Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 18:12:00 (1522)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Nú skil ég hvers vegna Alþfl. þarf að ræða stöðu skipasmíðaiðnaðarins á þremur fundum og er ekki búinn enn. ( ÖS: Hann er búinn.) Er hann búinn? Það er alveg ljóst að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur tapað málinu því ræða hæstv. iðnrh. var auðvitað bara endurtekning á gömlu plötunni sem spiluð hefur verið á undanförnum árum og hefur haft í för með sér það ófremdarástand sem nú er orðið í málefnum skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi. Hæstv. iðnrh. sagði hér: Við ætlum ekki að beita neinum sértækum aðgerðum í þágu skipasmíðaiðnaðarins á Íslandi. Við ætlum eingöngu að beita almennum aðgerðum.
    Síðan fór hann með ,,faðirvor`` frjálshyggjunnar í þessari ríkisstjórn um það að ekki ætti að niðurgreiða skipasmíðaiðnaðinn.
    Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað er aukning hlutafjár til Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem ríkið er aðaleigandi að, annað en niðurgreiðsla? Er hún eitthvað annað? Auðvitað ekki. Við skulum bara kalla hlutina réttum nöfnum, hæstv. iðnrh., en ekki einhverjum gervinöfnum.
    Nú stendur sú kvöð á fjmrn., ríkisstjórninni og hæstv. iðnrh. að setja hátt í 200 millj. í heild inn í Slippstöðina á Akureyri til þess að hún geti starfað áfram. Það er beint ríkisframlag sem með skilgreiningu hæstv. iðnrh. er auðvitað mjög auðvelt að kalla ríkisstyrk og niðurgreiðslu til skipasmíða. Hver er ástæðan fyrir þessu? Meginástæðan er sú að þegar Sjálfstfl. var síðast í ríkisstjórn beitti hv. núv. samgrh. sér fyrir því að þetta fyrirtæki, Slippstöðin á Akureyri, tók ákvörðun um það að byggja togara sem enginn kaupandi var að og ekki hafði neinar veiðiheimildir. Þetta skip er búið að vera slíkur baggi á fyrirtækinu um áraraðir að það er meginskýringin á því hvers vegna er illa komið hjá þessu fyrirtæki. Það verður ekki hægt að greiða úr þessum vanda sem m.a. núv. hæstv. samgrh. skapaði þegar hann sat í stjórn fyrirtækisins og Sjálfstfl. ber meginábyrgð á, nema með sértækum aðgerðum. Með því að setja inn í fjárlagafrv. peningaupphæð í aukið hlutafé ríkisins í Slippstöðina á Akureyri, og ég tel að það eigi að gera það, ég skal segja það strax. En í svari hæstv. iðnrh. kom hins vegar eingöngu fram gamla formúlan um að það mættu eingöngu vera almennar aðgerðir en engar áhrifaríkar sértækar aðgerðir í þágu þessara fyrirtækja sem verið er að tala um og eru nú að deyja. Þau eru nefnilega komin það illa, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að almennar aðgerðir duga bara ekki.
    Auðvitað er réttlætanlegt, þegar skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi er kominn í dauðateygjurnar, að setja fram einhverja styrki, hæstv. iðnrh., þótt það sé alveg rétt að þegar allt er í blóma og með eðlilegu ástandi þá sé ríkisstyrkja- og niðurgreiðslustefnan ekki rétt. En þegar spurningin er farin að snúast um það hvort þessi verkkunnátta, þessi tækni, þessi hæfni og þessi starfsemi sé í landinu eða ekki, þá eru mörg efnisleg rök fyrir því að setja sérstaka fjármuni með sértækum aðgerðum í að bjarga skipasmíðaiðnaðinum.
    Ég sé nú ekki að umræðan í þingflokki Alþfl. undir stjórn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hafi skilað miklu, alla vega ekki til þess að hafa áhrif á hæstv. iðnrh., vegna þess að sú ræða sem hann flutti hér er nákvæmlega sú sama og ég hef heyrt hann flytja á undanförnum árum. Þar var ekkert nýtt. ( JGS: Var það í Alþb.?) Nei, hæstv. iðnrh. var ekki í Alþb., það má nú margt um hann segja blessaðan en hann hefur ekki verið í Alþb., en ef hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefur misst þráðinn í umræðunni þá var tilefnið það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér upp sérstaklega án þess að nokkur væri að víkja orði að honum í þessum efnum og fór að segja þingheimi frá því að innan þingflokks Alþfl. hefðu á þremur fundum verið ræddar tillögur um aðgerðir í þágu skipasmíðaiðnaðarins. Hæstv. iðnrh. var síðan beðinn um að svara því hér í umræðunni hverjar væru tillögur hans. Það kom fram að hann er ekki með neinar nýjar tillögur, engar.
    Þess vegna er það alveg ljóst að þegar Alþingi stendur frammi fyrir því síðar í vetur að ræða það sérstaklega, ætla stjórnvöld að sitja hjá og horfa á skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi deyja. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh.: Hefur hann trú á því að það sem hann var að lýsa hér tryggi það, sem ég spurði um í fyrri ræðu minni, að helstu fyrirtæki í íslenskum skipasmíðaiðnaði verði starfrækt í árslok 1992? Hefur hæstv. iðnrh. virkilega trú á því að það þurfi ekki annað en það sem hann lýsti í sinni ræðu til þess að tryggja það?
    Hv. þm. Guðjón Guðmundsson, sem æskilegt væri að gæti verið hér í salnum vegna þess að hann talar ekki það oft og ég vildi gjarnan sýna honum þá virðingu að fara nokkrum orðum um það sem hann sagði hér, vegna þess að það var mjög athyglisvert, þannig að ef virðulegi forseti gæti gert ráðstafanir til þess að hv. þm. Guðjón Guðmundsson ( Gripið fram í: Hann er að hlusta.) kæmi hér í salinn vil ég segja við hann tvennt: Í fyrsta lagi var ég ekki að halda því fram að Alþfl. og Sjálfstfl. ættu alla sök á því hvernig væri komið fyrir íslenskum skipasmíðaiðnaði. Ég var hins vegar að vekja athygli á því að þessir flokkar hafa í átta ár, reyndar rúm átta ár, borið ábyrgð í Stjórnarráði Íslands á málefnum skipasmíðaiðnaðarins. Frá því geta þeir ekki hlaupið. En ég vil hins vegar þakka þingmanninum fyrir að rifja hér upp hvað gert var í þágu skipasmíðaiðnaðarins í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Það var alveg rétt hjá honum. En þingmaðurinn veit jafn vel og ég að það var nánast allt gert með sértækum aðgerðum. Öll sú viðleitni til þess að byggja upp skipasmíðaiðnaðinn í landinu, sem hv. þm. hældi sérstaklega með réttu sem fordæmi sem ætti að fylgja, byggðist á þeirri afstöðu að ríkisvaldið með sértækum aðgerðum beitti sér fyrir því að byggja upp atvinnulíf í landinu. En nú er aftur á móti forusta í Sjálfstfl., af því að hv. þm. nefndi nafn Bjarna Benediktssonar, sem er með allt aðra kenningu, hafnar algjörlega sértækum aðgerðum í þágu atvinnuuppbyggingar og hefur tekið upp þá kreddu að vegna þess að sumar sértækar aðgerðir geta verið rangar og getur vissulega verið óskynsamlegt undir ýmsum kringumstæðum, stundum oft, að beita sértækum aðgerðum, þá skuli aldrei beita þeim. Það virðist vera sú kennisetning sem byggt er á. Þess vegna er eðlilegt að menn spyrji hvað eigi að fórna mörgum fyrirtækjum á altari þessarar kennisetningar. Það hefðu þeir menn sem hv. þm. Guðjón Guðmundsson nefndi hér sérstaklega frá árunum eftir 1960 ekki gert.
    Ég vil, virðulegi forseti, endurtaka spurningar mínar tvær. Annars vegar: Hefur hæstv. iðnrh. trú á því að hægt sé að tryggja að skipasmíðafyrirtækin í landinu verði við lýði í lok næsta árs ef ekkert annað verður gert en það sem hann lýsti hér? --- Og síðan vil ég spyrja hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh.: Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að leggja fram nýtt hlutafé, viðbótarhlutafé, til Slippstöðvarinnar á Akureyri sem ríkið er megineigandi að? Samkvæmt fréttum þá virðist slík aukning hlutafjár vera meginforsenda þess að fyrirtækið geti starfað áfram. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fá svar við því í þessari umræðu eða a.m.k. fá að vita hug þessara tveggja ráðherra, hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh., til þeirrar óskar að ríkið með sértækum aðgerðum tryggi áframhaldandi rekstur Slippstöðvarinnar.