá hópur sem talinn er í áhættu fyrir hvers kyns andfélagslegri hegðun þegar kemur fram á unglingsárin.
    Á það hefur verið bent hér af öðrum sem hafa talað að börn mæta því miður afgangi oft og tíðum í samfélagi okkar og ég held að það reynist flestu ungu fólki í dag afskaplega erfitt að rækja foreldrahlutverk sitt. Því miður þurfa foreldrar oft og tíðum að afsaka sig og fara í felur með foreldrahlutverkið þrátt fyrir að það sé skýlaus krafa barnalaga að þeir ræki framfærslu- og umönnunarskyldu sína. Konur sem eiga börn eru ekki mjög eftirsóttur vinnukraftur. Þess eru m.a. mörg dæmi að beðið sé um það sérstaklega á umsóknareyðublöðum fyrirtækja að þær geti þess hvort þær eigi börn og komi það fram eru þær settar neðar í bunkann en aðrar. Fólk þarf oft og tíðum að fara í felur með það á vinnustöðum að það sé heima vegna veikinda barna og reynir að búa sér til einhver önnur tilefni en þau að það sé að fara á fund í skólanum eða í viðtöl sem tengjast börnum þeirra. Foreldrahlutverkið er því miður ekki hátt skrifað í samfélaginu.