Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

40. fundur
Þriðjudaginn 03. desember 1991, kl. 19:14:00 (1534)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Það er leitt að hæstv. forsrh. skuli hafa farið úr húsinu. Mér skilst að hann sé farinn.
    Hér hefur á síðustu tveimur klukkustundum og sérstaklega síðasta hálftímann farið fram sérstök sýnikennsla stjórnarliðsins á Alþingi, sýnikennsla um það hvernig stjórnarliðar hér á Alþingi haga sér til þess að koma veg fyrir eðlilega og efnislega umræðu um mál. Það er rétt sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði áðan að þar til formaður þingflokks Alþfl. kvaddi sér hljóðs í dag hafði farið fram í þingsölum mjög athyglisverð, málefnaleg og fróðleg umræða um málefni sjávarútvegsins á Íslandi. Og ég held að allir þingmenn sem hlustuðu á þá umræðu og tóku þátt í henni geti með sanni sagt að hún var til

fyrirmyndar.
    Kemur þá í stólinn hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., og upphefur árásarræðu á Framsfl. sem var greinilega byggð á fullkominni vanþekkingu. Þingmaðurinn kunni ekki einu sinni ,,abc`` í því sem hann var að fara með, tók upp í sig með þeim hætti að menn ætluðu nú fyrst, virðulegi forseti, að leiða það hjá sér. ( Forseti: Þetta er umræða um þingsköp.) Já, já, ég er að koma að því, virðulegi forseti. Menn ætluðu fyrst að leiða það hjá sér vegna þess að menn voru að velta því fyrir sér hvort hv. þm. væri að tala í alvöru eða ekki.
    Síðan kom hann aftur upp í stólinn og þá var alveg greinilegt að formaður þingflokks Alþfl. hafði notað þetta tilefni til þess að hefja almenna árás á Framsfl. Síðan gerist það að hæstv. iðnrh. kemur upp í stólinn og viðhefur orðbragð um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, fyrrv. ráðherra, sem hefði, virðulegi forseti, verið tilefni til þess að forseti hefði vítt iðnrh. í stólnum, fyllilega tilefni til þess. Hæstv. iðnrh. kom hér upp og hóf ræðu sína á því að lýsa hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni á þann veg að hann hefði hreykt sér eins og hani á haug. Virðulegi forseti. Samkvæmt eðlilegum skyldum forseta hefði forseta borið að víta hæstv. iðnrh. fyrir þessi ummæli en það gerði forseti ekki. Forseti hélt þvert á móti áfram með umræðuna.
    Ég vil segja það, virðulegi forseti, að vegna þessarar framkomu hæstv. iðnrh. og afar ósmekklegrar árásar á hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ítreka ég þá ósk, sem hér hefur komið fram, að þessari umræðu verði nú frestað.
    Ég vil enn fremur vekja athygli á því að fyrr í dag, í tilefni af árásarræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, var óskað eftir því að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gæti verið viðstaddur framhald þessarar umræðu. Við sem þekkjum þingsöguna vitum að á síðustu þingum hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson verið í fararbroddi þeirra sem hafa verið á móti því frv. sem hér er til umræðu. Það er alveg nauðsynlegt vegna tilefnislausra og rangra ásakana hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í garð annarra þingmanna að við eigum kost á því að ræða við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson. En tilefni ræðu minnar, virðulegi forseti, er að krefjast þess í ljósi þeirra vítaverðu ummæla og framkomu sem hæstv. iðnrh. hefur haft hér í stólnum, að hæstv. forseti fresti umræðunni, slíti núna fundi þannig að ráðherrar og forustumenn stjórnarflokkanna nái ró sinni á nýjan leik svo að þingið geti haldið áfram efnislegri og málefnalegri umræðu og við komið hér saman á nýjum vinnudegi, rólegir í sinni og hæstv. iðnrh. búinn að lesa heima um mannasiði og þingsköp.