Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 17:51:00 (1516)

     Össur Skarphéðinsson :
     Virðulegi forseti. Það er alrangt að ég hafi sérstaklega troðið illsakir við Framsfl. í þessum þingsölum. Hins vegar finnst mér það lýsa a.m.k. sumum mönnum í Framsfl. að þegar hér kemur fram mál sem vissulega horfir til heilla, þó að bersýnilega sé ágreiningur um það innan Framsfl. eins og margt annað, þá sjái hv. þm. Stefán Guðmundsson sérstakt tilefni til þess að hafa þá menn að háði og spotti sem enn eiga djörfung, bjartsýni og trú á íslenskt samfélag. Það er von að hv. þm. Stefán Guðmundsson hafi það ekki, enda hefur Framsfl. farið með stjórnartaumana hér í næstum því 20 ár og við getum svo sem séð hvernig ástandið er, hv. þm. Það er ekki bara þessi ríkisstjórn sem er búin að vera við völd í sjö mánuði. Ætlið þið, ágætir framsóknarmenn, eigið ekki einhverja sök á því líka?
    Varðandi hins vegar þá spurningu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar hvort Alþfl. hyggist gera eitthvað í málefnum skipaiðnaðarins vegna þess að undir þann flokk heyrir viðkomandi ráðuneyti, þá er það með mikilli ánægju að ég get upplýst þingmanninn um að um þetta hafa farið fram talsverðar umræður á einum þremur þingflokksfundum Alþfl. Og af því að það kemur berlega fram í máli þingmannsins að hann fylgist ekki ítarlega með fjölmiðlum, þá get ég líka upplýst hann um að það hafa komið fram hugmyndir frá þingmönnum Alþfl. í þá veru að takmarka verulega fyrirgreiðslu hins opinbera við skipasmíðar sem fara fram erlendis. Ég vænti þess að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að á þessu verði gerð einhver breyting til hins betra. Þá vona ég að hv. þm. Stefáni Guðmundssyni verði rórra í sálinni þannig að hann a.m.k. geti látið vera að koma hér upp og fara með háð um það sem menn vilja vel gera.